Staðsetning björgunarþyrlu

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 12:51:32 (4761)


[12:51]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Mér sýnist það alveg einsýnt vera að það beri að verða við óskum sem hafa komið fram um að þetta mál fái góða meðhöndlun þegar ráðherrar eru mættir og það komi ekki annað til greina en þjóðin fái nú loksins að sjá hvort það sé hugmyndin yfirleitt að tryggja okkar sjómönnum og raunar fleirum það öryggi sem þyrlan er, sem við höfðum ályktað um að athuga skyldi málið en ekki kannski beint að Alþingi hafi ákveðið hvernig með það skuli fara.
    En mér finnst alveg koma til greina að Alþingi álykti hreinlega um það að keypt skuli þyrla af einhverri ákveðinni tegund og ef það ekki gengur í gegn, að meiri hluti Alþingis geri eitthvað í þessa veru, þá er náttúrlega ekkert við því að gera. Við ráðum ekki við það, óbreyttir þingmenn, en við eigum fullan rétt á því að með málið sé farið að réttum þingsköpum og að alls siðgæðis --- ég vona nú bara að ég geti notað það, það sé ósiðlegt að reyna að drepa málinu á dreif með aldeilis hreint óendanlega mikilli tregðu.
    Ég veit ekki hvað það er, hvort það er gerð þyrlunnar, hvort það eru einhverjir einstaklingar sem sérstaklega á að hnýta í og hefur verið gert með ósæmilegum hætti, að þetta sé mál einhvers einstaks þingmanns. Ég held að við þessir óbreyttu megum bara hafa okkar skoðun líka og fá málið til atkvæða eins fljótt og unnt er.