Norðurstofnun á Akureyri

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:56:41 (4580)


[14:56]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og ágætar undirtektir allra sem hafa talað við þetta mál. Mér finnst það endurspegla það að málið sé ef svo má orða tímabært, e.t.v. komnir vísar að þessu allvíða, farnir að skjóta rótum, þ.e. menn séu farnir að átta sig á að það þurfi að taka samhæft á málum sem varða norðrið, bæði sjálfstætt út frá okkar eigin landi og umhverfi þess sem og til þess að taka burðugan þátt í alþjóðlegu samstarfi um þessi mál.
    Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu hér og lýsa þeim stuðningi við þessa hugmynd sem fram kom í máli hans sem og þær upplýsingar sem voru nýjar fyrir mig að það hefði verið unnið að athugun þessara mála á vegum Stjórnarráðsins í sérstökum starfshópi og ég tek undir það að auðvitað er sjálfsagt að líta á slíkar hugmyndir við athugun málsins í nefnd og mjög kærkomið áreiðanlega að fá í þingnefndina þetta álit til skoðunar í tengslum við meðferð málsins þar og umfjöllun alla.
    Ég tek undir það mat, sem hér hefur komið fram í umræðunni um staðsetningu á Norðurstofnun, að Akureyri á að hafa alla burði til þess að geta þróað slíka stofnun og hlúð að henni jafnhliða því sem hún ætti að geta orðið til styrktar því sem þar er fyrir og eins og réttilega hefur hér komið fram þá er hugmyndin að tengja verkefnin inn á sem flest fræðasvið, því að það er langt frá því að þar sé það náttúrufræðin ein sem um að ræða. Einnig hin húmanísku fræði og allt þar á milli á sínar rætur á norðurslóðum og býr þar við sérstök skilyrði sem og öll menning norrænna þjóða fyrr og síðar hefur verið mótuð af og einnig þessum þáttum ber að sinna.
    Það kemur fram í tillögunni eins og þegar hefur verið rakið að það er ekki hugmyndin að þessi stofnun geti sjálf lagt til vísindamenn og framlög á hinum einstöku sviðum þó að þar þurfi að sjálfsögðu að vera innan veggja þekking og starfskraftar til þess að taka á málum en henni er alveg sérstaklega ætlað að verða miðstöð eða samhæfingaraðili þeirrar innlendu starfsemi sem fram fer í landinu á hverjum tíma í þessum efnum. Og það held ég að sé eins og hér hefur líka verið tekið undir mikil nauðsyn og þar höfum við í rauninni margt meira kannski fram að leggja heldur en við höfum gert okkur grein fyrir sjálf og

getum miðlað öðrum af því sem við höfum þegar unnið á þessum sviðum eða erum að sinna á hverjum tíma.
    Ég vil nefna það hér að í tengslum við þetta mál eða til hliðar við þetta mál kannski öllu heldur hef ég verið að líta til þessa norðursvæðis á vettvangi Norðurlandaráðs og þar eru nú til meðferðar og skoðunar í umhvn. Norðurlandaráðs um þessar mundir tvær tillögur sem varða norðurslóðir. Önnur þeirra um sjálfbæra þróun á norðurskautssvæðinu þar sem því er beint til norrænu ráðherranefndarinnar að skilgreina forsendur fyrir sjálfbærri þróun í norðri og láta kortleggja nýtingu auðlinda og vinna að því á alþjóðavettvangi að allri losun hættulegra efna verði hætt fyrir árið 2000, þeirra sem skaðað geta norðlægt umhverfi. Þarna er einnig gert ráð fyrir undirbúningi að stóru náttúruverndarsvæði í Barentshafi sem taki m.a. til Svalbarða og Frans Jósefslands en sú hugmynd er vissulega ekki ættuð eða runnin upp hjá flm. heldur hjá norskum náttúruverndarsamtökum sem hafa hreyft tillögum í þessa átt og hugmyndin er að fá stuðning á norrænum vettvangi fyrir þessu myndarlega verndarsvæði sem þarna er um að ræða.
    Hin tillagan sem er þarna einnig og ég vil leyfa mér að geta aðeins um af því að hún tengist náið þessu málefni sem hér er til umræðu, að jafnaði erum við ekki að tíunda mikið þau verkefni sem við erum að reyna að sinna á norrænum vettvangi, en hún snertir aðgerðir til að draga úr hættu af kjarnorku á norðurslóðum. Norrænu ráðherranefndinni er ætlað að gefa yfirlit um hernaðarlega og almenna notkun kjarnorku í norðri, að meta hættuna sem henni tengist og Norðurlönd beiti sér á alþjóðavettvangi að því að dregið verði úr ógninni á áframhaldandi kjarnorkuvopnakapphlaupi, losun geislavirks úrgangs og annarri misnotkun heimskautasvæðanna með kjarnorku. Það er gert ráð fyrir því að ríkin átta, norðurskautsríkin, setji sérfræðingahóp á laggirnar til að leggja á ráðin um efni sem tillagan fjallar um, þar á meðal hernaðarmálefnin og möguleika á að styrkja afvopnunarviðræður að því er varðar norðurslóðirnar sérstaklega en það er mikið áhyggjuefni að þær hafa ekki beinst að þeim sérstaklega og jafnvel nú á dögum þíðunnar að loknu köldu stríði þá er ógnarvopnunum að fjölga í Norðurhöfum að margra mati. Allt eru það áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga sem og hitt sem er að gerast á Bretlandseyjum um þessar mundir og hlýtur að vera í okkar allra huga, þ.e. sú starfsemi sem getur hafist hvern dag í rauninni úr þessu, en þar bíða menn spenntir eftir dómum í málum sem höfðuð hafa verið til þess að reyna að stöðva eða fá nánari umfjöllun af starfsemi sem tengist THORP-endurvinnslustöðinni við Sellafield. Þau efni snerta vissulega norðurslóðir og eitt af okkar markmiðum náttúrlega með þátttöku í alþjóðlegum rannsóknum á þessu svæði er að halda því ómenguðu, halda auðlindum þess í sem bestu horfi þannig að þróunin verði sjálfbær á þessu svæði. Fátt skiptir okkur Íslendinga meira og ég vona það að af þeim málflutningi sem felst í þessari tillögu megi nokkuð spretta fyrr en síðar. Á því tel ég allmikla þörf.