Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:02:34 (4602)


[18:02]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að menn séu ekki ósammála um markmiðin eins og hér hefur komið fram. Ég hef áður lýst því að ég tel að frumkvæðið sé heimamanna. Það er rétt að reglugerðarvaldið er ráðherrans. Ég vil vekja athygli á næstsíðustu setningu í 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Tillagna Breiðafjarðarnefndar skal leitað við setningu reglugerða og annarra ákvæða er lúta að vernd Breiðafjarðar.``
    Ég tel því að áhrif heimamanna séu með þessum hætti ótvíræð en lýsi því enn og aftur yfir, eins og ég er búinn að gera þrisvar sinnum í dag, að það er ekki ætlan mín að flytja vald úr héraði. Ég held að það sé hægur vandi, til þess að ná sátt um þetta sem er nær eina ágreiningsefnið í þessari umræðu, að finna hæfilega skipan þessara mála í nefndinni sem menn geta verið sáttir við.