Dýravernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 10:37:08 (4729)

[10:37]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Eins og hv. þm. tóku eftir voru mjög margar brtt. við frv. um dýravernd samþykktar við 2. umr. málsins en eins og ég kynnti í ræðu minni þá tók ég eftir því að niður höfðu fallið tvær litlar breytingartillögur sem okkur sást yfir vegna þess að þetta var svolítið flókið þannig að þegar skjalið var komið í heild, þá tókum við eftir að það voru tvær breytingartillögur í viðbót sem ástæða var til að flytja til að gera frv. heldur skýrara.
    Það er í fyrsta lagi brtt. við 13. gr. frv. Eins og greinin er orðuð núna, þá hljómar 2. mgr. þannig:
    ,,Dýralæknum einum er heimilt að gelda dýr með þeim undantekningum sem settar verða í reglugerð.``
    Nefndinni þótti eðlilegt að yfirdýralæknir veitti þessa heimild án þess að það þyrfti sérstaklega að geta um það í reglugerð, það þyrfti ekki endilega reglugerð um þetta ákvæði. Það eru þó nokkrir aðilar sem gelda dýr án þess að þeir séu dýralæknar og það þykir eðlilegt að þeir haldi því áfram og það sé ekki endilega skylda að þetta séu dýralæknar og í þessum undantekningartilvikum sé nægilegt að yfirdýralæknir veiti þessa heimild. Því leggjum við til þessa breytingu á 13. gr.
    Einnig leggjum við til brtt. við 16. gr. Það er ekki efnisleg breyting heldur eingöngu til útskýringar. Það er 5. mgr. sem hljómar svo nú, með leyfi forseta:
    ,,Einungis má nota lifandi dýr í þessum tilgangi ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri.``
    Okkur þykir eðlilegt að í stað orðanna ,,þessum tilgangi`` sem vísar ekki beinlínis til neins sérstaks, þó að það sé kannski eðlilegt miðað við greinina hvað við er átt, þá sé skýrara að segja: ,,Einungis má nota lifandi dýr í tilraunum ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri.`` Einnig er það til skýringar að hafa þessa málsgrein 2. mgr. 16. gr.
    Aðrar breytingar leggjum við ekki til, frú forseti. Þetta eru aðeins smávægilegar breytingar.