Fráveitumál sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:22:45 (4545)


[17:22]
     Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í umræðum um þetta mál. Svo vil ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans svör. Mér var ekki ljóst að það lægi fyrir skýrsla um þetta mál og úr því að svo er mun ég reyna að nálgast hana. En ég held gagnstætt þeim sem hér hafa talað um að þetta hafi tafið fyrir framkvæmdum sveitarfélaga að það sé alrangt því að staða margra sveitarfélaganna er þannig að þau hafa ekkert bolmagn til að fara í slíkar framkvæmdir. Það þarf frumkvæði og það þurfti rannsókn og það var ekki geta til þess hjá sveitarfélögunum, ég tala nú ekki um þeim smæstu, að fara út í þessar athuganir. Það er e.t.v. hjá stærstu sveitarfélögunum sem þetta var hægt en ég held að það hafi verið nauðsynlegt að fara þessa leið. Þess vegna vil ég mótmæla hv. þm. sem hafa sagt að þetta hafi tafið fyrir framgangi málsins. Nú liggur fyrir allsherjarúttekt um hvernig best verður fyrir komið málum á þennan veg og ég held að það sé grundvöllur að frekari aðgerðum.
    Síðan vil ég endurtaka þakkir mínar fyrir svörin.