Kaup á björgunarþyrlu

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:34:48 (4692)


[13:34]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Góð ræða er aldrei of oft flutt. Ég ætla að ræða við hæstv. forsrh. um þyrlukaupamálið sem er að fá á sig nýja mynd. Ég byrja auðvitað ræðu mína á því að vitna í afdráttarlaus fyrirheit hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar fyrir rúmu ári síðan eða hinn 25. febr. í fyrra. Með leyfi forseta sagði hæstv. forsrh.:
    ,,Ég get skýrt frá því og sagt það sem ég þegar hef sagt. Það stendur ekki annað til heldur en ríkisvaldið og ríkisstjórnin geri samninga um þyrlukaup á þessu ári alveg óháð því hvernig þessi hv. þm. lætur.`` Enn fremur sagði hann: ,,Þetta er nú skrípaleik líkast. Það er þannig að ég hef margítrekað hér bæði í minni fyrstu ræðu, sem ekkert var loðin í þessum efnum, og í öllum þeim ræðum síðar að ríkisstjórnin

muni innan fárra vikna meira að segja ganga til samninga um kaup á þyrlu. Þetta hef ég sagt hér inni. Allir þeir sem vilja heyra, a.m.k. þeir sem þessu máli fylgja af heilindum en ekki af einhverjum pólitískum skrípaleik, hafa skilið það sem sagt er.``
    Svo mörg voru þau orð. Nú berast fréttir um það í hádegisfréttum að hafin sé ný og nýstárleg deila í þessu máli þar sem hæstv. sjútvrh. segir að hæstv. utanrrh. muni enn ætla að tefja þetta mál og vilji ganga til viðræðna við varnarliðið um björgunarsveitina og samninga þar um. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh.: Hvenær verður staðið við fyrirheitin? Hvernig stendur hæstv. forsrh. í þessari nýju og nýstárlegu deilu innan ríkisstjórnarinnar?