Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 13:33:44 (4763)


[13:33]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. sagði við þessa umræðu í morgun að hér hefði verið á ferðinni pólitískur skollaleikur frá hendi stjórnarandstöðunnar og ábyrgðarleysi að greiða atkvæði gegn þessum bráðabirgðalögum hér í þinginu.
    Ég mótmæli þessum orðum og tel að það sé einsýnt hvar ábyrgðarleysið liggur í þessu máli. Ábyrgðarleysið liggur auðvitað hjá ríkisstjórninni sem missirum saman hafði velkst með þetta mál. Það hafði verið vitað frá því á sl. vetri að sjómannasamtökin myndu ekki getað sætt sig við stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum eins og hún hafði verið boðuð í tillögum tvíhöfða nefndarinnar. Þannig vissu menn alveg nákvæmlega í hvað stefndi, að það stefndi í átök á milli vinnuveitenda og sjómanna. Auðvitað skýrðist þetta enn betur þegar leið að áramótum og ríkisstjórnin gerði ekki neitt til að koma í veg fyrir að þetta

verkfall skylli á og það er ábyrgðarleysi. Það að greiða atkvæði gegn þessum bráðabirgðalögum er að mínu viti eingöngu samviskuspurning til þingmanna, hvort þeir séu tilbúnir að skrifa upp á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum, þ.e. þá hluti sem hér liggja fyrir. Ríkisstjórnin lét reka á reiðanum og gerði bókstaflega tilraun til þess að brjóta sjómenn niður í verkfalli með því að reyna ekki að leysa málin áður en verkfall skylli á. Ef það er einhver sem er ábyrgðarlaus í málinu þá er það hæstv. ríkisstjórn og ég tel að það væri í sjálfu sér ekki nema skásta niðurstaðan úr því sem komið er að þessi bráðabirgðalög verði felld hér í þinginu.
    Ég efast ekkert um að sjómenn muni velta því fyrir sér hvort þeir ætli að láta verkfall skella á samstundis eða ekki. Það er einu sinni þannig að skip þurfa að sigla í land og menn þurfa að skoða málin í ljósi stöðunnar ef upp kæmi. Ríkisstjórnin er búin að klúðra þessu máli og sjómenn þurfa að horfa á þá stöðu eins og hún liggur fyrir ef hv. Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu, sem að mínu viti ætti að vera sú eina rétta, þ.e. að fella þessi bráðabirgðalög.
    Hæstv. sjútvrh. var í morgun að ráðast að Alþb. fyrir það að við höfum verið að spyrja dálítið um það hver meiningin væri á bak við þau orð hans að sjútvn. þingsins eigi að fjalla um þær hugmyndir sem hér liggja fyrir um kvótamarkað eða einhverja aðra leið til þess að koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í kvótakaupum. Það kom síðan í ljós í síðari ræðum hans í morgun að hann ætlar nú ekki sjútvn. mjög mikið hlutverk í þessu því hann lýsti því nánast að það væri eingöngu um tvo möguleika að ræða fyrir nefndina til að fjalla um málið. Í fyrsta lagi hugmyndirnar sem koma fram í bráðabirgðalögunum, þ.e. að koma á þessum kvótamarkaði með einhverjum hætti og í öðru lagi að leysa málin með þeim hætti sem aðilar deilunnar gáfust upp við eða gátu ekki komið til enda í sínum samningaviðræðum. Og það var alveg greinilegt á orðum hæstv. ráðherra að hann ætlaði ekki sjútvn. að fjalla um málið opið, með alla möguleika til skoðunar, í tengslum við endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða. Ég held að það væri samt rétt að hæstv. sjútvrh. gerði þinginu betur grein fyrir því hvað hann er að meina, hvaða hlutverk hann telur að hv. sjútvn. eigi að fara með við mótun þessa máls, því í bréfi hans frá 8. febr. til nefndarinnar eru lokaorðin þessi, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið telur því eðlilegt að fyrrgreint frv. til laga um stöðvun verkfalls sjómanna verði afgreitt úr nefndinni en viðskipti með aflaheimildir og skiptakjör komi til umfjöllunar samhliða afgreiðslu fiskveiðistjórnunarfrumvarpsins.``
    Þessi orð er ekki hægt að skilja þannig að sjútvn. eigi að halda sig akkúrat nákvæmlega við hugmyndir ráðuneytisstjóranefndarinnar vegna þess að þarna er bara verið að tala um ágreiningsefnin og síðan að það megi ræða þau og leysa í tengslum við afgreiðslu fiskveiðistjórnunarfrv. Ef menn lesa þetta eins og orðin hljóða þá hlýtur sjútvn. að geta leyst eða skoðað allar hugmyndir til lausnar málsins. Ég held að það væri nú gott og upplýsandi fyrir hv. Alþingi að hæstv. sjútvrh. lýsi því svolítið betur sem hann var að segja í morgun, þ.e. að sjútvn. ætli nánast ekki að skoða málið nema út frá tveimur möguleikum, þ.e. í fyrsta lagi hugmyndinni um kvótaþing og í öðru lagi út frá þeirri stöðu sem hafði verið rædd undir lok samningaviðræðna áður en verkfallið skall á.
