Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:30:37 (4662)


[22:30]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það síðasta sem hv. þm. Stefán Guðmundsson var að segja er rangt. Í þeim tillögum sem hann er að vitna til er talað um aflagjald og það er algerlega sagt fyrir um það hvernig eigi að nýta sér þá fjármuni og þar er talað um að nýta þá í þágu sjálfrar útgerðarinnar í landinu. Þannig að það er ekki hægt að tala um það sem aðgang að fiskimiðunum nema til útgerðarinnar sjálfrar.
    En mér finnst gott að það skuli þá vera loksins orðið almennilega skýrt, ég hef ekki skilið hv. þm. nægilega vel fram að þessu þegar verið er að tala um hvort sjómenn eigi að taka þátt í kvótakaupum en ég gat ekki skilið það öðruvísi á orðum hans áðan en að það ætti að halda áfram að vera mögulegt að versla tonn á móti tonni með svipuðum aðferðum og hefur verið gert fram að þessu sem þýðir að inn í viðskiptunum eru viðskipti með aflaheimildir og það þýðir í raunveruleikanum að sjómennirnir eru að taka þátt í kvótakaupum. Ef menn ætla ekki að sníða þann agnúa af þessu kerfi þá munu menn auðvitað ekki komast lönd eða strönd með sömu vandamálin áfram uppi og smám saman mun þetta flæða yfir allt saman. Þ.e. að kerfið, sem hv. þm. er svona ánægður með, er að verða fyrst og fremst kerfi þeirra sem eiga aflaheimildirnar og þeir innheimta stórkostlega fjármuni fyrir aðganginn að auðlindinni. Og dag innheimtir sá sem á kvóta í þroski 57 kr. af kílóinu fyrir aðganginn að auðlindinni. Og hvað kallar hv. 4. þm. Norðurl. v. það gjald ef það er ekki auðlindaskattur?