Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:20:40 (4639)


[21:20]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Menn hafa sagt hér slag í slag að markmiðið með breytingum á þingsköpum hafi verið það að draga úr setningu bráðabirgðalaga. Mér telst til að á tíu ára tímabili fram að þessari stjórn sem nú situr hafi að meðaltali verið sett fimm bráðabirgðalög á ári hverju. Þannig ætti mín ríkisstjórn með sama hætti að hafa sett u.þ.b. 15 bráðabirgðalög. Menn vita hins vegar hver talan er. Hafa sett 15 bráðabirgðalög. Og ég spyr: Náðist ekki akkúrat fram það sem menn voru að biðja um það dregið væri úr, þrátt fyrir að heimild sé fyrir hendi, setningu bráðabirgðalaga? Ég hefði verið búinn að setja í minni ríkisstjórn 15 bráðabirgðalög ef ég hefði hagað mér eins og þær stjórnir sem voru hér á undan og þar með talin stjórn sem fyrrv. forsrh. stóð fyrir og talaði um að það yrði að fara varlega í að setja bráðabirgðalög.
    Ólafur Jóhannesson segir þegar hann rekur hina stjórnskipulegu þætti með sama hætti og hæstv. sjútvrh. gerði og koma þessu upphlaupi hér ekkert við því menn eru að tala um pólitík, hann rekur stjórnskipunina en um þennan þátt segir Ólafur Jóhannesson fyrrv. forsrh. og prófessor, með leyfi forseta: ,,Bráðabirgðalög eru stundum sett í samráði við þingmenn eða þingmeirihluta.`` --- Bráðabirgðalög eru stundum sett í samráði við þingmenn eða þingmeirihluta. Stundum. Þetta er öll þessi heilaga venja sem menn eru að tala um og Ólafur getur þess réttilega að hér sé um pólitískan þátt að ræða að ríkisstjórn sem er óviss í sinni sök reynir að tryggja sig. Núv. ríkisstjórn var ekkert óviss í sinni sök. Við skulum sjá hvernig þessi atkvæðagreiðsla fer. En Ólafur Jóhannesson heitinn segir að stundum sé talað við þingmenn. Það er þessi heilaga venja.
    Ég dró hins vegar ekki Gunnar Thoroddsen inn í þessa umræðu, hv. þm. Páll Pétursson. Það gerði Steingrímur Hermannsson fyrstur í dag.