Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 16:08:35 (4590)


[16:08]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhvrh. fyrir það frv. um verndun Breiðafjarðar sem hér er til umræðu. Ég þakka honum sérstaklega fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt með framlagningu þess á verndun fjarðarins og eflingu byggðar á svæðinu eins og fram kemur í greinargerð. Greinargerð með frv. er mjög vönduð og er ástæða til að lýsa sérstakri ánægju með það að með slíku frv. fylgi jafnágæt greinargerð, enda er um að ræða afar viðamikið viðfangsefni þar sem er væntanlega verndun lífríkis fjarðarins og alls þess umhverfis.
    Um aldir hefur Breiðafjörðurinn verið matarkista íbúanna sem byggt hafa eyjar og búið við strönd fjarðarins. Þeir sem við fjörðinn búa hafa lært að umgangast náttúruna og þær auðlindir sem í firðinum eru, í sjó og á landi. Það hlaut því að vekja athygli þegar fram kom stjfrv. um verndun Breiðafjarðar. Að vonum var því fagnað af heimamönnum og þeim sem þekkja hið viðkvæma fuglalíf og það flókna og fjölbreytta lífríki sem fjörðurinn, eyjarnar og ströndin býr yfir. En ég held að menn hafi ekki átt von á því að með lögum ætti að flytja verulega mikinn hluta af öllum umráðum til umhvrh. eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Ég fagna framkomnu frv. eins og ég gat um í upphafi, en ég tel engu að síður nauðsynlegt að gera mikilvægar breytingar á frv. til þess að það nái tilgangi sínum. Auk þess tel ég afar mikilvægt og nauðsynlegt að reglugerð, sem gert er ráð fyrir að sett verði, liggi fyrir í meginatriðum áður en frv. verður samþykkt og verður að lögum frá Alþingi. Reglugerðin skiptir geysilega miklu máli og ég er viss um að þeir sem þetta frv. snertir mest vilja vita með hvaða hætti á að standa að framgangi mála.
    Þegar við fjöllum um þetta frv. hljótum við að velta því fyrir okkur í hverju vernd er fólgin Í hverju er vernd Breiðafjarðar fólgin? Er hún fólgin í því að leggja áherslu á nýtingu undir ströngu eftirliti og á ábyrgð heimamanna eða er hún fólgin í því að vernda umhverfið, lífríkið, fyrir hvers konar nýtingu auðlindanna og umgengni um svæðið? Þarna er um að ræða tvö meginsjónarmið og ég er sannfærður um að um þau verða deildar meiningar. Það skiptist mjög í tvö horn, annars vegar sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna sem vilja hefta umgang og nýtingu bæði umhverfis alls og auðlinda og þeirra sem lifa af hlunnindum Breiðafjarðar t.d. og sem kunna og vilja nýta þau og umgangast lífríki hafsins og umgangast dýraríkið og allt sem lýtur að því á þann hátt að sem best megi veiða án þess að gengið sé á náttúruna og auðlindir. Þarna eru, eins og ég sagði, e.t.v. að nokkru leyti tvö andstæð sjónarmið en við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir því á hvaða leið frv. er. Hvað viljum við leggja megináherslu á með löggjöf? Er það áhersla á að nýta svæðið eða á að vernda það með því að forðast alla nýtingu og umgengni?
    Ég tel meginsjónarmið höfunda frv. afar merkileg og vil ítreka það og endurtaka, svo ekki valdi neinum misskilningi, að ég styð að sjálfsögðu verndun svæðisins en ég legg áherslu á að þrátt fyrir verndun þess sé lögð áhersla á að nýta svæðið og leyfa eðlilega umgengni um það.
    Vegna þess að um það er getið í grg. með frv. að það m.a. byggi á þeirri hugmyndafræði sem fólst í þáltill. sem Friðjón Þórðarson, fyrrum þingmaður Vesturlandskjördæmis, flutti og var samþykkt á Alþingi, vil ég segja að ég er sannfærður um að meginhugsun þeirrar þáltill. var að vernda og friða fjörðinn og umhverfið með það í huga að fólkið sem þar býr ætti greiðan aðgang að auðlindunum og ætti greiðan aðgang um svæðið til þess að njóta þess og geta nýtt það. Ég tel hins vegar að megingalli, ef hægt er að tala um galla, á frv. sé sá að með því er vald heimamanna yfir málefninu takmarkað. Ég tel að valdið sé skert með frv. og vona svo sannarlega að úr því megi bæta eða þá að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir því hvernig það er hugsað. Eins og frv. liggur fyrir finnst mér um of vera gert ráð fyrir allsherjarmiðstýringu úr umhvrn.
