Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 16:52:31 (4593)


[16:52]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. ,,Nú fer að vora um Breiðafjörð`` stendur í góðri bók og við skulum vona að sú hugsun sem er að baki þessu þingmáli sem hér er rætt verði til heilla fyrir það svæði sem þar er um

fjallað, hvernig svo sem sú verndarlöggjöf lítur út sem Alþingi að lokum tekur afstöðu til, hvort það verður nákvæmlega í þessu formi eða í breyttu formi. Við erum að fjalla um eitt þeirra svæða á Íslandi sem er einkar fjölskrúðugt af landslagi og lífríki og í rauninni ein af okkar þjóðargersemum þó að þær séu vissulega víða ef vel er athugað. Eitt af þessu óteljandi á Íslandi eru eyjarnar á Breiðafirði og margt sem þeim tengist sem og sjávarlífið sem er þar á milli í hafinu. Ég tel það vera ágætt mál að um þetta er rætt á Alþingi í tilefni þessa frv. og þó fyrr hefði verið í raun í ljósi þeirrar þál. sem samþykkt var á þingi 1978, mál sem flutt var af Friðjóni Þórðarsyni sem okkur er enn í fersku minni hér og átti sæti lengi á Alþingi og hafði mikinn áhuga á sínum heimaslóðum. Mér finnst ástæða til þess fyrir þá sem hafa dregið upp heldur dökka mynd af því máli sem hér er á ferðinni að kynna sér það þingmál sem Friðjón Þórðarson, sýslumaður Dalamanna, flutti og fékk samþykkt 1978 og þeirri greinargerð sem fylgdi því máli. Ég vona a.m.k. að það sé svipaður hugur sem býr að baki þessari tillögu sem hér liggur fyrir eins og var í þeirri samþykkt sem Alþingi gerði 1978 um verndun lífríkis Breiðafjarðar og könnun þess.
    Um leið og ég mæli þetta er það ekki svo að mér finnist að málið sé kannski upplagt að öllu leyti eins og það birtist okkur hér og þurfi að sjálfsögðu, eins og öll mál sem menn ræða af alvöru, að gaumgæfa og athuga. Ég á sæti í þeirri þingnefnd sem fær væntanlega þetta mál til athugunar.
    Ég vil gera aðeins að umtalsefni í tengslum við þetta mál þá stefnu sem hér er uppi og hér er flutt með þessu frv. um að setja sérlög og að ætla umhvrh. það mikið vald og eftirlit með framkvæmd laganna eins og hér er gert ráð fyrir. Ég vil einnig gera lítillega að umtalsefni eins og hv. síðasti ræðumaður þá tillögu sem nýlega er fram komin og kynnt hefur verið sem samþykkt ríkisstjórnar um sérstakan þjóðgarð undir Jökli.
    Ég vil líka tengja þetta, þó í lauslegu formi verði, því frv. sem er á dagskrá þessa fundar en ekki er komið til umræðu en væntanlega verður rætt, ef ekki á þessum fundi þá mjög fljótlega, sem er frv. til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd. Í því frv. er að finna mjög róttækar breytingar á meðferð friðlýsingarmála almennt séð og skipan náttúruverndarmála frá því sem verið hefur. Með þeim tillögum sem þar liggja fyrir er hugmyndin að taka þau efni úr höndum Náttúruverndarráðs sem lögum samkvæmt á að fjalla um þessi mál og gera um það tillögur, vera meginfrumkvæðisaðili, og færa það til umhvrh. Mér sýnist að umhvrh. með tillögum sínum, bæði þessu frv. og þó kannski enn frekar og ákveðnar í þeirri tillögu sem hann hefur rætt á vettvangi ríkisstjórnar og fengið þar stuðning við um skipan fimm manna nefndar til að athuga stofnun þjóðgarðs undir Jökli, sé í rauninni að taka forskot á sæluna til að fara að framkvæma friðlýsingarmálin samkvæmt þeim tillögum sem frv. liggur fyrir um en ekki hefur verið rætt enn og ekki hefur fengið samþykkt Alþingis enn sem komið er.
