Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 15:31:10 (4587)


[15:31]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vernd Breiðafjarðar sem er á þskj. 566. Þetta frv. var samið í umhvrn. að minni tilstuðlan og efni þess borið undir fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem málið varðar. Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, hafði umsjón með gerð frv. en honum til aðstoðar voru þeir Ævar Petersen og Haukur Jóhannesson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Gísli Gíslason landslagsarkitekt og Friðjón Þórðarson, fyrrv. alþm., kom jafnframt að verki og veitti góðar ráðleggingar.
    Það er langt síðan, virðulegi forseti, að það hófst umræða um að vernda náttúru Breiðafjarðar og menningarminjar í firðinum. Náttúruverndarþing, náttúruverndarsamtök heimamanna í Breiðafirði og fleiri aðilar hafa ályktað um nauðsyn þess að vernda náttúru Breiðafjarðar með einhverjum hætti og svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá í hálfan annan áratug. Alþingi ályktaði árið 1978 að tillögu Friðjóns Þórðarsonar, þáv. alþm., með leyfi forseta, ,,að skora á ríkisstjórn að stuðla hið fyrsta að því að hið fjölþætta lífríki Breiðafjarðar verði kannað og verndað, eftir því sem þurfa þykir, í samráði við heimamenn og náttúruverndarsamtök.``
    Í greinargerð með þessari framsýnu tillögu Friðjóns segir m.a. að hugmyndir hafi komið fram um setningu sérstakra laga um vernd Breiðafjarðar líkt og gildi um Mývatn og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er jafnframt tekið fram í greinargerðinni að þótt bráður háski vofi ekki yfir Breiðafirði sé eðlilegt og sjálfsagt að athuga þessi mál í tæka tíð og gera viðeigandi ráðstafanir af þurfa þykir.
    Í framhaldi af þessari ályktun Alþingis skipaði svo menntmrh. nefnd þriggja manna til að gera tillögur um hvernig skyldi haga könnun og vernd lífríkis fjarðarins. Nefndin hélt marga fundi, aflaði margvíslegra gagna, en lyktir hennar urðu þær að hún lauk aldrei störfum.
    Aðdragandi þessa frv. sem ég mæli fyrir er m.a. sá að sl. sumar ræddi ég við ýmsa sveitarstjórnarmenn við Breiðafjörð um það hvernig yrði best staðið að vernd náttúru og menningarverðmæta í firðinum og eflingu byggðarinnar. Í framhaldi af því var ákveðið að kanna möguleika á að setja sérstök lög um vernd Breiðafjarðar þar sem væri höfð hliðsjón af lögunum nr. 36/1974, um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Það þótti heppilegra, virðulegi forseti, að setja sérstök lög um verndina fremur en stofna þjóðgarð, friðland eða fólkvang samkvæmt gildandi lögum um náttúruvernd og var talað um að vernd byggð á ákvæðum gildandi náttúruverndarlaga gæti orðið erfið í framkvæmd og veitti ekki nægjanlegt svigrúm. Ef Breiðafjörður væri óbyggður væri eflaust fyrir löngu búið að stofna þar þjóðgarð með öllum þeim takmörkunum og reglum um umferð og umgengni sem því fylgir. ( JGS: Það á sem sagt að eyða byggð þar?) Byggð er hins vegar mikil sem betur fer við Breiðafjörð --- og ég var einmitt að lýsa því, hv. þm., sem nú var rétt að ganga í salinn, að það væri ekki tekinn sá kostur heldur annar. --- Byggð er hins vegar sem betur fer mikil við Breiðafjörðinn og fólk byggir þar afkomu sína að verulegu leyti á því að nytja gæði náttúrunnar. Ferðamenn sækja jafnframt í vaxandi mæli til Breiðafjarðar til að njóta sérstæðrar náttúru og skapa með því möguleika á margvíslegri atvinnustarfsemi sem tengist ferðamennsku. Það er þess vegna ljóst að að taka verður tillit til margra ólíkra sjónarmiða eigi að vernda náttúru Breiðafjarðar og menningarminjar í firðinum og tryggja jafnframt blómlega byggð þar um ókomin ár. Ég tel að setning sérlaga veiti það svigrúm sem er nauðsynlegt til að samræma þessi ólíku sjónarmið og ólíka hagsmuni og það er þess vegna sem það er lagt til í frv. að sú leið verði farin, ekki síst vegna þess að höfð er hliðsjón af því að vel hefur tekist til um sérlög sem sett voru um Mývatn og Laxá.
