Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:03:26 (4617)


[19:03]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :

    Herra forseti. Þessi fáu orð hv. 8. þm. Reykn. staðfesta auðvitað að hann viðurkennir að sú gagnrýni sem hann hefur borið fram er ekki byggð á neinum lagalegum rökum. Hann gerði ekki minnstu tilraun til þess að hrekja þær fullyrðingar sem hafa verið settar fram um það efni en fór í hefðbundna orðaleppa og útúrsnúninga.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hafi bæði verið rétt mat mitt, rétt hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar, að það væri meiri hluti á bak við þá lagasetningu sem ákveðin var og það eru auðvitað góð vinnubrögð að ríkisstjórn sem gefur út bráðabirgðalög meti það áður en hún gefur þau út hvort fyrir hendi er meiri hluti. Það mat var örugglega rétt. Hafi hv. þm. einhverjar áhyggjur af því þá er einfaldasta ráðið að láta á það reyna sem fyrst í atkvæðagreiðslu. Þegar hv. þm. kom fyrst fram með gagnrýni sína um það og hélt því beinlínis fram að það væri ekki þingmeirihluti og gerði því ítrekað skóna þá var hv. þm. boðið upp á að hraða afgreiðslu málsins og láta það ganga þegar í stað til atkvæðagreiðslu þannig að þjóðin fengi að sjá hvort fullyrðingar hans stæðust. Nei, þá hljóp hann á harðahlaupum undan fullyrðingum sínum og vildi ekki fyrir nokkrun mun að frv. kæmi strax til atkvæða. Hvers vegna? Vegna þess að með því móti hefði allur málflutningur hans afhjúpast. Vegna þess að eina tækifærið til að halda lífi í útúrsnúningum af þessu tagi er að hafa nægan tíma áður en það reynir á málið í atkvæðagreiðslu. Þá kemur þetta í ljós og hv. þm. var boðið upp á það að ganga til atkvæðagreiðslu þegar í stað en hann hljóp frá því því þá staðreynd vildi hann ekki fá framan í sig beint ofan í fullyrðingarnar.