Kostnaður atvinnulausra vegna heilbrigðisþjónustu

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:45:54 (4700)

[13:45]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. heilbr.- og trmrh. Það var sagt frá því í kvöldfréttum útvarpsins í gær að Félag geðlækna hefði fundað og ályktað þar á meðal um stöðu atvinnulausra í heilbrigðiskerfinu og bent á að vegna atvinnuleysis þarf fólk oft og tíðum að leita talsvert mikið til lækna vegna þess andlega ástands sem m.a. getur fylgt því að ganga um atvinnulaus kannski mánuðum saman og eins vegna þeirru líkamlegu kvilla sem herja á fólk í því sambandi.
    Þeir bentu hins vegar á að atvinnuleysingjar þurfi að greiða heilbrigðisþjónustuna fullum fetum rétt eins og allir aðrir. Þeir njóta ekki sömu afslátta í heilbrigðiskerfinu og t.d. örorkulífeyrisþegar eða ellilífeyrisþegar. Í dag greiða t.d. örorku- og ellilífeyrisþegar 200 kr. fyrir hverja heimsókn á heilsugæslustöð þegar aðrir greiða 600, þeir greiða þriðjung af því sem almennt þarf að greiða sérfræðingum og þeir fá afsláttarkort þegar þeir eru komnir upp í 3.000 kr. hámarksgjald en aðrir þurfa að komast upp í 12.000.

    Nú vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort hann hafi hugsað sér að taka eitthvað á þessum málum í framhaldi af þessari ályktun geðlæknanna um mikilvægi þess að þess hópur bótaþega, sem núna er greinilega afskiptur í heilbrigðiskerfinu og þarf mikið að leita til þjónustu lækna fái einhverja lagfæringu á þessum málum.