    Þegar ákvörðun hafði verið tekin um að kanna möguleika á að setja sérstök lög um vernd fjarðarins þá var gagna aflað á vegum ráðuneytisins um náttúrufar á svæðinu, menningarverðmæti, nýtingu hlunninda, atvinnuhætti, umferð ferðamanna og önnur atriði sem varða málið.
    Í framhaldi af því var ákveðið að kanna hug íbúa Reykhólahrepps í Austur-Barðastrandarsýslu og íbúa Saurbæjarhrepps, Skarðshrepps og Fellsstrandarhrepps í Dalasýslu til lagasetningar um vernd eyja, hólma og strandlengju í landi þessara hreppa allra. Á fundi sem var haldinn í Vogalandi í Króksfjarðarnesi 20. okt. ræddi ég hugmyndina við fulltrúa hreppsnefnda og náttúruverndarnefnd á þessu svæði. Viðtökurnar voru mjög góðar og fundarmenn voru á einu máli um að það væri þarft að setja slík lög. Það kom fram m.a. í máli heimamanna að þeir telja lagasetninguna ekki aðeins nauðsynlega til að vernda viðkvæma náttúru, heldur veiti hún þeim möguleika til að standa skipulega að uppbyggingu og aðstöðu fyrir ferðamenn og þar með stýra þróun ferðamennsku á komandi árum. Menn voru jafnframt á því að lögbundin vernd mundi lyfta svæðinu eins og sumir orðuðu það, vekja athygli á sögu og náttúru Breiðafjarðar, bæði innan lands og erlendis og skapa þar með nýja möguleika á sviði ferðamála. Og niðurstaða þessa fundar sem ég var að minnast á í Króksfjarðarnesi var að áfram skyldi unnið að málinu með þessum hætti.
    Eftir þennan fund var ákveðið að kanna hvort það væri áhugi fyrir því að stækka það svæði sem lögin mundu ná til. Um miðjan desember var síðan fundað með fulltrúum hreppsnefnda, náttúruverndarnefnda og héraðsnefndar í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu til að kanna hvort vilji væri til að stækka fyrirhugað nefndarsvæði þannig að það næði líka til hreppa í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Þessi fundur var vel sóttur og það var samstaða um að stefnt skyldi að setningu laga um vernd Breiðafjarðar sem næði til sem flestra eyja, hólma og skerja á firðinum og allrar strandlengju í innri hluta hans. Í bréfi sem ráðuneytinu barst frá Stykkishólmsbæ, dags. 21. des. sl., segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Fagnar bæjarráðið fram komnum hugmyndum umhvrn. um friðun Breiðafjarðar og strandlengjunnar við fjörðinni og lýsir sig reiðubúið fyrir hönd Stykkishólmsbæjar að vinna að áframhaldi málsins.``
    Þeim sveitarstjórnum í Austur-Barðastrandarsýslu, Dalasýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu sem málið varðar voru send til umsagnar drög að frv. til laga um vernd Breiðafjarðar skömmu fyrir jól. Í framhaldi af því efndi ég til fundar með fulltrúum þeirra í Stykkishólmi 12. jan. sl. til að ræða þessi drög. Fundarmenn höfðu ekki athugasemdir við drögin og var þá í ljósi samstöðunnar ákveðið að leggja frv. fram

á þessu þingi.
    Ráðuneytinu barst líka bréf sem er ástæða til að nefna frá sveitarstjóranum í Grundarfirði, dags. 14. jan. Þar segir m.a. að hreppsnefnd Eyrarsveitar hafi fjallað um drögin á fundi sínum 13. jan. og hún gerði ekki sérstakar athugasemdir við það. Í bréfinu kemur fram að hreppsnefndarfulltrúar telja það jákvætt við frumvarpsdrögin að sýnd sé viðleitni til að ná utan um þetta svæði með ákveðnum hætti til þess að á markvissan hátt megi vernda þessa náttúruperlu fyrir ágangi, raski og mengun.
