Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:19:13 (4657)


[22:19]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. var að gera því skóna enn einu sinni að ríkisstjórnin hefði ekki verið tilbúin til viðræðna við sjómannasamtökin um þessi mál. Það liggur fyrir og hefur verið margítrekað að slíkt tilboð var gert þegar í fyrravor, þá þegar bauðst ég til að taka

þátt í viðræðum um að lögfesta bókunina sem fylgir kjarasamningunum. Það voru hins vegar sjómannasamtökin sem kusu það að fylgja sínum málum fram í samningum við atvinnurekendur frekar en að koma til þeirra viðræðna sem ríkisstjórnin var frá öndverðu tilbúin til að fara í. Þetta er staðreynd málsins og þess vegna alveg fráleitt að vera að halda hér öðru fram um þetta atriði.
    Hv. þm. er svo að gera því skóna að ríkisstjórnin hafi ætlað sér að beygja sjómenn og til sannindamerkis um það þá hafi hún ákveðið að framlengja jólaleyfi þingmanna. Staðreyndin í því máli er nú sú að þinghald dróst í desembermánuði fram yfir það sem áætlað var í stafsáætlun þingsins. Þess vegna var ákveðið að framlengja jólaleyfið. Og hverjir gerðu tillögu um það? Sú tillaga kom frá forsætisnefnd þingsins. Og ég veit ekki betur en að sú tillaga hafi komið frá forsætisnefnd samhljóða. Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið ágreiningur um þá tillögu af hálfu forsætisnefndar. Hv. þm. getur ráðist hér á ríkisstjórnina og borið hana ósönnum sökum í þessu efni en það er ósmekklegt af hv. þm. að bera þessar sakir á fulltrúa Alþb. í forsætisnefnd því þegar hann gerir þetta þá hittir hann þann fulltrúa fyrir einnig og kemst ekki hjá því. Ég get skilið freistingar hv. þm. að bera ríkisstjórnina ósönnum sökum. Það er alvanalegt af hans hálfu. En það er ekki stórmannlegt að gera það með þeim hætti að það hitti hans eigin flokksbróður fyrir.