Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:46:33 (4631)


[20:46]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér fannst ég hafa talað alveg skýrt í þessu máli, og er reyndar búinn að gera það margsinnis þegar þetta mál hefur verið hér á dagskrá, hver vilji minn hefur verið til lausnar þessu máli. Hann er alveg skýr. Ég hef margítrekað það við hæstv. sjútvrh., hann hefur tekið undir þann málflutning minn að það væri skynsamlegt og hefði kannski verið sú lending sem menn hefðu átt að taka og einnig er minnst á í svokallaðri ráðuneytisstjóranefnd að lögbinda yfirlýsinguna sem undirrituð var af Sjómannasambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þetta var það sem ég hef alla tíð bent á að hefði átt að gera og einnig að koma upp álitanefndinni.
    Hvað varðar afstöðu mína þegar til atkvæðagreiðslu kemur skil ég að hv. þm. Gunnlaug Stefánsson fýsi að fá að vita hver hún verður. En er ekki rétt að bíða með það, hv. þm., þegar að atkvæðagreiðslunni kemur? Því skal ég lofa þingmanninum að ég mun þá gera grein fyrir atkvæði mínu þannig að það verður alveg ljóst hver túlkun mín á því verður. En mér skilst að atkvæðagreiðslan sé ekki núna.