Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 12:06:38 (4752)


[12:06]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er nokkurt umhugsunarefni þegar hér eru gefnar yfirlýsingar að menn hafa fengið umhugsunarfrest um einn mánuð til að meta það hvernig þeir vilja standa að þeim yfirlýsingum. Og þegar stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn þessu frv. ásamt tveimur þingmönnum Sjálfstfl. þá kemst hæstv. forsrh. að því að hvorki fyrr né síðar hafi stjórnarandstaðan sýnt annað eins ábyrgðarleysi. Vissulega hefur það verið uppflettiefni að komast að því með fortíðina að það hafi aldri gerst áður. En hitt sýnir náttúrlega yfirburðahæfileika að geta dæmt um það að í framtíðinni um ókomin ár muni það aldrei gerast að stjórnarandstaðan sýni annað eins ábyrgðarleysi. Það verður að segjast eins og er að á meðan umræðan er á þessum nótum þá ná menn ekki landi vegna þess að Sjálfstfl. er í þeirri stöðu að hann var að setja lög á eigin menn, eigin forustumenn. Í fyrsta lagi fjalla þessi lög í 1. gr. um að setja lög á hæstv. sjútvrh. Og nauðsynin var svo mikil að það varð að setja bráðabirgðalög. 1. gr. hljóðar svo: ,,Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd . . .  ``, það eru lög á hæstv. sjútvrh. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hvað var það sem hæstv. sjútvrh. hafði gert af sér svo það þyrfti að setja lög á hann, bráðabirgðalög á manninn? Það er ekkert smáræðis vandræðaástand orðið þegar ríkisstjórn býr við þau vandamál innbyrðis að það verður að setja lög, bráðabirgðalög á ráðherrana. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt að það geti verið ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að fella slíka lagagrein. Það er þá alveg óupplýst hvað það var sem hæstv. ráðherra hafði brotið af sér. ( StG: Viðkomandi ráðherra ætti a.m.k. að þakka fyrir.) Hér er nefnilega kjarni málsins sá að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson greiðir atkvæði gegn lögunum vegna þess að hann er einn í forustusveitinni fyrir sjómönnunum. Guðjón A. Kristjánsson lýsir því í útvarpi allra landsmanna að þetta mál snúist um það hvort komið verði lögum yfir þá sem brjóta samninga. Hvort hægt sé að koma lögum yfir þá sem brjóta samninga. Hvort hægt sé að koma lögum yfir þá útgerðarmenn íslenska sem brjóta samninga. Og hann segir að það sé furðulegt að LÍÚ skuli hafa sameinast í þeirri afstöðu að koma í veg fyrir að hægt sé að koma lögum yfir þá sem brjóta samninga. En hérna horfum við alþingismenn á það að það er ekki aðeins LÍÚ sem hefur sameinast um þá afstöðu að koma í veg fyrir það að hægt sé að koma lögum yfir þá sem brjóta samningana heldur hefur ríkisstjórn Íslands líka ákveðið að taka þá afstöðu að koma í veg fyrir það að hægt sé að koma lögum yfir þá sem brjóta samningana. Hæstv. sjútvrh. sagði hér rétt áðan að markmiðið væri að setja reglur sem kæmu í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hefðu áhrif á skiptakjör. Það er aldeilis ekki það sem stendur í frv., hæstv. ráðherra. Ef þetta stæði í frv. þá væri það strax mikil framför. Það stendur nefnilega í frv. að hafa óeðlileg áhrif. Og þá spyr maður: Hver eru hin eðlilegu áhrif sem verið er að tala um? Það er verið að halda því fram að það sé eðlilegt að kvótakaup útgerðarmanna geti haft áhrif á skiptakjörin. Þannig hljóðar greinin. En hún hljóðar ekki þannig eins og hæstv. ráðherra talaði um. Það er nefnilega alveg á hreinu að þarna er mikill munur á. Eru menn að tala um óeðlileg áhrif eða eru menn að tala um áhrif? Er hæstv. sjútvrh. reiðubúinn að leggja til breytingu hér að í stað orðanna ,,óeðlileg áhrif`` standi ,,hafi áhrif``? Hér skilur á milli.