    Það er líka sagt frá því í bréfinu að einstakir hreppsnefndarmenn óttist að málið gangi ekki fram eins og til er stofnað. Og þeir nefna sem dæmi að þeir hafi áhyggjur af því að Breiðafjarðarnefnd geti í skjóli verndar lífríkis staðið í vegi fyrir framfaramálum, svo sem brú yfir Kolgrafarfjörð. Þess vegna vil ég nefna það að slík brúargerð er háð staðfestri skipulagsáætlun og mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 63/1993, og það er þess vegna ekki ástæða til að óttast valdsvið Breiðafjarðarnefndar hvað þetta varðar.
    Helstu markmiðin með setningu laga um vernd Breiðafjarðar eru:
  1. Að vernda landslag, eintakar jarðmyndarnir og lífríki.
  2. Að tryggja vernd meningarminja.
  3. Að búa í haginn fyrir vaxandi fjölda ferðamanna og tryggja almenningi aðgang að náttúru fjarðarins og sögu án þess að spjöll hljótist af.
  4. Að stuðla að auknum rannsóknum á lífríki og jarðfræði Breiðafjarðar.
  5. Að renna styrkari stoðum undir eyjabúskap og aðra hefðbundna nýtingu hlunninda á Breiðafirði.
    Í frv. er gert ráð fyrir að í lögunum verði einungis almenn verndarákvæði sem gilda skulu um allt svæðið sem lögin taki til. Í reglugerð sem sett verði samkvæmt lögunum og í fullri samvinnu við heimamenn verði hins vegar kveðið nánar á um framkvæmdina og reglur settar um þá þætti sem skipta máli.
    Í athugasemdum við frv. er fjallað ítarlega um náttúrufar í Breiðafirði og menningarminjar. Þar er einnig sagt frá búsetu við fjörðinn, eignarhaldi á Breiðafjarðareyjum og nýtingu hlunninda. Það er ekki ástæða til að rekja þessi atriði hér enda geri ég ráð fyrir því að fróðleiksfúsir þingmenn lesi sér til fróðleiks og skemmtunar þær athugasemdir. Ég ætla þó að nefna hér nokkur atriði sem er vert að hafa í huga þegar ákvörðun er tekin um framtíð þessa mjög svo merkilega svæðis.
    Breiðafjörður er stærsta samfellda votlendissvæði landsins og fjörðurinn er kunnastur fyrir mikinn fjölda eyja, hólma, skerja og boða. Eyjarnar á Breiðafirði hafa löngum verið taldar til þeirra náttúrufyrirbrigða sem eru álitin óteljandi líkt og Vatnsdalshólar og vötnin á Arnarvatnsheiði. Mér er þó sagt af fróðum mönnum að tala þeirra sé líklega um 2.500 á firðinum öllum. Þá eru að vísu ekki taldir með hólmar, sker eða boðar.
    Í innanverðum firðinum er mikið grunnsævi og sjávarfalla gætir meira í Breiðafirði heldur en flestum öðrum strandsvæðum við landið og þar er mesti munur flóðs og fjöru á sjötta metra. Vegna þessa og eyjafjöldans er talið að á Breiðafirði sé yfir helmingur strandlengju Íslands. Þarna er t.d. verulegur hluti af öllum þangfjörum á Íslandi með óvenju auðugu lágdýralífi sem þrífst í skjóli víðáttumikilla þang- og þaraskóga. Lífmagn í fjörum og á grunnsævi er mikið og líffræðileg áhrif þessara svæða ná langt út yfir þeirra mörk, hvort heldur upp á land eða út á dýpri hafsvæði. Má líka nefna að stofnar hryggdýra eru yfirleitt stórir í Breiðafirði vegna mikils framboðs á fæðu fyrir fiska, seli, hvali og fugla.
    Fuglar eru raunar mjög áberandi í lífríki Breiðafjarðar. Sjófuglar eru algengastir fugla á firðinum og mest áberandi. Þeir hafa verið nytjaðir um aldir og svæðið telst vera með þýðingarmestu sjófuglabyggðum landsins þótt eiginleg fuglabjörg séu þar bæði lítil og lág. Fuglalífið er afar fjölskrúðugt og þar er umtalsverður hluti af stofnum sumra tegunda í landinu, t.d. lunda, æðarfugls, teistu, svartbaks og hvítmávs. Hæsta hlutfallið er e.t.v. í stofnum toppskarfs og dílaskarfs því að það er svo að um það bil 90% af skörfum landsins verpa á Breiðafirði. Og það er líka talið að um 70% af árvissum varpfuglum landsins verpi í Breiðafirði og þar á meðal eru sjaldséðir fuglar. Fimmtungur íslenska þórshanastofnsins er að finna þar og rúmlega helmingur af öllum haförnum landsins eiga sér varplönd í firðinum. Þá er Breiðafjörður líka mikilvægur áningarstaður vor og haust fyrir fargesti á leið til og frá varpstöðvum í norðlægari löndum, þar á meðal margæs og rauðbrystingur, en 60% af þeim 300 þúsund rauðbrystingum sem koma hér við vor og haust nýta sér fjörur á Breiðafirði.