    Ég mun að sjálfsögðu ræða það efni þegar frv. kemur til umræðu en ég vil vekja athygli á þessu því þarna á milli er greinilegt samhengi, í þessum tillögum sem hér eru fram komnar af hálfu ráðherrans og inni í ríkisstjórn. Ég vil geta þess, ég er ekki viss um það að þarna séu menn alveg á réttri braut að þessu leyti þó það sé vissulega þörf á því og afar mikils virði að ráðherra þessa málaflokks láti sig þessi efni skipta og sé öflugur stuðningsaðili við aðgerðir til landverndar í hvaða formi sem það er. En þá er ég ekki viss um að það sé í rauninni æskilegt að fá þessi mál með svo ákvarðandi hætti inn á borð ráðherra og inn í fámennt ráðuneyti eins og það er nú í stakk búið til þess að vera leiðandi á þessu sviði.
    Ég vil líka vekja athygli á því að þau efni sem varða fjárveitingar og tengjast þessum málum, t.d. þessu frv. hérna, að það er að vísu ekki stórt í sniðum að því er varðar kostnað ef marka má mat fjmrn. á þeim efnum, en ég er ekki búinn að sjá hins vegar að það verði svo laust í hendi það fjármagn ef marka má fjárveitingar til þessa málaflokks á undanförnum árum nema menn breyti um stefnu frá því sem verið hefur. Það gildir þá einnig um þau landakaup sem verða að fara fram undir Jökli til þess að hugmyndin um þjóðgarð þar á ríkislandi, eins og lög standa til, nái fram að ganga. Hætt er við að það kalli á nokkrar fjárveitingar. Ég ætla ekki að vera letjandi þess komi fram tillögur um það. Ég er eindreginn stuðningsmaður þeirrar hugmyndar að fjölga þjóðgörðum í landinu, að það verði tekið á í þeim efnum. Mér sýnist að svæðið undir Jökli sem lengi hefur verið um rætt að þurfi að friðlýsa sé eitt af þeim svæðum sem sé afar vel fallið til þess þó að aðrar leiðir séu einnig opnar lögum samkvæmt til friðlýsingar.
    Ég nefni það líka vegna fjárveitingarmálanna að í greinargerð með frv. í markmiði númer fimm stendur að eitt af helstu markmiðum þessa frv. sé að renna styrkum stoðum undir eyjabúskap og aðra hefðbundna nýtingu hlunninda á Breiðafirði. Hvað merkir þetta? Ætlar ríkisvaldið sem stendur að þessari friðlýsingu að fara að bjóða fram aðstoð sína í formi fjármagns t.d. eða annarra beinna aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til þess að treysta byggð í Breiðafjarðareyjum, búskap og umsvif? Þannig finnst mér málið liggja í orðanna hljóðan. En er hér ekki verið kannski að sýna ávísun sem eftir er að fylla út og fá ábekinga á þetta mál til þess að því megi treysta? Það stendur einnig að ljóst sé að taka verði tillit til margra ólíkra sjónarmiða sem erfitt getur verið að samræma í að vernda náttúru Breiðafjarðar og menningarminjar í firðinum og tryggja jafnframt blómlegar byggðir um ókomin ár --- stendur þar í greinargerð. Þetta er alveg rétt. Það er best í tengslum við þetta að koma að því máli sem ég vil vekja athygli á, mér fannst ráðherra kannski ekki gera nægilega í sinni framsögu en er hins vegar að finna í grg. með frv., þar sem er rakið hver er staða byggðar í Breiðafirði, á Breiðafirði og við Breiðafjörð. ( ÓÞÞ: Í Breiðafirði.) í Breiðafirði, segir hv. 2. þm. Vestfjarða. ( ÓÞÞ: Allt sem er ofan í sjónum hlýtur að vera í honum . . .  ) Ég held að það sé þörf á því að beina sjónum að þessu m.a. vegna þess sem hér hefur komið fram í máli hv. þm. sem hafa

rætt þessi mál, eins og hv. 5. þm. Suðurl. Guðna Ágústssonar, þar sem var verið að tala sérstaklega um að það væri hætta á því að verið væri að svipta heimafólk valdi, sveitarstjórnir o.s.frv. Það ber auðvitað að gaumgæfa það. Er verið að svipta sveitarstjórnir valdi með einhverjum óhæfilegum hætti með þessu frv. eða viðlíka ráðstöfunum og hér er verið að tala um?