    Ég hygg að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að þeir sem hafa staðið að þeirri skipan í þessu landi að hér skuli vera frjáls starfsemi verkalýðsfélaga geri ráð fyrir því að forustumenn í kjaradeilum verði að bera ábyrgð. Það er vissulega hugsanlegt að setja þá allsherjarreglu að hægt sé að fresta verkföllum vissan tíma. Fordæmið í þeim efnum er frá Bandaríkjunum. En það er umhugsunarefni að ríkisstjórn, sem hóf sinn feril á því að setja bráðabirgðalög til að tryggja það að vissir opinberir embættismenn yrðu ekki lækkaðir í launum, telur nú nauðsyn að setja lög á sjómenn sem ekki voru að fara fram á kauphækkun í þessu tilfelli heldur voru að fara fram á það að útgerðarmenn þyrftu að virða samningana og fara að lögum, að leikreglurnar yrðu þannig. Það er þetta sem okkur er óskiljanlegt. Og það sem við spyrjum um er þetta: Ef hæstv. forsrh. sér jafnlangt fram í tímann og kom fram í ummælum hans hér úr ræðustól sá hann þá ekki líka fram í tímann þegar hann lagði til í desembermánuði að fresta samkomudegi Alþingis, færa hann til um viku, vegna þess að það væri ekki hægt að setja bráðabirgðalög á þetta verkfall ef Alþingi hefði komið saman viku fyrr í janúar? Það væri ekki verjandi að segja undir þeim kringumstæðum að verkfallið hefði staðið svo lengi að það yrði að setja lög? Sú spurning liggur nefnilega á vörum hvers einasta sjómanns í landinu: Var útgerðarmönnum landsins lofað því í desember að það skyldu sett lög í janúar ef þeir ekki færu til veiða?
    Nú er það svo að vissulega var þetta verkfall hættulegt veiðum á einni fisktegund við Ísland. Það var hættulegt gagnvart veiðum á loðnu. Það var hægt að veiða allan annan þann kvóta sem ákveðið hefur verið að veiða þó að verkfallið hefði staðið allan janúar vegna þess einfaldlega að það vita það allir að skipin eru á leiðinni í land vegna þess að þau hafa ekki aflaheimildir til þess að stunda veiðar þegar líður á árið. Ég hygg að þegar annar aðilinn telur sig geta treyst því að ríkisvaldið muni setja lög á mótleikarann sem er að semja við hann þá sé enginn grundvöllur til að ná frjálsum samningum, þá er enginn grundvöllur til að ná slíkum samningum. Og það er þess vegna að mínu viti sem þetta hefur ekki verið leyst, vegna þess að það lá áður fyrir og þess mega menn eins og hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, minnast að það var búið að gefa út sameiginlega yfirlýsingu áður milli útgerðarmanna og sjómanna um hvernig ætti að standa að þessum málum. Það er eitthvað seinna sem kemur inn sem er ákvörðun um að það skuli haldið hlífiskildi yfir skúrkunum sem ekki vildu virða samningana.
    Ég lít svo á að sú umræða sem hér fer fram hljóti að hafa viss kaflaskil í för með sér. Er svo komið að sú stétt Íslands, sem fyrst ásamt verkamönnum þessa lands fékk verkfallsheimild, er talin svo óábyrg að vonlaust sé að trúa henni fyrir því valdi að semja um þessa hluti? Við vitum að það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að hækka ekki kaup í landinu. Við vitum að það hefur verið stefna hennar í reynd að lækka kaupið hjá flestum, ekki öllum, eins og ég gat um áðan. En við spyrjum okkur þeirrar spurningar varðandi þetta atriði: Stétt sem ekki er í reynd að fara fram á kauphækkun, stétt sem er að fara fram á samninga við sinn mótaðila á þann hátt að það sem áður var viðurkennt verði viðurkennt áfram með svo skýrum hætti að vonlaust sé að koma við prettum, sú stétt býr við það í dag að verkfallsvopnið var af henni tekið um vissan tíma. Það er hin sögulega staðreynd. Er það ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni undir slíkum kringumstæðum