Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 11:50:48 (4742)


[11:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var nú frekar lítilmannlegt hjá hæstv. sjútvrh. að reyna að setja sig í þessar kennarastellingar hér og halda því fram að þingmenn viti ekki hvað þeir eru að tala um. ( Sjútvrh.: Einn.) Eða að einn þingmaður viti ekki hvað hann er að tala um. Auðvitað er öllum kunnugt um það, hæstv. sjútvrh., hvaða yfirlýsingu sjómannasamtökin settu fram á sínum tíma. Það nýja í málinu sem hæstv. ráðherra veit auðvitað um er að eftir langvarandi deilur um þetta atriði gaf ríkisstjórn Íslands það fyrirheit að hún mundi koma með tillögur til lausnar á þeim málum. Ríkisstjórnin tók málið út úr þeim farvegi að það væru samningsaðilar sem ættu að fjalla um málið og tók það inn í sinn eigin heimagarð. Og það sem meira er, ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög, þar sem í 1. gr. sjútvrh. ber ábyrgð ekki bara á því að skipa nefnd heldur eins og stendur hér líka ,,  . . .  undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum.`` Og málið er auðvitað í hnút vegna þess að það er hæstv. sjútvrh. sem hefur vísað þeirri lagalegu ábyrgð frá sér í reynd og er að reyna að koma henni yfir á einhverja aðra. Síðan fer hann að tala hér með hrokafullum hætti um að þingmenn Alþb. treysti sér ekki til að hafa efnislega afstöðu svo ég vitni orðrétt í hæstv. ráðherra. Hver er efnisleg afstaða ríkisstjórnar Íslands í þessu máli? Ég hef spurt um það við 2. umr. og ekki fengið neitt svar. Ég spurði um það hér í morgun, bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh., og hef ekki fengið neitt svar enn, hvorki í þessari ræðu hæstv. sjútvrh. né hjá hæstv. forsrh. Þannig að sá aðili sem með 1. gr. þessa frv. og samkvæmt eigin yfirlýsingu tók að sér að gera tillögur í málinu hefur ekki sinnt því verki. Og þess vegna gáfu sjómannasamtökin þá yfirlýsingu í gær sem var fréttaefni allra fjölmiðla. Svo kemur hæstv. sjútvrh. hér upp og með hrokafullum hætti segir: Það var ekkert nýtt í því og fer að ásaka Alþb. fyrir að hafa ekki tekið efnislega afstöðu. Má ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er efnisleg afstaða ríkisstjórnarinnar í því máli?