Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:52:07 (4689)


[23:52]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það er vissulega svo að einn fæ ég ekki ráðið miklu í þessum efnum en ég hef fylgt fram mjög ákveðinni stefnu í þessu efni. Stjórnarflokkarnir hafa, þó að þeir hafi í öndverðu komið að þessu máli með mjög ólíkar skoðanir, sameinast um að fylgja fram óbreyttri fiskveiðistefnu þannig að í þeim efnum er ekki ágreiningur. Um grundvallaratriði málsins er enginn ágreiningur á milli stjórnarflokkanna.
    Við vitum líka að þó að skiptar skoðanir séu innan Framsfl. þá hefur hann í meginefnum lýst fylgi við þessi sjónarmið. Í öllum þessum flokkum eru menn sammála um að það þurfi að koma fram lagfæringum. Ef hér væri, eins og óskhyggja hv. 3. þm. Vesturl. stendur til, einhver meiri hluti fyrir öðru þá hef ég ekkert og hefði ekkert afl haft á undanförnum þingum að koma í veg fyrir það. Mitt eina litla atkvæði hér hefði ekki megnað að koma í veg fyrir það. Sannleikurinn er hins vegar sá að það er mikill meiri hluti um að fylgja eftir grundvallaratriðunum þó að menn hafi e.t.v. skiptar skoðanir um þau útfærsluatriði þar sem menn vilja koma fram lagfæringum. Það er nauðsynlegt að gera hér á skýran greinarmun. Það er um þessi atriði sem tókst samkomulag í tvíhöfða nefndinni, sem tókst pólitískt samkomulag á milli stjórnarflokkanna og er víðtækur meiri hluti fyrir á Alþingi.
    Hitt vitum við að um einstök útfærsluatriði eru skiptar skoðanir innan allra flokka vegna þess að þar stangast á hagsmunir einstakra landshluta og ofureðlilegt að menn takist þar á með tilliti til hagsmuna sinna umbjóðenda. Það hlýtur alltaf að gerast og gerist í hvaða fiskveiðistjórnunarkerfi sem vera skal. En óskhyggja hv. þm. um að hér sé eitthvað á seyði sem veiki grundvöll þessa fiskveiðistjórnunarkerfis á ekki við nokkur rök að styðjast. Ef svo væri þá hefði ég ekki haft neitt afl til að koma í veg fyrir það. En þessi ríkisstjórn situr á þriðja þingi og ekki nokkur maður hefur komið fram með tillögur um að breyta eða taka upp annað kerfi. Við höfum verið að fjalla um tillögur um úrbætur á þessu kerfi.
    Ég verð því að hryggja hv. þm. í því efni að í grundvallaratriðum verða ekki neinar breytingar gerðar. En ég geri mér fastlega vonir um að við tryggjum nauðsynlegar og eðlilegar lagfæringar á því kerfi sem við búum við en það er allt annar hlutur en hv. þm. er að tala um og á ekkert skylt við draumóra hans.