Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:49:53 (4634)


[20:49]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Því hefur verið haldið fram hér af hv. þm. að það hafi verið haft samband við þingmenn Framsfl. í hvert sinn sem bráðabirgðalög hafi verið sett og reynt að ná í alla þingmenn. Þetta er kannski hægt að sanna eða afsanna, en afskaplega á ég bágt með að trúa því að það hafi verið gert í hvert skipti sem lög hafa verið sett. Þegar ég horfi á þau lög sem sett hafa verið sem bráðabirgðalög og brýna nauðsyn hefur borið til og eru bara neyðarúrræði, eins og hv. þm. sagði, og les svo lista yfir bráðabirgðalög sem hv. þm. hefur stutt þá metur hann neyðina með mjög sérkennilegum hætti.
    Hér eru sett bráðabirgðalög 1980, eftir að þingmaðurinn kemur á þing, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum. 20 dögum áður en þingið kemur saman eru sett bráðabirgðalög um sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kexi. Ætli það hafi verið hringt í alla þingmenn út af þessum sérkennilegu bráðabirgðalögum?
    Í júlí 1982 voru bráðabirgðalög um breytingu á Húsnæðisstofnun ríkisins. Hvaða neyð var þetta? Árið 1983 bráðabirgðalög um Áburðarverksmiðju ríkisins. Fjórum dögum síðar bráðabirgðalög um viðauka við lög nr. 44 um Fiskveiðasjóð. Skömmu síðar bráðabirgðalög um breytingu á orkulögum. Hálfum mánuði síðar bráðabirgðalög um húsaleigu sem fylgir breytingum vísitölu húsnæðiskostnaðar. Sama dag bráðabirgðalög um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis. Bráðabirgðalög um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. 10--15 bráðabirgðalög. Menn hafa bara verið í símanum allan þennan tíma hringjandi. Bráðabirgðalög um afnám laga um ferðagjaldeyri. Bráðabirgðalög 10--15 dögum áður en þing kemur saman um heimild til niðurfellingar á endurgreiðslu stimpilgjalda á íbúðarlánum. Samfelldar hringingar í þingmenn út af þessari neyð sem upp er komin.
    Þessir menn töluðu hér með heilagsandasvip um lög sem var verið að setja 1985, tíu dögum áður en þing kom saman. Breytingar á lögum um tollskrá, tíu dögum áður en þing kom saman. Það hafa verið neyðarhringingar út af þessu. Svona gæti ég haldið áfram að telja upp neyðarlög sem hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur stutt og greitt atkvæði um og væntanlega legið í símanum við forustumenn Framsfl. um kex og stimpilgjöld og allar þessar neyðarráðstafanir sem þeir hafa verið að setja á á örfárra daga fresti, þessir menn sem töluðu hér með heilagsandasvip.