Eftirlit með pappírslausum viðskiptum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 18:09:34 (4562)


[18:09]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans ítarlega svar við fsp. minni. Ég vil geta þess hér um leið og vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. hefur sýnt þessari nýju tækni mikinn áhuga. Ég hef lesið um það og séð í fréttabréfum að hann hefur mætt á fundum hjá þeirri nefnd sem hefur unnið að þessu máli og ég nefndi áðan.
    Ég vil fagna því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að í undirbúningi er endurskoðun á bókhaldslögunum þannig að tekið verði á þessum málum og það tryggt að endurskoðun og eftirlit með pappírslausum viðskiptum séu með viðunandi hætti og að skattalög og bókhaldslög taki tillit til þeirra nýju hátta sem eru að ryðja sér til rúms. Það er afskaplega mikið atriði að löggjöf og stjórnvöld séu ekki hemill á þessa mikilvægu þróun sem á sér stað með öflugri tölvuvinnslu og fullkomnum hugbúnaði.
    Ég vil eindregið hvetja hæstv. fjmrh. til að sjá svo til að hratt og vel verði unnið að endurskoðun á þeirri löggjöf sem þarf að taka til breytinga. Ég fagna því ef á hinu háa Alþingi sést áður en langt um líður frv. sem gerir ráð fyrir því að við tökum inn í okkar löggjöf þá mikilvægu þætti sem tengjast pappírslausum viðskiptum og á þann hátt geti Alþingi stuðlað að framþróun í viðskiptum með þeim hætti sem pappírslaus viðskipti bjóða upp á.