Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:23:06 (4677)


[23:23]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrr í dag sagði hæstv. sjútvrh. að niðurstaða þeirrar umræðu sem þá hafði farið fram gagnvart hv. 8. þm. Reykn. væri sú að framganga hans í öllu þessu máli væri eins konar sögulegur brandari. Mér fannst þetta býsna vel komist að orði um framgöngu hv. þm. Það er þó athyglisvert að þessi einkunn var gefin áður en seinni kafli hv. þm. hófst þegar hann tók til við að fjalla um það sem hefur gerst og finna að svörum eða svarleysi og umræðum undanfarna tvo og hálfan tíma sem hann hefur bara alls ekki við viðstaddur. Hv. þm. lét sig ekkert muna um það að fjalla um og gagnrýna og finna að því að það vantaði svör, bæði mín og annarra, í þeirri umræðu sem hann hefur ekki verið viðstaddur. Þetta gerðist eftir að mönnum þótti þessi framganga hans vera sögulegur brandari.
    Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig á því stendur að hv. þm. gengur fram með þessum hætti í umræðunni, ruglar saman viljandi eða óviljandi í samfellu, annars vegar stjórnskipulegum þáttum um setningu bráðabirgðalaga og hins vegar pólitísku mati forsrh. eða viðkomandi ráðherra sem lögin undirritar með forseta á hverjum tíma. Mati á því með hvaða hætti viðkomandi ráðherra eða ríkisstjórnin eigi að tryggja sig pólitískt á þinginu. Hv. þm. hefur ruglað þessu öllu saman slag í slag. Talar um fasta stjórnskipunarvenju um þennan pólitíska þátt. Kannski vegna þess að í þeirri umræðu sem hann var fjarri og hefur þó fjallað um. Þar var m.a. vitnað til Ólafs Jóhannessonar prófessors, fyrrv. forsrh. og þingmanns, sem segir að stundum beri ríkisstjórn sig saman við þingmenn. Stundum. En þá er hann ekki að fjalla um hina formlegu stjórnskipulegu hlið. Þetta er svona til hliðar við þá fræðilegu úttekt, undir lok slíkrar úttektar að stundum sé um slíkt fjallað. Það er hin fasta stjórnskipulega hefð og vinnubrögð sem hv. þm. leyfði sér að nefna áður.
    Ég var bara að velta því fyrir mér hvernig stendur á þessu að allur þessi ruglandi er í málatilbúnaði þingmannsins um bráðabirgðalögin. Ég held að það sé fleiri skýring en ein. Ein skýringin er þó sú að hv. þm. var ekki fyrir alllöngu síðan dæmdur í Hæstarétti fyrir að hafa brotið stjórnarskrána við setningu bráðabirgðalaga. Ég býst við því að þessi þingmaður sem hefur verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að hafa brotið stjórnarskrána við setningu bráðabirgðalaga telji að það geti sýnt að hann hafi einhverja stefnu og skoðun og siðferði í málinu, að hann geti verið að finna að einhverjum pólitískum vinnubrögðum. Þá gleymi menn því kannski að þessi hv. þm. hefur verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að hafa brotið stjórnarskrána við setningu bráðabirgðalaga. Það hefur enginn annar, hygg ég, í þessum þingsal verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að hafa brotið stjórnarskrána við setningu bráðabirgðalaga. Síðan hefur hann hins vegar uppi stór orð um að einhver pólitískur þáttur málsins sem ekki reynir á fyrir dómstólum hafi ekki verið með því sniði sem hann kýs að hafa það mál. Eða kannski er það vegna þess að þingmaðurinn mælti fyrir álitum í efri deild

1982 þegar stjórn hafði sett bráðabirgðalög eftir að hafa misst sinn meiri hluta, sem hún hafði rétt til, missti meiri hlutann þegar þingmenn Framsfl. sem voru burðarás þess flokks settu opinberlega fjölmörg skilyrði fyrir stuðningi við þau bráðabirgðalög. Miðað við allt það sem hv. þm. hefur sagt þá væri um forkastanleg vinnubrögð að ræða. Ég er ekki að segja það. En miðað við það sem hv. þm. hefur sagt þá væri hér um forkastanleg vinnubrögð að ræða. Hann tók að sér að mæla fyrir málinu, þessi hv. þm. með alla þessa fortíð.
    Það er kannski skýringin á þeim ruglanda, sem hefur verið í málflutningi hans og málatilbúnaði öllum, að rugla saman hinum stjórnskipulegu þáttum sem hæstv. sjútvrh. gerði hér afar glögga grein fyrir og hins vegar því hvort ráðherrar telji öruggara fyrir sig pólitískt til að standa af sér storma í þinginu að hafa samráð við sína samherja.
    Ég bendi á að lögum um bráðabirgðalagasetningu var breytt á þann veg að nú ber að leggja bráðabirgðalög fyrir þingið innan sex vikna. Það var ekki svo í þann tíma þegar hv. þm. var að mæla fyrir málatilbúnaðinum og ég var að víkja að áðan. Skyldi það vera nauðsynlegt ef fram kæmi opinberlega að ríkisstjórnin hefði þegar tilkynnt meiri hluta og tryggt sér meiri hluta í einhvers konar utanþingsatkvæðagreiðslu í síma að skylda menn til að afgreiða mál innan sex vikna? Stjórnarskrárgjafinn er að setja upp það dæmi. Það verður að reyna á innan sex vikna hvort það sé meiri hluti fyrir þessum lögum eða ekki. Ef það væri föst stjórnskipunarhefð og það ætti sér stað einhver símaatkvæðagreiðsla og á grundvelli hennar væri meiri hluti tryggður fyrir málinu, ekki í þingsalnum, þá þyrfti ekki slíkt ákvæði. Þetta sýnir allan ruglandann í málinu. Hv. þm. sem er reyndur þingmaður, kennari meira að segja, meira að segja fyrrv. hæstv. ráðherra, leyfir sér að rugla saman stjórnskipulegum þáttum sem eru grundvallaratriði og eru ræddir í dómsölum, m.a. þegar úrskurðað er að ráðherra hefur brotið stjórnarskrána við setningu bráðabirgðalaga og svo pólitískum þáttum sem koma slíku máli ekkert við.