Norðurstofnun á Akureyri

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:45:18 (4578)


[14:45]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil koma hér til að lýsa ánægju minni með þá tillögu sem hér er mælt fyrir. Þetta er eins og fram hefur komið mjög vönduð og góð tillaga og sérstaklega vil ég lýsa ánægju minni með greinargerð með tillögunni þar sem skýrt er frá því samstarfi sem Ísland er aðili að, alþjóðlegu samstarfi og samvinnurannsóknir sem Íslendingar hafa tekið þátt í að einhverju leyti. Þetta þykir mér vera mjög vandað og vel undirbúið mál.
    Ég vil leggja áherslu á það sem kemur fram í greinargerðinni um það hver helstu verkefni Norðurstofnunar eigi að vera sem í tillögunni er gert ráð fyrir að verði staðsett á Akureyri. Þar yrði um að ræða rannsóknir, ekki aðeins á sviði náttúrufræða, og tel ég það mjög mikilvægt. Ég tel mjög mikilvægt að þarna verði einmitt samþætting ýmissa rannsókna, mannfræði, félagsfræði, fornleifafræði og ýmislegs fleira því að aðeins með því móti er hægt að fá samvinnu og heildstæða yfirsýn yfir málin.
    Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í starfi norrænu ráðherranefndarinnar um heimskautarannsóknir þar sem undirbúnar voru fyrir ráðherranefndina tillögur um hvernig standa ætti að úthlutun fjár að því er varðaði rannsóknir. Þá var lögð mikil áhersla, bæði af hálfu ráðherranefndarinnar sem og þeirra sem tóku þátt í starfi þeirrar nefndar, að það væru einmitt öll fræðasviðin sem kæmu þar inn í, ekki eingöngu náttúrufræðin heldur kæmi allt þar inn. Þetta held ég að skipti gífurlega miklu máli þegar um að ræða Norðurstofnun eins og hér er gert ráð fyrir, til þess að fá heildstæða sýn á líf og náttúru á norðurslóðum.
    Ég þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um þetta mál, svo vandað sem það er lagt hér fram, en að sjálfsögðu fær það umfjöllun í umhvn. og sjálfsagt vandaða umfjöllun sem og önnur mál sem þangað koma og fær væntanlega eins og þingmenn hér hafa sagt jákvæða umfjöllun og sanngjarna þar sem þetta mál er lagt fram með þeim vandaða hætti sem hér er gert.