Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 11:56:49 (4745)


[11:56]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Í bráðabirgðalögunum segir skýrt að sú nefnd sem samkvæmt 1. gr. þeirra var sett á fót skuli skila tillögum fyrir 1. febr. Lögin kveða á um það að nefndin skili tillögum. Lögin fjalla ekkert um það að ríkisstjórnin skili tillögum fyrir 1. febr. ( ÓRG: . . . ,,og undirbúi nauðsynlega löggjöf``.) Þau kveða á um það að nefndin skili tillögum. ( ÓRG: Það er bara fyrri hluti setningarinnar.) Það var gert með eðlilegum fyrirvara og meira að segja nokkru fyrir 1. febr. Það liggur í hlutarins eðli að þegar tillögur koma fram þá þarf í kjölfar þess að taka til þeirra afstöðu. Og ríkisstjórninni þótti rétt að leita umsagnar m.a. hv. sjútvn. Og ég vona enn að hv. þm. sé ekki að gagnrýna það að hún sé höfð með í ráðum við mótun endanlegra tillagna og ákvarðana. En það liggur við þegar ég heyri þingmanninn tala hér aftur og aftur að ég fari að halda að hann sé í raun og veru að gagnrýna þá málsmeðferð.
    En að öðru leyti hefur verið staðið að framkvæmdinni með þeim hætti sem ráð var fyrir gert við setningu þessara laga.