Norðurstofnun á Akureyri

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:48:39 (4579)


[14:48]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er gjarnan svo að forustumenn stjórnmálaflokka tala á tyllidögum um það að flokkar þeirra og þeir sjálfir styðji umhverfisvernd og allt það sem lýtur að umhverfismálum. Það skýtur dálítið skökku við þegar maður lítur yfir þessa sali í dag að hér er nánast ekki nokkur maður til að hlýða á þessa umræðu, ekki síst vegna þess að það mál, sem hér er til umræðu og borið fram af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, er allrar athygli vert og mér sýnist í fljótu bragði að sé gott mál.
    Þáltill. sem hv. þm. flytur hér lýtur að því að setja á laggir sérstaka stofnun sem á að fjalla um rannsóknir á norðurslóðum og reyna að efla rannsóknir innlendra aðila og jafnframt að tengja Íslendinga inn í alþjóðleg rannsóknaferli í málum sem lúta að heimskautssvæðinu. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, þá er það svo að hugmyndir í þessa veru hafa verið á kreiki og þeim hefur verið hreyft á umliðnum árum. Mig langar þess vegna að geta þess hér að ég hygg að það hafi verið í sælli ráðherratíð Júlíusar Sólnes, fyrsta umhvrh., að sérstök nefnd var sett á laggir á vegum umhvrn. sem einmitt vélaði um hugsanlega stofnun alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar um umhverfi Norður-Atlantshafsins. Sú rannsóknamiðstöð átti að vísu að hafa aðsetur í Reykjavík. Þó þar hafi ekki verið um sambærilega stofnun að öllu leyti að ræða, þá er það eigi að síður svo að þetta sýnir að áhuginn hefur verið til staðar og komið víða fram eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um.
    Ég vil líka geta þess að forveri minn, Eiður Guðnason, fyrrv. umhvrh., setti á laggir sérstakan starfshóp í nóvember 1992 til þess að gera tillögur til eflingar umhverfisrannsóknum á Norður-Atlantshafi sem lúta fyrst og fremst að umhverfinu. Það er örskammt síðan þessi starfshópur skilaði tillögum sínum og ég held að meginefni þess álits eigi erindi inn í þessa umræðu. Þar er að vísu ekki gerð tillaga um að komið verði á fót sérstakri stofnun en þar er hins vegar sett fram hugmynd sem kynni að vera undanfari slíkrar stofnunar. Og ég beini því sérstaklega til umhvn. og raunar hv. flm. þegar kemur að meðferð þessa máls í umhvn. að taka nokkurt mið af þeirri skýrslu því að vera má að þar sé hægt að þætta saman ákveðna hluti.
    Einn af meginþáttunum í niðurstöðu starfshópsins er að komið verði á fót samstarfsráði innlendra rannsóknastofnana á sviði umhverfismála til þess að tryggja tengsl og samhæfingu þeirra sem búa yfir vísindalegu atgervi og eru þátttakendur í einhvers konar rannsóknum á þessu sviði. Í dag er það svo að þessar rannsóknir eru allt of laustengdar. Það eru fjölmargar stofnanir sem eru að vinna að þessum málum og

það hefur nokkuð skort, þykir mér, á samhæfingu þeirra. Hins vegar er það svo að með þátttöku okkar í Rovaniemi-ferlinu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lauk lofsorði á hér fyrr í umræðunni, þá hefur komist á vísir að slíkri samhæfingu. Innan þess ferlis, sér í lagi AMAP-hópsins, hafa menn meiri yfirsýn yfir rannsóknirnar og þær eru hnitmiðaðri en ella, en eigi að síður mætti gera miklu betur þar.
    Í þessu áliti starfshópsins sem ég gat um hér áðan var bent á það að samstarfsráði þessara innlendu aðila sem vinna að rannsóknum á sviði umhverfismála væri jafnframt ætlað að vera vettvangur tengsla við erlendar stofnanir og erlendar rannsóknaáætlanir sem sinna umhverfismálum eða umhverfisvöktun. Þar var m.a. bent á nauðsyn þess að koma á virkum tengslum við alþjóðlegar umhverfisvöktunaráætlanir, m.a. um alþjóðleg hafvöktunarkerfi og fjarkönnun, og jafnframt að tryggja vinnuaðstöðu til rannsókna, þjálfunar og úrvinnslu vöktunarmælinga í tengslum við þessar alþjóðlegu rannsóknaáætlanir sem hv. flm. drap einmitt hér á.
    Ég held að þessi tvö mál séu alls ekki svo óskyld. Nú er það svo að þetta ágæta mál sem hér er flutt af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni mun væntanlega eins og svo mörg þjóðþrifamál velkjast nokkurn tíma, því miður liggur mér við að segja, áður en um það næst fullkomin sátt. Það er gjarnan svo þegar lögð eru fram mál sem kannski brjóta í blað að það þarf dálítinn tíma til að opna hug manna til skilnings á gildi þeirra. Ég held að þess vegna gæti hugmyndin um samstarfsráð verið eins konar vísir að slíkri stofnun.
    Eðli umhverfisrannsókna er þannig að það eru menn úr mjög ólíkum greinum vísinda sem koma þar að, menn sem stunda grasafræði, veðurfræði, jafnvel sögu. Þess vegna gæti það verið talsvert erfitt að búa til stofnun sem hefði yfir öllu þessu að ráða þannig að þegar henni yndi fram, þegar hún þróast, mundi hún væntanlega byggja slíkt net út í ýmsar stofnanir.
    Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, af því að hv. flm. gerir það að nokkrum áherslupunkti í sinni vel unnu tilögu að það sé nauðsynlegt að læsa hina innlendu vísindamenn inn í alþjóðlegar rannsóknaáætlanir sem varða heimskautasvæðið, að í þessari skýrslu er einmitt að finna yfirlit yfir þær áætlanir sem eru í gangi sem tengjast þessu svæði. Það er álit starfshópsins að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að verða Íslendingum úti um allnokkrar fjárhæðir til rannsókna einmitt hér á Íslandi eða rannsókna sem tengjast Íslandi en varða þetta svæði og þessu vildi ég koma hér á framfæri.
    Ég er líka ánægður yfir þeim hluta tillögunnar sem lýtur að staðsetningu þessarar stofnunar. Ég er þeirrar skoðunar að á Akureyri séu að byggjast upp í kringum háskólann og ýmsar stofnanir sem þar eru, ekki síst styrkt setur Náttúrufræðistofnunar Íslands, akademískt umhverfi sem nú þegar er farið að hafa áhrif á athafnalíf á staðnum og á án efa eftir að styðja það verulega þegar fram líða stundir. Allt nýtt vísindalegt atgervi sem er flutt til Akureyrar styrkir þetta umhverfi, styrkir sköpun nýrra hugmynda, eflir það hugvit sem þar er verið að setja saman í einn sjóðandi pott nýrra hugmynda. Og það er held ég mjög gott fyrir þennan stað og þó að þessi Norðurstofnun sé ekki enn orðin að veruleika, þá er staðsetningin mjög í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar, sem hefur komið glöggt fram, að það ber eftir því sem kleift er að flytja stofnanir ríkisins út um land.