Löggjöf um glasafrjóvganir og réttaráhrif tæknifrjóvgunar

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:59:03 (4709)


[13:59]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það var fyrst samþykkt um þetta þál. árið 1986 og þá var skipuð nefnd í framhaldi af því. Síðan var reyndar önnur þál. samþykkt árið 1989 um tæknifrjóvganir og enn gerist ekkert í þessum málum, þ.e. nefndin lýkur ekki störfum enn. Ég veit að vísu að þetta er mjög flókið mál, það eru örar og miklar framfarir þessari grein. Það er sífellt verið að auka tæknina sem þessu er samfara. En þarna eru mörg álitamál uppi og það nægir að nefna það nýjasta sem er ekki langt síðan var í umræðu hér í fjölmiðlum og annars staðar að það sé hægt að frjóvga egg úr fóstri sem hefur verið eytt og koma því fyrir í legi einhverrar konu. Barnið sem fæddist síðan úr þessu eggi gæti sagt: Móðir mín var fóstur sem aldrei fæddist. Það eru mörg fleiri svona álitamál sem eru komin upp. Það eru svo örar framfarir í þessu og það er mjög nauðsynlegt að þessi nefnd fari að skila af sér. Það væri fróðlegt að vita hver nefndarkostnaðurinn væri orðinn frá 1986.