Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:50:39 (4613)


[18:50]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Einu sinni var sú tíð að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og ég ásamt mörgum fleiri stóðum saman að því með ákveðnum málflutningi að það ætti að efla starf þingnefndanna í þinginu og mér er það afar minnisstætt að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gekk lengst fram í því að þingnefndirnar ættu að starfa sem eins konar rannsóknarnefndir og taka til umfjöllunar ýmiss konar álitamál, sérstaklega þau er snertu grundvallaratriði í stjórnsýslunni. Það kemur mér afar mikið á óvart að nú skuli sami hv. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, koma hér fram og tala um að það sé ekki lengur verkefni fyrir þingnefndir að skoða gaumgæfilega mál og ásakanir sem hér koma fram í þingsölum sem hann sjálfur ber fram og eru aldeilis alvarlegar ásakanir, að slíkar ásakanir séu ekki verkefni til umfjöllunar í þingnefndum. Hér verða kaflaskipti, ég segi nú ekki meira. Hér verða aldeilis pólitísk kaflaskipti. Það er nú kominn tími til að hv. þm. mundi upplýsa okkur um þessi skoðanaskipti vegna þess að hér erum við að snerta á sjálfum grundvallaratriðunum í þingræðinu, í stjórnskipuninni, þegar það er ekki lengur verkefni þingnefnda að kanna og skoða og rannsaka svo alvarlegar ásakanir eins og hann sjálfur hefur borið hér fram.