    Í grg. á bls. 6 er rakið hver er staða byggðar við Breiðafjörð. Þar er farið aftur í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þegar taldar voru um 40 eyjajarðir en nú eru aðeins 2 af þessum 40 í ábúð. Landjarðirnar hafa haldist mun betur í byggð og er heilsársbúseta enn á 36 þeirra, það munu vera jarðir við Breiðafjörð án þess að ég hafi sett mig nákvæmlega inn í hvernig þessu er háttað eða hvernig þessi byggð er tíunduð hér með þessum hætti. Síðan er vikið að sumarbústaðabyggð, landakaupum aðkomumanna og sumarbyggð, uppskiptum á jörðum til útarfa o.s.frv. Allt er þetta nauðsynlegt að hafa í huga, eignarhaldið á landinu á Breiðafirði og Breiðafjarðareyjum. Þá finnst mér að það blasi við að heimabyggðin sem þarna er um að ræða er afskaplega veik og það er í rauninni aðkomufólk sem er orðið meira áberandi og ekki skal ég lasta það og nærveru þess hvort sem er í sambandi við sumarbyggð eða ferðamennsku, hún er orðin meira ráðandi, en heimafólkið er fátt og staða þess er völt. Þá kemur einmitt spurningin um það sem hér hefur verið varpað fram í umræðunni, er það víst að það sé gegn hagsmunum þeirra sem þó eiga búsetu á þessu svæði, að koma til stuðnings einnig skipulagslega séð og verndarlega séð með aðgerðum, jafnvel með sérlögum, með sérstakri löggjöf til þess að bæta stöðuna? Fyrir utan það að vernda það sem þarna þarf að vernda fyrir ókomnar kynslóðir.
    Hitt er svo greinilegur veikleiki í þessu máli sem hér er fram borið og það er það sem varðar takmörkuð tengsl við skipulagsþáttinn. Ég hefði viljað hvetja umhvrn. og hæstv. umhvrh. til þess í þessu máli sem og öðrum sem varða verndun lands, þar á meðal friðlýsingar á landi, að horfa mun betur til þess hvernig megi í gegnum gildandi skipulagslöggjöf og í gegnum bætta skipulagslöggjöf sem við bíðum eftir á Alþingi að fram komi frv. sem búið er að tvíflytja ef ég man hér rétt, um breytingar á skipulagslögum sem færa m.a. vald í auknum mæli frá því sem nú er til heimavettvangs, til héraða, til sveitarstjórna, að nýta sem sagt skipulagslöggjöfina til að ná markmiðum sem menn vilja ná og þar sem tryggð er lýðræðisleg þátttaka þeirra sem í hlut eiga í byggðunum þótt fáir séu. Hér er þetta ákaflega veik tenging í sambandi við þetta mál sem ég tel að þyrfti að styrkja verulega og tek undir það sem bent hefur verið á, m.a. af hv. 1. þm. Vesturl. í þessum efnum.
