Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:37:17 (4683)


[23:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst og þarf ekki frekar vitna við en framgöngu hæstv. forsrh. í þessum umræðum að hann heldur sér við það sýnishorn á málflutningi og röksemdafærslu sem við höfum séð upp á síðkastið. Ég hef ekki rétt samkvæmt þingsköpum til að fjalla nánar um það og er búinn að verja þeim rétti sem ég hef til umráða við þessa umræðu. En það má vel vera að við getum vikið að því við 3. umr.
    Ég vil hins vegar bera af mér þær sakir að ég sé að ganga hér eitthvað með óeðlilegum hætti inn á það svið sem er ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens og þáttur Gunnars Thoroddsens forsrh. á árunum 1980--1983. Það var hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem hóf þá umræðu með röngum hætti ( Forsrh.: Það var Steingrímur Hermannsson.) og ósanngjörnum hætti. Og ég vil ítreka það hér og sit ekki undir neinum dylgjum um það að bæði ráðherrar Alþb. og ég sem formaður þingflokksins vorum knúnir til þess af forsrh. Gunnari Thoroddsen að gefa honum ávallt skýrslu um stuðning þingmanna flokksins við bráðabirgðalög áður en þau voru sett. Það var sú vinnuregla sem hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen viðhafði og það var lærdómsríkt fyrir mig sem tiltölulega nýjan þingmann á þeim árum og fyrstu árum mínum sem formaður þingflokks að kynnast þeim. Og væri betur að núv. hæstv. forsrh. stundaði jafnvönduð vinnubrögð.
    Það sem hann sagði um Hæstarétt og það tiltekna mál sem dæmt var í fyrir nokkrum árum kemur þessari umræðu ekkert við vegna þess að sá dómur fjallaði ekki um stjórnskipulega þætti í málinu, hæstv. forsrh., og það veit hæstv. forsrh. Hann fjallaði hins vegar um allt aðra reglu innan stjórnarskrárinnar sem snerti efnisþætti málsins en á engan hátt stjórnskipulegu hliðina. Ég mundi í sporum hæstv. forsrh. tala varlega um þau mál þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli Geirs Waage.