Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:56:00 (4668)


[22:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Auðvitað höfum við svarað þessu. Ég hef svarað þessu áður. Það er hægt að hafa nákvæmlega sams konar takmarkanir á því hvað mörg skip eru hér við landið hvaða kerfi sem við erum að nota. Það er ekki tengt því beinlínis. Og það er svo aftur seinni tíma vandamál þegar menn komast út úr þessari hugsun að þurfa að stjórna sjávarútveginum með einhverjum allt allt öðrum og miklu víðtækari hætti en öðrum atvinnugreinum að það megi þess vegna setja upp alls kyns fyrirtæki af öðru tagi vegna þess að það þurfi samkeppni og frelsi á öðrum sviðum þjóðfélagsins en í sjávarútveginum sé það ekki þannig. Við höfum hins vegar ekki verið að leggja til að það yrði ótakmarkað frelsi í þessu efni, einfaldlega vegna þess að inn í umræðuna í dag held ég að það þýði ekki að fara með þá tillögu.
    Hv. þm. spurði líka hvort fyrirtækið mundi ekki fara eins halloka þar sem sóknarstýring væri notuð til að stjórna aðganginum að auðlindinni. Auðvitað gengur vel og illa í útgerð af ýmsum ástæðum. Það er ekkert sem segir að það mundi ekki koma upp erfið staða í byggðarlögum en hefur hv. þm. gert sér grein fyrir því að það er hvergi verið að stofna ný fyrirtæki í útgerð á Íslandi, það eru örfá fyrirtæki, ungir menn komast ekki í útgerð. Þessir örfáu sem gera það kaupa kvótalausa dalla og eru fyrir fram að fara út í vonlausa útgerð.
    Þannig er það í dag að ef lagður eru saman sá kostnaður sem er af því að kaupa

skip og sá kostnaður sem er af því að kaupa veiðiheimildir til að það sé hægt að gera skipið út þá er það gjörsamlega vonlaust dæmi. Og það er búið að vera það í mörg ár frá því þetta kvótakerfi kom á. Það er verið að grafa undan framtíð íslenskrar útgerðar með þessu kerfi og eyðileggja hana. Og íslenskir sjómenn urðu ekki þeir afkastamestu í heimi undir þessu kerfi og það mun fara halloka líka fyrir þeim með tímanum ef menn halda þessu áfram.