Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:20:32 (4609)


[18:20]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir --- já, eins og ég heyri hér úr sal, ótrúlegt að forsrh. skuli stíga tvisvar í pontu og ekki svara þessari spurningu minni við hve marga þingmenn Sjálfstfl. hann ræddi. Ég lýsti því áðan að ég hafði þá reglu að ræða við alla þingmenn sem studdu ríkisstjórn. Ég lýsti því líka áðan að ég ræddi ekki við alla þá þingmenn sem

studdu ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, ég ræddi við þingmenn úr mínum flokki þá og tryggði þeirra stuðning og ég man ekki betur, ég þori ekki að fullyrða það, en að Gunnar Thoroddsen heitinn teldi að hann hefði meirihlutastuðning á þingi. Ég man það vel að hann taldi afar mikilvægt að leita eftir slíkum stuðningi og sá maður var, eins og allir vita, mjög lögfróður og allir meta mikils hans álit að þessu leyti. Þetta sagði ég áðan. Ég þori ekki að svara því hvernig hann leitaði eftir þeim stuðningi eða hvernig hann tryggði hann.
    En mér þykir það hreint og beint ótrúlegt að hæstv. forsrh. skuli ekki svara þessari spurningu og ég endurtek það: Ég tel að ef setja á bráðabirgðalög, þá eigi að ræða við alla stuðningsmenn viðkomandi ríkisstjórnar og ég tel það a.m.k. skynsamlegt að kynna slík bráðabirgðalög fyrir stjórnarandstöðunni einnig. Ég tel þann hátt sem var upp tekinn að mörgu leyti til fyrirmyndar og eigi að halda áfram, en mér þykir satt að segja illt að sú regla skuli hafa verið felld niður.