Staðsetning björgunarþyrlu

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 12:43:20 (4756)


[12:43]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það að þessi tillaga kemur hér til endurflutnings en ég kem fyrst og fremst upp í þennan ræðustól til þess að kvarta yfir því að hæstv. forsrh. eða aðrir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eru ekki mættir hér til þess að segja sitt álit á því sem er verið að leggja til. Það er verið að leggja það til að ríkisstjórnin láti fara fram úttekt á því hvar sé best að láta björgunarþyrluna vera á landinu og það skiptir verulega miklu máli. En einmitt á sama tíma og verið er að ræða þetta mál þá liggur það fyrir að hæstv. forsrh. hefur verið að láta í veðri vaka að það geti vel verið að þessar þyrlur verði allar staðsettar í Keflavík. Ef það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þyrlurnar eigi að vera staðsettar í Keflavík þá finnst mér æðiundarlegt að vera að ræða mál á Alþingi um að skoða aðrar leiðir ef þetta er stefnumörkun. Mér finnst það ekki Alþingi til sóma ef ekki er hægt að láta umræðuna sem hér fer fram endurspegla raunveruleikann á þeim tíma sem umræðan fer fram. Mér finnst það óvirðing bæði við tillögumenn, sem eru að leggja fram góða og eðlilega tillögu um að við stöndum faglega að því að átta okkur á því hvernig eigi að skipa björgunarmálum, og þingið að menn skuli ekki mæta til þeirrar umræðu og svara því hvort það sé þannig að ríkisstjórn Íslands sé nánast búin að ákveða að það eigi að sinna björgunarstörfum frá einum stað á landinu og það sé Keflavík.