    Báðar íslensku selategundirnar, útselur og landselur, kæpa á Breiðfirði og þar er líkast til að finna fimmtung af öllum landselum við Ísland og allt að helming allra útsela. Hvalir eru algengir í Breiðafirði. Þar má oft sjá ýmis smáhveli, svo sem hnísu, höfrungategundir, háhyrning og hrefnu.
    Breiðafjarðareyjar eru líka mjög gróskumiklar þótt hrjóstrug og gróðurvana sker séu einnig ótal mörg. Það hafa fundist 229 tegundir háplantna í eyjunum en það mun vera um helmingurinn af náttúrulegri flóru landsins. Ein þessara jurta, flæðarbúi, hefur hvergi fundist hér á landi nema á þessum slóðum og þar er líka að finna aðra mjög sjaldgæfa jurt, villilauk.
    Það hefur verið búið í Breiðafirði allt frá því að land byggðist og þar eru líka mjög gamlar mannvistarleifar sem hafa varðveist. Þessar mannvistarleifar bera margbreytilegu mannlífi glöggt vitni og segja sögur sem er nauðsynlegt að varðveita. Hlunnindabúskapur hefur hvergi verið meira áberandi hérlendis en á Breiðafirði og mönnum þótti löngum betra að búa þar en nokkurs staðar annars staðar á Íslandi. En eins og ég sagði áðan þá er í athugasemdum með frv. nánar og ítarlegar greint frá bæði búsetu og hlunnindanýtingu við fjörðinn.

    Ég vil nú, virðulegi forseti, víkja að nokkrum atriðum í einstökum greinum þessa frv. Eins og kemur fram í 1. gr. þá er tilgangur laganna að stuðla að vernd Breiðafjarðar sem nái til landslags, einstakra jarðmyndana, lífríkis og menningarminja. Það er stefnt að því að varðveita náttúrufar fjarðarins og menningarminjar eftir því sem hægt er með hliðsjón af æskilegri þróun byggðar og atvinnuháttum þess fólks sem svæðið byggir. Jafnframt eins og kemur fram af öðrum ákvæðum frv. að tryggja blómlega byggð við Breiðafjörð.
    Í 2. gr. eru dregin mörk þess svæðis sem ákvæði frv. ná til og er gert ráð fyrir því að Hagadrápssker, Oddbjarnarsker, Stagley og Höskuldsey séu að öllu leyti innan þessa svæðis.
    Samkvæmt 3. gr. fer umhvrh. með stjórn mála er varða vernd Breiðafjarðar en honum til aðstoðar og ráðgjafar verður Breiðafjarðarnefnd og það er nauðsynlegt að undirstrika að hún verður skipuð heimamönnum úr Breiðafirði að meiri hluta.
    Hvernig tekst til með framkvæmdina mun að verulegu leyti velta á skilningi og vilja heimamanna til að laga atvinnuhætti og þróun mannlífs að náttúru fjarðarins og það er þess vegna sem er eðlilegt að þeir hafi meiri hluta í nefndinni. Án virkrar þátttöku þeirra gæti reynst afar erfitt að samræma þau ólíku sjónarmið sem óhjákvæmilega munu koma upp.
    Ég vil jafnframt beina þeim tilmælum til hv. þingnefndar sem fær frv. til meðferðar að umræðu lokinni að skoða sérstaklega hvort það sé ástæða til þess að fjölga fulltrúum í Breiðafjarðarnefnd. Það er ýmislegt sem mælir með því að íbúar úr Breiðafjarðareyjum eða þeir sem nytja eyjarnar tilnefni einn fulltrúa í nefndina. Slíkar athugasemdir komu fram á fundi með okkur. Það kom raunar líka fram að það munu ekki vera nein sérstök samtök með þessu fólki þannig að það er e.t.v. nokkur hængur á því að velja sérstaklega fulltrúa þess, en ég tel að þetta sé atriði sem menn ættu að íhuga vel í nefndinni.
