Dýravernd

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:01:50 (4569)


[14:01]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir falleg orð í garð nefndarinnar. Varðandi 8. gr. frv. þá kom hún til athugunar eins og aðrar greinar þess og var ákveðið að gera ekki neinar brtt. á þeirri grein. Ég skil vel að það sé nauðsynlegt að marka upp og breyta mörkum á fullorðnu sauðfé og væntanlega gildir það líka um hross og aðrar skepnur. En það er heimilt að gera það nema það þarf bara að gera með deyfingu. Ég á erfitt með að skilja að það geti verið svo mikill munur á því að marka upp hross og sauðfé þó ég hafi ekki kynnt mér það sérstaklega og get ekki dæmt um hvort það hafi meiri sálrænar þjáningar í för með sér fyrir hross en fyrir sauðfé en ég trúi því að hv. þm. Páll Pétursson viti meira um það en ég. Eftir því sem ég kemst næst þá er hægt að deyfa eyru með mjög einföldum hætti, t.d. með kælingu, ,,spraykælingu`` eða þess háttar. Það á því ekki að vera mjög erfitt eða flókið að gera þetta og niðurstaða nefndarinnar var því sú að þarna yrði ekki gerð á nein breyting. Enda reikna ég með að það geti verið jafnsársaukafullt fyrir fullorðið sauðfé að vera markað og fyrir hross og á erfitt með að skilja að það sé mjög flókið fyrir bændur eða þá sem þurfa að marka upp að nota deyfingu þegar slíkt er nauðsynlegt.