THORP-endurvinnslustöðin fyrir geislavirkan úrgang

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:53:22 (4705)



[13:53]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir með hv. 4. þm. Austurl. þegar hann segir að í framhaldi af ályktun Alþingis frá því í desember komi ekki til greina annað heldur en viðbrögð okkar Íslendinga verði einarðleg og ákveðin og við leitum samstöðu annarra þjóða sem svipaðra hagsmuna hafa að gæta og hafa tekið þátt í því með okkur að andmæla þessum áformum Breta harðlega. Það hefur verið gert. Það hefur verið gert að frumkvæði umhvrh. Við höfum að sjálfsögðu rætt þetta mál þótt ég geti ekki á þessari stundu sagt nákvæmlega til um það hver viðbrögðin verða. Það hlýtur að ráðast af því hver verður niðurstaða þessa dómsmáls í Bretlandi milli sveitarfélagsins og stjórnvalda.
    En ég árétta það að við umhvrh. höfum rætt málið. Við munum vissulega gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að halda fast og einarðlega á því. Við munum leita samstöðu með öðrum þjóðum sem hafa áður komið á framfæri svipuðum mótmælum og hafa svipaðra hagsmuna að gæta og við munum að sjálfsögðu gera það í anda þeirrar ályktunar Alþingis sem fyrir liggur.