Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:45:03 (4630)


[20:45]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í nál. 2. minni hluta hv. sjútvn. er hv. þm. Stefán Guðmundsson vitnaði til segir að 2. minni hluti sjútvn. sé andvígur setningu bráðabirgðalaga samkvæmt frv. þessu. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar og beið eftir því að fá að heyra hvernig hann mundi greina nánar frá afstöðu sinni við umræðu um málið og hvernig hann mundi greiða atkvæði þegar bráðabirgðalögin koma til atkvæða á hinu háa Alþingi. Það er rétt að minna á að þegar bráðabirgðalögin voru sett, þá lýstu nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar því yfir að úr því sem komið væri væri ekki um annað að ræða en að setja lög á deiluna. Þess er að vænta að þeir hinir sömu hv. alþm. greiði þá atkvæði með bráðabirgðalögunum og þess vegna er mjög mikilvægt að afstaða hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, sem er málsvari Framsfl. í sjávarútvegsmálum á hinu háa Alþingi, liggi fyrir, hvernig hann og flokkur hans muni greiða atkvæði þegar bráðabirgðalögin verða afgreidd.