    Ég vona hins vegar að það ríki sami frelsisandi yfir vötnunum hvað varðar þetta stjfrv. eins og

önnur og vona að með því að það fari í gegnum hreinsunareld eins og gerist þessa dagana í nefndum þingsins megi bæta svo úr að við hæstv. umhvrh. getum orðið sammála um að þetta frv. nái fram að ganga og nái þeim tilgangi sínum sem ég er sannfærður um að við viljum báðir. (Gripið fram í.) Að vísu, hæstv. umhvrh., treysti ég umhvn. afskaplega vel til að vinna vel að þessu máli. Hún er vel mönnuð sem betur fer.
    Virðulegi forseti. Ég vil nefna nokkur atriði sem ég tel að þurfi að huga að. Í 1. gr. frv. er talað um vernd Breiðafjarðar og ég undirstrika það að ég fagna þeirri grein en aðalatriðið er auðvitað hvernig verndin er framkvæmd.
    Í 2. gr. er talað um að verndin nái til allra eyja, hólma og skerja ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins. Þarna er um geysilega vandmeðfarið viðfangsefni að ræða. Hver á að ráða ferðinni? Hver á að hafa síðasta orðið? Er eðlilegt að ráðherra hafi síðasta orðið um nýtingu svæðisins, um það hvort byggja megi stór eða smá mannvirki í flæðarmáli eða á eyjum eða hólmum? Ég tel eðlilegt að um það fari á svipaðan hátt og varðandi önnur byggð ból að viðkomandi sveitarstjórn ráði ferðinni. Hins vegar verður að gera kröfu til þess að sveitarstjórn láti skipuleggja og fái staðfest það skipulag sem á að vinna eftir og þar hefur umhvrh. möguleika að hafa sín áhrif. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að skoða þetta frv. með það í huga að valdið sé ekki tekið úr höndum sveitarstjórnanna. Að vísu segir í síðustu mgr. 4. gr. frv.: ,,Þá eru heimilar án leyfis ráðherra skv. 1. mgr. byggingar og gerð mannvirkja samkvæmt staðfestu skipulagi.`` Ég tel afar mikilvægt að áhersla sé lögð á að skipulag sé staðfest á þessu svæði og sveitarstjórn vinni á grundvelli þess en ekki þurfi ef framkvæma þarf eða raska einhverju á þessu svæði einatt að ganga til ráðherra og fá til þess leyfi.
    Ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra er mér sammála og ég vænti þess að sú nefnd sem fjallar um málið muni skoða þetta rækilega.
    Það sem ég get ímyndað mér að menn komi til með að hugleiða sérstaklega þegar þeir fara að gera sér grein fyrir því hvernig þetta frv., ef að lögum verður, virki sé hvernig ráðherra ætlar með reglugerð að hafa áhrif á umgengni um svæðið. Í 5. gr. frv. er talað um að ráðherra setji, að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndarinnar, reglugerð um vernd lífríkis á svæðinu og skynsamlega nýtingu þess. Síðan segir í síðustu málsgreininni að í reglugerðinni skuli einnig sett ákvæði um aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu. Ég tel eðlilegt að það sé sett reglugerð um þetta og það er afskaplega mikilvægt að það sé gætt að því að ferðamannastraumurinn raski ekki ró fugla og hafi ekki óheppileg áhrif, m.a. með mengun, á lífríki og sérstaklega fuglalíf fjarðarins. Eins og kom fram í ræðu hæstv. umhvrh. er straumur ferðamanna mjög mikill og vaxandi um Breiðafjörð og ég er sammála því að þarna þarf að stemma á að ósi og sjá til þess að ekki verði til vandræða. Þess vegna styð ég það út af fyrir sig og tel nauðsynlegt að sett sé reglugerð. En það skiptir öllu máli um hvað hún fjallar.
    Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, vegna þess að hæstv. umhvrh. vitnaði til þess að bæjarráð Stykkishólms hefði lýst ánægju með frv., og tek ég undir það, að lesa upp smátexta úr bréfi sem barst bæjarstjórn Stykkishólms frá aðila sem sinnir ferðamannaþjónustu við fjörðinn og hefur gert sínar athugasemdir við þetta frv. og lýsir áhyggjum sínum. Ég tel það nauðsynlegt sem innlegg í þessa umræðu í þinginu. Bréfið er frá Pétri Ágústssyni fyrir hönd Eyjaferða en Eyjaferðir hafa stundað ferðaþjónustu á firðinum og gera enn auk þess sem forsvarsmenn þessa fyrirtækis eru meðal bestu eyjabænda við fjörðinn og hafa m.a. með búsetu í Flatey kynnst eyjalífinu, kynnst nýtingu hlunninda og kynnst því hvernig er að búa við Breiðafjörðinn. Þess vegna er full ástæða til að taka mark á og hlusta á það sem þetta fólk segir. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna fyrirhugaðs frumvarps til laga til verndunar Breiðafjarðar vill undirritaður koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:
    Almennt er varað við því að setja á stofn nefnd fárra manna sem eiga að hafa alræðisvald í skjóli umhvrh. til að ráðskast með ákvarðanir til verndunar Breiðafjarðareyja. Það getur haft í för með sér stöðnun á uppbyggingu ferðamannaþjónustu og fjölmargra annarra þátta. Skv. 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að hugsanlega megi loka svæðum í firðinum fyrir aðgangi ferðamanna. Við teljum að ákvæði eins og þetta gefi einstaka ,,eyjakóngum`` tækifæri til þess að koma fram oft vafasömum hugmyndum um verndun sinna eyjaklasa og oft án nokkurs rökstuðnings. Við þekkjum dæmi þess að upp hafa komið ótrúlegar kröfur og athugasemdir sem menn hafa viljað geta komið í gegn og með þessu sé verið að gera þeim það kleift.
