Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:23:36 (4659)


[22:23]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur hér viðurkennt að tillagan um að lengja jólaleyfið kom frá forsætisnefnd þingsins. Hann hefur ekki gert neinar athugasemdir við það að sú tillaga var gerð samhljóða í forsætisnefnd en heldur sig enn við það þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir þessa viðurkenningu að lenging jólaleyfisins sé einhver sönnun á því að ríkisstjórnin hafi ætlað að knésetja sjómenn í þessu verkfalli. Hér hefur málflutningur hv. þm. enn einu sinni verið afhjúpaður. Rökin sem hann færir fram fyrir máli sínu falla, stráfalla, og hann viðurkennir það sjálfur.
    Hann hefur fullyrt að ríkisstjórnin hafi skotið sér undan því að taka á þessu máli og lýsa sig reiðubúna til viðræðna við sjómannasamtökin. Það er rangt. Ríkisstjórnin var allar götur frá því í fyrravor að sjómannasamtökin lýstu sinni afstöðu reiðubúin til slíkra

viðræðna, reiðubúin til að ræða lagasetningu á bókuninni sem hér hefur verið rædd og ræða um önnur mál því tengd til þess að tryggja það að sjómenn verði ekki látnir taka þátt í kvótakaupunum. Sjómannasamtökin höfðu meiri áhuga á að ræða þessi viðfangsefni beint við sína viðsemjendur en við ríkisstjórnina. Og við getum auðvitað ekki neytt menn til viðræðna við okkur.
    En þessar yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnarinnar, bæði í viðtölum við forustumenn sjómannasamtakanna og með opinberum hætti, til að mynda á sjómannadaginn, voru ítrekað boðnar fram.
    Ég er ekki að áfellast sjómannasamtökin fyrir þeirra afstöðu nema síður sé. Það er mjög eðlilegt að þau leiti eftir því að finna lausn á sínum málum beint í viðræðum við viðsemjendur, það er hinn venjulegi gangur. En ríkisstjórin var tilbúin frá öndverðu til að taka þátt í viðræðum við sjómannasamtökin og það er rangt að svo hafi ekki verið og hv. þm. getur ekki endurtekið fullyrðingar sínar þar um.