Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:48:25 (4612)


[18:48]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú líklegast vonlaust að útskýra það fyrir hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni að sá þáttur málsins sem snýr að hæstv. forsrh. og hér hefur verið ræddur í dag er umræðuefni fyrir þingsalinn. Það er umræðuefni fyrir hinn opinbera vettvang þingsins þar sem forsrh. situr fyrir svörum með formlegum hætti. Það er ekki verkefni fyrir lokaða þingnefnd og síst af öllu verkefni til viðræðna við embættismenn. Ábyrgðinni á því sem gerst hefur við setningu þessara bráðabirgðalaga verður ekki vísað neitt annað en á hæstv. forsrh.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að reyna enn einu sinni að skýra það út fyrir hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni en ef hann skilur það ekki að ábyrgðinni á því sem hér hefur verið rætt í dag er ekki hægt að vísa á neinn annan en hæstv. forsrh. sjálfan þá skilur hann í raun og veru ekki það grundvallaratriði lýðræðislegrar og þingræðislegrar stjórnskipunar sem við höfum verið hér að ræða um.
    Það að fresta ekki fundinum ætla ég heldur ekki að ræða við hv. þm. en ég bið hann að hugleiða og upplýsa mig þá um það einhvern tíma síðar hvort hann man eitthvert fordæmi fyrir því að ósk þriggja þingflokka um frestun umræðu við 1. umr. máls hafi ekki verið sinnt. Hann talar hér um pólitíska afstöðu forsetans. Það er enginn að biðja forsetann um pólitíska afstöðu þegar hann verður við óskum þingflokka. Það er bara form.
    Hitt er hins vegar ljóst að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur í dag og þar til annað kemur fram staðfest það að hann treystir sér ekki til að verja setningu þessara bráðabirgðalaga. Það er auðvitað það merkilega sem fram hefur komið og segir kannski sú þögn hæstv. forsrh. meira um þau vinnubrögð en margar ræður.