Fráveitumál sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:15:20 (4542)


[17:15]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Um það bil einum mánuði áður en umrædd þál. var samþykkt skipaði þáv. umhvrh. Eiður Guðnason sérstaka nefnd til að gera úttekt á fráveitumálum í samræmi við stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í hinni merku hvítbók en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun í samvinnu við sveitarfélögin beita sér fyrir því að gerð verði úttekt á fráveitum í öllum sveitarfélögum landsins og áætlun gerð um úrbætur.``
    Þessi nefnd var síðan skipuð 12. febr. 1992. Hlutverk þessarar nefndar fólst m.a. í því að gera úttekt á ástandi fráveitumála sveitarfélaga, móta stefnu og gera tillögu um bætta skipan fráveitumála í landinu öllu. Nefndinni var ætlað að kanna ástand fráveitumála og benda á leiðir til úrbóta sem tækju bæði mið af sérstöðu Íslands og líka þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur eða er líklegt að við munum gangast undir. Í skipunarbréfi nefndanna er sérstaklega bent á að menn skyldu hafa til hliðsjónar þær tilskipanir EB sem varða vatnsmengun og meðferð á skolpi. Það er rétt að það komi fram að í þessa nefnd voru tilnefndir fulltrúar af Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk þess samtökum tæknimanna sveitarfélaga, Hollustuvernd ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins og umhvrn. Á vegum þessarar nefndar var síðan gerð úttekt á ástandi fráveitumála um landið og starfsmaður nefndarinnar fór ásamt heilbrigðisfulltrúum sveitarfélaganna á flesta þéttbýlisstaði í landinu, kannaði aðstæður, ræddi við sveitarstjórnarmenn og tæknimenn sveitarfélaganna.
    Eftir að þáltill. var samþykkt þá óskaði ráðuneytið eftir því við fráveitunefndina að efni hennar yrði haft sérstaklega til hliðsjónar í störfum nefndarinnar. Nefndinni var falið að fara sérstaklega yfir tillöguna með tilliti til þess og sérstaklega var sá hluti tillögunnar þar sem segir að leggja eigi áherslu á, með leyfi forseta, ,,úrbætur sem leysi fráveitumál byggðanna til frambúðar frá sjónarhóli umhverfisnefndar`` hafður að leiðarljósi í starfi nefndarinnar.
    Það má líka benda á að kafli skýrslunnar sem kom frá nefndinni fjallar ítarlega um ýmis tæknileg atriði fráveitukerfa og hönnun þeirra. Við hönnun fráveitukerfis er auðvitað nauðsynlegt að afla margvíslegra upplýsinga. Í skýrslunni er fjallað um þau tækniatriði sem þarf að leysa þegar fráveitukerfi eru hönnuð og byggð og enn fremur hvernig einstök kerfi eru mjög nátengd umhverfinu og verndun þess. Þarna er líka fjallað raunar um ný kerfi og endurbætur á fyrirliggjandi kerfum. Og í greinargerð nefndarinnar koma fram tillögur sem má skipta í þrennt: Almenna stefnumótun, því sem er beint til umhvrh. sérstaklega og það sem fellur í hlut sveitarfélaga í landinu. Það er kannski rétt að gera sérstaklega grein fyrir því að nefndin leggur til að sveitarfélögin geri framtíðaráætlun um framkvæmdir í fráveitumálum þar sem tekið sé raunhæft tillit til framkvæmdagetu viðkomandi sveitarfélaga og jafnframt líka hvernig eigi að hátta fjármögnun. Og í því sambandi bendir nefndin á að ríkið verði að styðja sveitarfélögin í landinu svo að úrbætur í fráveitumálum geti hafist sem fyrst vegna þess að sveitarfélögin, einkum þau hin minni, séu einfaldlega ekki búin í stakk til að takast á hendur þetta risavaxna verkefni.
    Rétt er að það komi fram að nefndin lagði til að stuðningur ríkisins mundi jafngilda u.þ.b. fjórðungi af kostnaði við framkvæmdir í fráveitumálum sem ætti að greiðast þegar tilteknum verkþáttum væri lokið. Nefndin skilaði skýrslu þar sem tekið var tillit til efnisatriða í þeirri þáltill. sem var samþykkt 10. mars 1992. Hún hefur skilað því til ráðherra ásamt greinargerð og þessi skýrsla hefur verið send þingflokkunum og líka umhvn. Alþingis. Þetta er skýrsla sem er tæknilegs eðlis. Og af því að spurt er sérstaklega um það hvort leitað hafi verið eftir tilnefningu fulltrúa annarra ráðuneyta í nefnd um málið þá þótti það ekki nauðsynlegt á þessum tíma. En eins og ég gat um í mínu svari þá eru þarna ýmsir fulltrúar, m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélag en hins vegar er nú komið að þeim þætti að taka afstöðu til tillagna nefndarinnar, ekki síst þeirra sem varða fjármögnunina, og þá er nauðsynlegt að það komi til þess verks fulltrúar fleiri ráðuneyta, ekki síst fjmrn.