Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:17:06 (4607)


[18:17]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig gefst ekki tími til þess að ræða hér um efnisatriði bráðabirgðalaganna í sambandi við BHMR. Ég veit að hæstv. forsrh. er vel kunnugt um að það var mjög viðkvæmt atriði sem um var deilt, samanburður á launum þeirra og annarra aðila í þjóðfélaginu, og ekki náðist samkomulag um og setið var yfir í lengri tíma. Þetta veit hæstv. forsrh. mætavel.
    Ég get a.m.k. fullyrt að við setningu bráðabirgðalaga sem ég hef staðið fyrir sem forsrh. hefur ætíð verið leitað eftir því hvort meiri hluti væri fyrir þeim á þingi og það var líka gert í tíð Gunnars Thoroddsens þó að ég gerði það ekki þá. Ég hef þau orð frá Ólafi Jóhannessyni að hann teldi sjálfsagt að leita eftir slíku. Ég sagði hins vegar áðan að nokkuð væri deilt um hvort þetta atriði væri nauðsynlegt. En ég leyfi mér að fullyrða að aldrei nokkurn tíma hefur verið gengið svo skammt að þessu leyti að rætt hafi verið aðeins við tvo þingmenn viðkomandi stjórnarflokks og reyndar svaraði hæstv. forsrh. því ekki hvort það sé rétt að hann hafi eingöngu rætt við tvo þingmenn Sjálfstfl. auk ráðherranna. Það þætti mér satt að segja afar fróðlegt að heyra. Ég vísa því hér með algerlega á bug sem hæstv. forsrh. var að segja.
    Hins vegar er rétt að við vorum á móti því að afnema bráðabirgðalagaheimildina, enda hef ég hvað eftir annað sagt að ég telji hana nauðsynlega í ýtrustu tilfellum og ég hef aldrei mótmælt því að bráðabirgðalög megi setja. Ég vil hafa þau ákvæði stjórnarskrárinnar, var á móti því að nema þau úr gildi og ég held að hæstv. forsrh. ætti að þakka okkur framsóknarmönnum fyrir að hafa ekki fallist á það að nema þau úr gildi því að hann hefur sett tvenn bráðabirgðalög í sinni tíð og a.m.k. þau fyrri að margra mati algerlega óþörf.