Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:38:05 (4650)


[21:38]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir vænt um það að hv. 1. þm. Norðurl. v. skuli hafa staðfest það með þögninni að hann meinti ekki það sem hann sagði um aðferð til þess að leysa kjaradeilur. En vegna alls aðdraganda málsins er nauðsynlegt að ítreka það sem áður hefur verið sagt að það var boðið af minni hálfu strax sl. vor að lögfesta ákvæði bókunarinnar sem fylgir kjarasamningunum. En því var þá lýst yfir að það dygði ekki til og ég er reyndar sammála því sem hér hefur komið fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. að ef það á að vera stofn í lausn aðgerðanna, þá þarf að lögfesta með einum eða öðrum hætti svipað úrskurðarfyrirkomulag og aðilar sjálfir voru að tala um í samræðum sín á milli en náðu því miður ekki saman um þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að koma þeim að samningaborðinu.