Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 12:04:40 (4751)


[12:04]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. þm. er nú í vörn sinni farinn að leiða umræðuna út á víðan völl og um aðra hluti. En honum til upplýsingar þá mun hv. sjútvn. fjalla um þetta frv. með nákvæmlega sama hætti og önnur frv. frá ríkisstjórn og þingmönnum sem þingnefndir fá til meðferðar. Það eru varla mikil tíðindi fyrir hv. þm. og furðulegt að þingmaður sem þó hefur setið þetta mörg ár á þingi skuli þurfa að bera fram fyrirspurn um það með hvaða hætti þingnefndir fjalli um mál. Það liggur bæði fyrir í þingsköpum og langri reynslu og fyrir nefndinni hafa legið ákveðnar tillögur um þetta atriði. Bæði ríkisstjórnin og sú nefnd sem skipuð var á grundvelli laganna er tilbúin til að koma fram með aðrar hugmyndir ef það má verða til þess að frekari sátt náist um niðurstöðu í málinu.
    Það er hins vegar ekkert einfalt úrlausnar. Og allir sem til þekkja hljóta að gera sér fulla grein fyrir því að það er vandasamt úrlausnar þetta viðfangsefni og þarfnast nokkurrar skoðunar og ekki óeðlilegt að menn hafi nokkuð mismunandi sjónarmið uppi í því efni. Aðalatriðið er að menn séu sammála um að tryggja að það markmið náist sem við höfum sett okkur að sjómenn þurfi ekki að sæta því að viðskipti með aflaheimildir hafi áhrif á þeirra skiptakjör.