Staðsetning björgunarþyrlu

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 12:39:59 (4755)

[12:39]
     Flm. (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir undirtektirnar við þetta mál. Það er alveg rétt sem kom fram hjá honum að það þýðir náttúrlega lítið að vera að velta fyrir sér staðsetningu á björgunarþyrlu sem ekki er til. Ef það yrði tilfellið að 1. sept. nk. yrði engin þyrla komin til landsins af fullkomnustu gerð þá þýðir lítið að vera að velta fyrir sér staðsetningu hennar.
    Mér þykir afar slæmt að hvorki hæstv. forsrh. né hæstv. dómsmrh. skuli vera viðstaddir umræðuna af því að þessi þyrlumál eru nú til umræðu. Það segir sína sögu að þessi mál hafa dregist úr hömlu og það er alveg óljóst enn hvaða lyktir verða í samningum við varnarliðið, hvaða björgunarþyrla verður keypt. Og síðast í gær kom það fram hjá hæstv. forsrh. í umræðum að það er engu líkara en að það eigi að fara að blanda þyrlukaupamálinu í deilur um fisksölu til Frakklands, sem mér finnst mjög einkennilegt svo ekki sé meira sagt.
    Ég vil vekja athygli á þessari fjarveru og á því að fjölmörgum spurningum er ósvarað um þessi þyrlukaupamál. Ég vona að það verði svo að hv. allshn. taki þetta mál og afgreiði það og láti það ekki

liggja þannig að það verði þó unnið á þessum vettvangi að þessu þarfa máli. Ég hef kosið að láta þessa tillögu fjalla eingöngu um staðsetninguna. Það hafa verið baráttumenn fyrir þyrlukaupum og við erum auðvitað baráttumenn fyrir þeim en ég hef kosið að halda því máli til hliðar en það verður ekki hjá því komist eigi að síður, vegna þessa einstæða framgangs, að minna á það mál um leið og talað er fyrir þessari tillögu.