    Samkvæmt 4. gr. frv. verður almenna reglan sú að hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask er óheimilt nema að fenginni umsögn Breiðafjarðarnefndar og í framhaldi af henni samþykki ráðherra. Það þarf hins vegar ekki leyfi ráðherra fyrir byggingum eða gerð mannvirkja sem eru í samræmi við staðfesta skipulagsáætlun né heldur fyrir nauðsynlegum og eðlilegum framkvæmdum vegna búskapar á lögbýlum svo framarlega að þær valdi ekki spjöllum á menningarminjum eða náttúruverðmætum.
    Í 5. gr. er kveðið á um að Breiðafjarðarnefnd skuli gera tillögur að reglum um vernd lífríkis á svæðinu, skynsamlegri nýtingu þess sem ráðherra staðfestir með reglugerð. Það er gert ráð fyrir að hefðbundnar nytjar haldist og önnur auðlindanýting verði í samræmi við markmið verndarinnar. Ákvæði greinarinnar taka til eyja, hólma, skerja og strandlengju en ekki til grunnsævis eða sjávarbotns í samræmi við 2. gr. frv. Það skal miðað við það að umferð um svæðið verði með þeim hætti að það valdi ekki óþarfa truflun fyrir fuglalíf um varptíma eða hafi önnur neikvæð áhrif á lífríkið.
    Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skal setja í reglugerð ákvæði um aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu sem eru viðkvæmir vegna náttúrufars. Ásókn ferðamanna í Breiðafjarðareyjar hefur aukist verulega á undanförnum árum og ég tel afar líklegt að ferðamönnum muni fjölga mikið á næstu árum, ekki síst þegar fjarlægðin milli Reykjavíkur og þessa svæðis minnkar með tilkomu ganganna. ( Gripið fram í: Þau koma aldrei.) Þau koma víst. Það er þess vegna brýnt að setja reglur um umgengni, ( JGS: Það er miklu þægilegra heldur en bjóða sig fram . . .  ) ekki síst t.d. yfir varptíma fugla og á öðrum viðkvæmum tímum.
    Það er líka afar þýðingarmikið að samkvæmt 6. gr. frv. á að vera heimilt að leyfa starfrækslu náttúrurannsóknastöðvar á Breiðafirði. Lífríki Breiðafjarðar, jarðmyndanir og saga bjóða upp á margvísleg, ég leyfi mér að segja óþrjótandi rannsóknaverkefni. Það eru óvíða jafngóð skilyrði til þess að vinna að margvíslegum náttúrurannsóknum sem hafa ekki aðeins staðbundna þýðingu heldur einnig almennt vísindalegt gildi. Slíkar rannsóknir hljóta að verða sá grunnur sem vernd náttúrunnar og skynsamleg nýting hennar byggist á og þess vegna hlýtur að vera verulegur fengur að slíkri rannsóknastöð. Hún hlýtur að vera bæði heimamönnum og öðrum til ráðuneytis um allt það sem lýtur að vernd svæðisins. Það er gert ráð fyrir að það verði samið við heimamenn um slíka rannsóknastöð, rekstur hennar, skipulag og hlutverk.
    Ég vil líka nota tækifærið til að segja frá því að það hefur verið ákveðið að leggja til að Breiðafjörður verði tilnefndur sem rannsóknasvæði í sameiginlegu norrænu verkefni um vöktun náttúru á strandsvæðum. Undirbúningur mun hefjast á þessu ári en það verður ekki ljóst fyrr en á haustmánuðum hversu viðamiklar þessar rannsóknir verða.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka sveitarstjórnarmönnum við Breiðafjörð þá framsýni sem þeir hafa sýnt við umræðu um þetta mál. Reynslan af lögunum um Mývatn og Laxá sem voru sett árið 1974 sýnir vel mikilvægi þess að setja lög um vernd stórra svæða sem þykja merkileg sökum náttúrufars. Þau lög eru fyrirmynd þessa frv. og ég vænti þess að árangur verði jafnmikill eða jafnvel meiri ef þetta frv. verður að lögum.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. umhvn.