    Að mörgu er að hyggja í sambandi við þetta mál. Eitt af því sem þar þarf að athuga eru þær framkvæmdir sem eru ráðgerðar á þessu væntanlega friðlýsta svæði ef þessi hugsun verður felld í lög og það er ráðgerð vegalagning, svo ég taki eitt dæmi sem mér er kunnugt um, það er ráðgerður vegur yfir Gilsfjörð --- og nú vænti ég að hæstv. ráðherra sé hér í seilingu --- það liggja fyrir áform um veg yfir Gilsfjörð til að greiða götu manna, umferðar milli Vestfjarða og Vesturlands, þeirra sem þar fara á milli. En það eru nýlega komnar fram afskaplega alvarlegar athugasemdir við þá framkvæmd eins og hún er hugsuð frá náttúruverndarfólki, í þessu tilviki mun það vera Fuglaverndarfélag Íslands sem hefur sent Náttúruverndarráði 21. des. sl. ítarlegt erindi um þetta efni og farið þess á leit við Náttúruverndarráð að það endurskoði mat sitt á verndargildi Gilsfjarðar vegna væntanlegrar vegagerðar og að mál þetta verði tekið fyrir á næsta fundi lífríkisnefndar ráðsins, segir þar í niðurlagi. --- ,,Jafnframt óskum við eftir því að Náttúruverndarráð beini því til Vegagerðar ríkisins að kannaðir verði að nýju aðrir kostir í vegalagningu um Gilsfjörð, m.a. í ljósi nýrra gagna um botngerð fjarðarins sem gæti breytt forsendum fyrir byggingu lengri brúar.``
    Hér er mjög stórt mál uppi sem snertir þetta svæði sem ráðherra er að fjalla um í þessu frv. að njóti sérstakrar verndar og það er hvorki meira né minna en 5% að því er metið er af þeim sem skoðað hafa, 5% af leirum landsins tengdar ströndum, strandsvæðum, sem eru innan við þessa brú um Gilsfjörð sem menn óttast að verði raskað, þ.e. þessum leirum sem m.a. eru viðkomustaður fyrir fugla sem ég ætla ekki að fjalla nánar um. En ég spyr hæstv. ráðherra um viðhorf hans til þessara mála, þess sem fram er komið að því er varðar vegagerð yfir Gilsfjörð. Mér sýnist mjög brýnt að Náttúruverndarráð í samvinnu við umhvrn. taki á þessu máli mjög ákveðið áður en lengra er haldið í sambandi við ráðgerða framkvæmd og er ég þá ekki með neinar spár um það hvað út úr nánari athugun málsins kemur því ég þekki málið ekki efnislega umfram það sem að mér hefur borist frá öðrum aðilum.
    Þá vil ég nefna það sem mér finnst ekki viðkunnanlegt af hálfu umhvrn. í sambandi við þessa málafylgju og það er bæði varðandi þetta mál, verndun Breiðafjarðar, sem og hugmyndina um þjóðgarð undir Jökli, að sniðganga í greinargerð og geta þar að engu þess sem Náttúruverndarráð á liðnum árum hefur verið að vinna að undirbúningi friðunar á þessu svæði. Ég hef ekki rekist á orðið Náttúruverndarráð í grg. með þessu frv. og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig má það vera og hvernig stendur á því að þeirrar stofnunar undir umhvrn. sem hefur lögum samkvæmt það verkefni að vinna að friðun lands og verndun lands er hvergi getið þó hún sannanlega hafi komið að þessu máli með margvíslegum hætti á fyrri stigum og hafi verið að ræða þetta mál til skamms tíma þangað til það er tekið upp af hæstv. ráðherra? Við skulum vona að það viti á gott að hæstv. ráðherra sýni málinu áhuga en mér finnst að það eigi að vera í samvinnu við þá stofnun sem hefur verið að vinna að þessu máli á fyrri tíð og alveg fram undir þetta og ekki síður það sem varðar stofnun friðlands undir Jökli. En það er um það mál að segja eins og það birtist m.a. í frásögn Morgunblaðsins 23. febr. sl., það er nú ekki lengra síðan, þar er Náttúruverndarráðs í engu

getið. Þar er í engu getið þingmáls, ekki hef ég heyrt það, sem fram kom á Alþingi fyrir ekki löngu síðan, till. til þál. um friðlýsingu svæðisins undir Jökli, 1. flm. Danfríður Skarphéðinsdóttir og aðrir þingmenn Kvennalistans sem stóðu að því máli, ályktuðu að fela umhvrh. í samráði við landeigendur, sveitarstjórnir o.s.frv. og Náttúruverndarráð að hefja nú þegar undirbúning að friðlýsingu svæðisins undir Jökli í samræmi við ályktun náttúruverndarþings frá árinu 1972. Þannig að rætur þess máls liggja nokkuð til baka og mér finnst að það sé nánast skylda stjórnvalds sem er að bera slík mál fram að halda til haga því sem gert hefur verið og lagt hefur til á fyrri stigum, sér auðvitað til fulltingis og stuðnings við góðan málstað.