    Við erum því hlynnt að Breiðafjarðareyjar geti sem lengst verið óspillt náttúruparadís en hins vegar teljum við reglur um boð og bönn um fram þær náttúruverndarreglur sem fyrir eru í landinu komi ekki til með að þjóna neinu nema einkahagsmunum sumra eyjareigenda.
    Við teljum að Breiðafjarðareyjar séu þjóðareign og það sé ekki réttlætanlegt að ætla sér að búa þannig um hnútana að allur almenningur geti ekki notið þess að fara um þetta svæði á skynsamlegan máta.``
    Ég taldi ástæðu til þess að vekja athygli á þessu. Auðvitað orkar allt tvímælis þá gert er. Ég tel að það megi ekki og eigi ekki að leyfa óheftan umgang alls staðar við allar eyjar Breiðafjarðar. Það þurfi að gæta þess að fuglalífið er viðkvæmt, ekki síst á varptímanum. En ég tel þó ástæðu til að benda á þetta og vekja athygli á því að sú reglugerð sem sett verður þarf m.a. að taka mið af þeim sjónarmiðum sem hér komu fram.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nefna það að frv. hefur verið kynnt fyrir sveitarstjórnarmönnum á fundum við Breiðafjörðinn og ég tel það af hinu góða. Hins vegar held ég og það hefur komið fram

í samtölum mínum við sveitarstjórnarmenn, að menn hafi kannski ekki alveg áttað sig á því að með svo afgerandi hætti væri verið að svipta sveitarstjórnirnar tilteknu valdi. Ég held að þegar farið verður að fjalla nánar um þetta þá kunni þær ábendingar að koma. Ég tel þó að frv. og megininntak þess sé mjög mikilvægt og vil styðja það og legg áherslu á það, en ég tel að það geti ekki orðið óbreytt.
    Varðandi 6. gr. frv. sem hæstv. umhvrh. ræddi m.a., en þar segir að heimilt sé að leyfa starfrækslu náttúrurannsóknastöðvar á Breiðafirði, þá tel ég að það sé mjög góð hugmynd og eðlileg og mjög eðlilegt að huga að því. Að vísu er ekki gert ráð fyrir því í mati fjmrn. að þetta verði burðug stofnun ef má marka þær kostnaðartölur sem þar eru nefndar, en mjór er mikils vísir og má minna á það að við Breiðafjörðinn er kannski elsta náttúrurannsóknastöð sem um getur á Íslandi þar sem eru veðurathuganirnar sem hafa verið stundaðar í Stykkishólmi samfellt lengst allra staða á Íslandi eða frá 1845. Það er út af fyrir sig merkilegur hlutur og ber að vekja athygli þannig að vonum seinna kemur fram hugmynd um náttúrurannsóknastöð með formlegum hætti á vegum hins opinbera á þessu svæði og þakka ég hæstv. umhvrh. fyrir þá ágætu hugmynd sem ég vænti að hann eigi í frv. eins og fleira.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo að lokum taka undir það sem hv. 9. þm. Reykv. gat um og er hárrétt. Það eru hinar byggingarlistalegu menningarminjar sem er að finna við fjörðinn og þá sérstaklega í Flatey og einnig uppi á fasta landinu. Það hefur verið sagt við mig að í rauninni sé óvíða, jafnvel í veröldinni, að finna merkilegri hluti varðandi byggingarlist þótt það sé í smáum stíl og ekki kannski hægt að bera það saman við stórborgir og stórhallir annarra landa. En í Flatey er afskaplega merkilegt safn gamalla húsa á okkar vísu og ég tel ástæðu til þess að vekja sérstaka athygli á því og ég tel að það hefði mátt flytja frv. um að þar yrði þjóðgarður þar sem væri lögð áhersla á kynningu byggingarlistar og kynningu sögu þjóðarinnar svo merkileg sem saga Flateyjar að öðru leyti er.