Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:07:51 (4619)


[19:07]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það hefur verið leitt í ljós í þessari umræðu að hv. þm. þarf einfaldlega að kyngja því af því að hann getur ekki borið á móti því að það eru ekki stjórnskipuleg skilyrði fyrir því að krefjast þess að meiri hluti sé kannaður fyrir fram. Það hefur enginn tekið rétt af minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn að gefa út bráðabirgðalög og ég fullyrði að það hefur einfaldlega verið með ýmsu móti hversu mjög eða mikið menn í ríkisstjórn hafa rætt við einstaka þingmenn áður en bráðabirgðalög voru gefin út og ég get alveg fullyrt að það hefur verið með ýmsu móti. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hv. 8. þm. Reykn. hafi lýst þessari umræðu sem hann hóf hér ásamt hv. 7. þm. Reykn. á þann eina veg sem hægt er að lýsa þessari umræðu af þeirra hálfu, að hún sé sögulega fyndin.