Varnir gegn útbreiðslu alnæmis

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:42:46 (4552)


[17:42]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint svohljóðandi fsp.: Hvað eru heilbrigðisyfirvöld að gera í fræðslumálum til varnar útbreiðslu alnæmis?
    Nokkuð er liðið síðan sjúkdómurinn alnæmi greindist hér á landi. Hér er um alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm að ræða og því mikilvægt að fyrirbyggja útbreiðslu hans eins og frekast er unnt. Heilbrigðisyfirvöldum er fullljóst að þar skiptir fræðslan höfuðmáli. Þegar um sjúkdóm eins og alnæmi er að ræða er mikilvægt að fræðslan nái til sem flestra. Því hefur fræðslunni að miklum hluta verið beint til alls almennings. Heilbrigðisyfirvöld hafa hins vegar einnig greint ýmsa sértæka hópa, markhópa, sem þarf að ná til eftir ákveðnum leiðum, með ákveðnar áherslur í fræðslunni í huga. Sem dæmi um slíka hópa eru nemendur, kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, löggæslufólk, smitaðir einstaklingar og aðstandendur þeirra.
    Nokkrir helstu áherslupunktar í fræðslu um alnæmisvarnir á árunum 1993 og 1994 eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi fræðsla í skólum. Stefna heilbrigðisyfirvalda hefur verið sú að alnæmisfræðsla skuli að mestu fara fram samfara annarri heilbrigðisfræðslu í skólum. Sú fræðsla er nú orðið einkum í höndum kennara og starfsmanna heilsugæslustöðva. Í fylgiriti heilbrigðisskýrslu nr. 3/1993 var greint frá könnum sem gerð var á vegum landlæknisembættisins árið 1991. Þar kemur fram að á skólaárinu 1990--1991 var alnæmisfræðsla veitt í 83 þeirra grunnskóla sem hafa nemendur í 9. og 10. bekk. Talið er að þetta hlutfall hafi fremur aukist á þeim árum sem liðin eru frá því að könnunin var gerð þar sem reynt hefur verið að auka stuðning við kennara og heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir þessari fræðslu. Í því augnamiði hefur m.a. verið ákveðin samvinna við menntmrn. um áhersluþætti kennslunnar og hafa heilbrigðisyfirvöld t.d. komið fram með tillögur að fræðsluefni í skólum. Annars vegar er um að ræða námsefni fyrir nemendur, hins vegar fræðslu- og stuðningsefni fyrir kennara. Sem dæmi má nefna fræðsluefni sem ber nafnið ,,Lífsskylduákvarðanir`` og hefur nýlega verið þýtt og staðfært til notkunar í grunnskólum hér á landi.
    Nú er einnig í athugun að frumkvæði heilbrigðisyfirvalda endurskoðun á stuðningsefni við kennslu sem ber heitið ,,Alnæmisvarnir`` og var fyrst gefið út á árinu 1988.
    Í fyrrgreindri könnun koma fram upplýsingar um hvað helst stæði í vegi fyrir því að alnæmisfræðsla færi fram í öllum efstu bekkjum grunnskóla. Nú er reynt að bregðast við þeim ábendingum sem

þar koma fram.
    Í öðru lagi: Á hverju ári velja margir nemendur grunnskóla, framhaldsskóla og námsleiða, sem leiða til starfa innan heilbrigðisþjónustunnar, alnæmi og alnæmisvarnir sem sérstakt viðfangsefni til umfjöllunar í námi sínu. Til að mæta þörfum þeirra nemenda varðandi fræðsluefni hefur bókasafn landlæknisembættisins og heilbrrn. bætt verulega við bóka- og tímaritakost sinn til að vera betur í stakk búinn við að ráðleggja og leiðbeina nemendum varðandi sértækt efni til að styðjast við í umfjöllun sinni.
    Í þriðja lagi: Sífellt er verið að leita nýrra leiða til að ná til ungs fólks með fræðslu um alnæmi og alnæmisvarnir í huga. Á útihátíðum sl. sumar voru farnar nýjar leiðir til að koma upplýsingum til ungmenna. Það þótti gefast vel og er fyrirhugað að það verði gert með hliðstæðum hætti á útihátíðum á þessu ári.
    Í fjórða lagi: Sl. tólf mánuði hefur verið reynt að beina upplýsingum um alnæmisvarnir beint til þeirra sem dvelja síðla kvölds og lengi nætur í miðbæ Reykjavíkur.
    Í fimmta lagi: Í nóvember 1993 var endurútgefið fræðslurit landlæknisembættisins um kynsjúkdóma. Í því riti er kafli um alnæmi, ábendingar um hvert fólk geti leitað og listi yfir ítarefni um alnæmi og kynlíf. Þessi bæklingur liggur m.a. frammi á öllum heilsugæslustöðvum og er notaður sem fræðsluefni í skólum.
    Í sjötta lagi: Á sl. ári var að frumkvæði landsnefndar um alnæmisvarnir, en sú nefnd er skipuð af heilbrrh., haldin samkeppni um leikrit sem fjallaði um alnæmi. Tuttugu og fjögur leikritahandrit bárust. Heilbrigðisyfirvöld veittu þrenn verðlaun og hefur eitt þeirra verið sýnt á 60 stöðum, einkum á vinnustöðum og í skólum, frá því í október sl.
    Í sjöunda lagi: Í lok síðasta árs var að frumkvæði landsnefndar um alnæmisvarnir ákveðið fræðslu- og upplýsingaefni sýnt í ýmsum kvikmyndahúsum í Reykjavík.
    Í áttunda lagi: Samkvæmt niðurstöðum athugana sem gerðar hafa verið hér á landi hefur verulegur hluti smitaðra einstaklinga smitast af alnæmi erlendis. Því hefur verið ákveðið að beina fræðslu á þessu ári sérstaklega að ferðamönnum. Í tengslum við það er m.a. hafin samvinna við ferðaskrifstofur.
    Í níunda lagi: Á hverju ári reyna heilbrigðisyfirvöld að hafa milligöngu um að sérfróðir aðilar haldi fræðsluerindi í skólum, stofnunum, vinnustöðum og hjá félagasamtökum. Svo verður einnig gert á þessu ári.
    Einnig birtast árlega að frumkvæði heilbrigðisyfirvalda upplýsingar um alnæmi í fjölmiðlum.
    Í tíunda lagi: Nýlega var þess farið á leit við þá er sinna heilbrigðisþjónustu í fangelsum að þeir beiti sér fyrir því að fangar fái fræðslu um alnæmi og alnæmisvarnir.
    Hér hefur í stuttu máli verið greint frá nokkrum atriðum sem heilbrigðisyfirvöld eru að vinna að í fræðslumálum til varnar útbreiðslu alnæmis. Þá er ótalin námstefna fyrir starfsmenn heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu sem haldin var sl. haust og sem fyrirhugað er að halda einnig næsta haust, þá með öðru fræðsluefni. Einnig sú umræða sem nú á sér stað hjá heilbrigðisyfirvöldum um möguleika á aukinni þjónustu kynfræðsludeildar og útgáfu fræðirita með niðurstöðum könnunar heilbrigðisyfirvalda á kynhegðun og þekkingu á alnæmi, svo nokkuð sé nefnt.