að segja: Þessar leikreglur eru ekki heiðarlegar gagnvart íslenskri sjómannstétt. Það kostar peninga að fara í verkfall. Það er herkostnaður. Það áttu ekki allir fyrir þessum herkostnaði. En aðgerðin gerir það að verkum að hann tapaðist allur. Allur fórnarkostnaður íslenskra sjómanna í þessu verkfalli tapaðist. Hann var af þeim tekinn. Við höfum séð aðgerðir þar sem samið hefur verið m.a. við opinbera starfsmenn um afturvirkni á ýmsum hlutum sem liggur við undir sumum kringumstæðum að hafi mátt túlka sem launagreiðslur í verkfalli. En allur kostnaðurinn sem íslenskir sjómenn voru búnir að leggja í í þessu verkfalli var af þeim tekinn. Ég segi: Svona leikreglur eins og hér hafa verið notaðar eru ekki heiðarlegar. Og ef það er hægt að skilja Guðmund Hallvarðsson, hv. 16. þm. Reykv., sem neitar að styðja frv., þá hlýtur hæstv. forsrh. að gera sér grein fyrir því að Guðmundur Hallvarðsson, hv. 16. þm. Reykv., er ekki eini þingmaðurinn í þessum sal sem er í tengslum við íslenska sjómannastétt, jafnvel þó að það sé viðurkennt að hann gegni þar meira forustuhlutverki en aðrir sem hér eru inni. Ég neita þess vegna að taka við þeim bikar að það hafi verið óábyrg afstaða að standa með íslenskum sjómönnum í þessari deilu, að standa með því að þeir næðu lögum gagnvart þeim hluta íslenskra útvegsmanna sem vilja ekki virða samninga. En ég vil taka það fram að ég er sannfærður um að það er mikill meiri hluti íslenskra útvegsmanna sem vill virða samningana eins og þeir voru. Og ég veit líka að menn úr röðum íslenskra útvegsmanna sögðu við sjómenn: Ef þið ekki stoppið þetta svindl þá eruð þið að neyða okkur til að taka upp sömu leikreglurnar. Því ef það er þannig að sumir eigi að komast upp með það að borga 25% lægri laun en hinir þá er verið að færa þeim slíkan auð miðað við þá útgerðarmenn sem standa eðlilega að verki að þeir hafa fjármuni til að kaupa hina upp. Og erum við þá að samþykkja að það sé eðlilegt að byggja upp þannig réttarríki að hinir óheiðarlegu hafi möguleika til að kaupa hina heiðarlegu upp? Er það markmiðið með uppbyggingunni? Ég segi nei. Ég er sannfærður um, og það geta íslenskir sjálfstæðismenn kannað, að það eru margir, margir í þeirra röðum sem hafa merkan feril sem íslenskir útvegsmenn og munu ekki standa að því að svíkja sjómenn eins og skúrkarnir hafa gert í þessu sambandi og þeir munu aldrei standa

að því að svíkja samninga á þennan hátt. Það er þetta atriði sem er ólíðandi í þessum ákvörðunum sem hér eru teknar.
    Ég segi enn og aftur: Ef Alþingi Íslendinga vill taka upp leikreglur sem lýðræðisríkið Bandaríkin hefur notað, að hægt sé að fresta verkfalli, þá á að setja það inn í vinnumálalöggjöfina sem heild. Það á að setja það þar inn vegna þess að þá eru það almennar leikreglur á jafnræðisgrundvelli. En að ákveðin stétt þurfi að búa við það að þegar hún hefur fært fórnarkostnað í verkfalli til að þvinga fram niðurstöðu sem ekki var kauphækkun, þvinga fram niðurstöðu sem var spurning um réttlæti, þá segi ég: Slík vinnubrögð Alþingis Íslendinga að samþykkja lög á þennan hátt leiða ekkert gott af sér.
    Herra forseti. Ég met það svo að hæstv. sjútvrh. hafi skilið málið til fullnustu. Og ég met það svo að hæstv. sjútvrh. hafi líka skilið málið til fullnustu. Ég met það svo að það sé ekki þörf að ræða það frekar. Meiri hluti Alþingis tekur sína ákvörðun. Meiri hluti Alþingis má hæla sér af því að hafa tekið þessa ákvörðun fyrir mér. En ég biðst undan því að þurfa að sitja uppi með að það sé óábyrg afstaða að vilja standa að því að samningar séu virtir og skúrkar komist ekki upp með það að fara í kringum gerða samninga.