Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:29:35 (4678)


[23:29]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er merkilegt að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson skuli gera þær tilraunir sem hann er að gera hér til þess að reyna að færa rök fyrir því að vinnubrögð hans við setningu þessara bráðabirgðalaga hafi verið eðlileg. Það ber að harma það að hæstv. forsrh. skuli vera á þeirri braut. Hæstv. forsrh. á að vita það að innan íslenskrar stjórnskipunar tíðkast margvíslegar hefðir. Hann talar af fyrirlitningu um svokallaða símaatkvæðagreiðslu. Oft hefur bakgrunnurinn við slík bráðabirgðalög verið staðfestur á fundum þingflokka. Hvernig eru ríkisstjórnir á Íslandi myndaðar? Eru þær myndaðar þannig að þingið sé kallað saman til þess að ganga úr skugga um það með formlegum hætti í þingsalnum hvort ríkisstjórnin hefur meiri hluta? Nei. Það gerist með þeim hætti að formenn flokkanna ganga fyrir forseta lýðveldisins og orð þeirra eru tekin trúarleg að það sé meiri hluti á bak við ríkisstjórnina. Þar eru það orðin sem gilda en ekki formið vegna þess að það er engin hefð fyrir því innan íslenskrar stjórnskipunar að láta reyna á það með formlegum hætti. Við erum líka með þá venju að þingið situr stundum ekki sex mánuði á ári og það er hægur vandi að setja bráðabirgðalög við þær aðstæður þannig að efnisatriði laganna séu í raun runnin út áður en reynir nokkurn tímann á það í þinginu hvort þau hafa stuðning. Það er einmitt þess vegna sem við erum að vara við þeim vinnubrögðum sem greinilega hafa verið viðhöfð í þessu máli að leita bara eftir stuðningi tveggja þingmanna úr þingflokki vegna þess að sú venja á Íslandi að láta þingið ekki sitja hálft árið skapar þar með opnun á því að bráðabirgðalagavaldinu sé misbeitt og það reyni aldrei á það efnislega vegna þess að þegar málið loksins kemur til atkvæða á þinginu þá sé tilefni laganna úr sögunni.