    Ég lýsi því hér yfir að ég er tilbúinn að taka þátt í störfum sjútvn. með það fyrir augum að reyna að leysa þessi mál. En menn verða að gera sér fullkomlega grein fyrir því að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi er að hrynja yfir þá sem bera ábyrgð á því og skelfingin er auðvitað farin að koma fram í þeirra gerðum og það er þess vegna sem þessi óskaplegi hringlandi er t.d. á þessu máli að þessir hv. alþingismenn og ráðherrar sem bera ábyrgð á málinu hér inni í þinginu vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir vita ekkert hvernig þeir komast frá þessu máli. Þessi hugmynd um kvótamarkað virðist vera að gufa upp í höndunum á þeim. Þeim datt ekki einu sinni í hug að kanna stuðning ríkisstjórnarliðsins við þessa hugmynd og þess vegna sitja þeir hér uppi með það að ríkisstjórnin hefur ekki nægilegan stuðning til þess að geta leyst málið og kannski hefði hún aldrei gert það þó að hún hefði verið búin að tryggja stuðning þingmanna sinna við hugmyndina.
    Það er vitað að sumir af þingmönnum stjórnarliðsins voru frá upphafi í algerri andstöðu við þessa hugmynd um kvótamarkaðinn. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lá t.d. ekkert á því, annar formaður tvíhöfða nefndar, að hann væri gersamlega andvígur því að leysa málin með þessum hætti og mér er ekki grunlaust um að það hafi verið fleiri í þingliði stjórnarflokkanna. Þannig að hæstv. sjútvrh. ferst ekki að tala um að það sé ekki samstaða í öðrum flokkum um þessi mál eins og þau líta út hjá hans eigin flokki og hann kemst hvorki lönd eða strönd með sínar hugmyndir um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og hefur ekki komist fram að þessu. Þannig liggur það nú, enda hefur vingulsháttur þessarar ríkisstjórnar í málinu verið með þvílíkum eindæmum að það hlýtur að vera tekið mjög eftir því með þjóðinni.
    Hér eru öll mál sem tengjast fiskveiðistjórnunarmálunum að sigla í strand og menn vita nánast ekki hvað er fram undan á næstu dögum, hvað þá lengra fram í tímann, um þessa hluti. Og hvernig á annað að vera þegar þvílík óheilindi hafa verið og viðgengist í þessum málum sem menn standa hér frammi fyrir. Og að þau óheilindi í sjálfu sér skuli speglast í lagatexta sem ríkisstjórnin leggur hér fram er auðvitað lýsandi fyrir málið. Þar bendi ég á það sem hv. 2. þm. Vestf. var að ræða hér í morgun, að í 1. gr. þessa lagatexta segir að það eigi að koma í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör. Hvers vegna skyldi þetta orð óeðlileg áhrif vera inni í lagatextanum? Ég held að allir sem þekkja þetta mál viti hvers vegna. Það er vegna þess að það hefur verið stór og áhrifamikill hópur innan ríkisstjórnarflokkanna sem hefur viljað viðhalda viðskiptum með aflaheimildir og fisk þar sem sjómenn hafa verið látnir taka þátt í kvótakaupum. Það er nákvæmlega þess vegna sem þetta orðalag er inni í lagatextanum. Síðan hafa menn verið að reyna að smokra sér undan þessu og ekki viljað svara því eða túlka hvers vegna þetta orðalag er og hvað það þýði. En það segir auðvitað líka sína sögu.
    En þetta er nákvæmlega svona og það er ekki hægt annað en að rifja upp hvernig málin stóðu undir lok deilunnar, þ.e. áður en bráðbirgðalögin voru sett. Þá stóðu málin þannig að forusta LÍÚ sagði að hún væri tilbúin að standa með sjómönnum í því að koma í veg fyrir að þeir tækju þátt í kvótakaupum, þ.e. ef útgerðarmaður keypti kvóta á sinn bát. Þetta var alveg skýrt og greinilegt og kom fram hjá forustumönnum LÍÚ. En síðan sögðu þeir að þeir vildu viðhalda því kerfi sem hefur viðgengist, þ.e. kaup og sala á fiski og aflaheimildum, sem menn hafa t.d. kallað tonn á móti tonni viðskipti. Það átti að vera löglegt áfram. Og það var vísað hér í yfirlýsingu frá síðustu kjarasamningum sjómanna um þessi mál og í þá yfirlýsingu hafa bæði útvegsmenn og sjómenn sótt sinn rökstuðning en túlkað hvor með sínum hætti. Þannig var forusta LÍÚ í raun og veru að lýsa því yfir að hún teldi að það væri eðlilegt að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum ef það væri gert með þeim hætti sem ég var að lýsa hér áðan og þeir vildu að því yrði viðhaldið. Og hæstv. ríkisstjórn ákvað að hafa inni í lagatextanum þetta orð, að hafa óeðlileg áhrif á skiptakjör, vegna þess að hún vildi hafa opinn möguleika á því að leysa málið þannig að sjómenn yrðu áfram látnir taka þátt í kvótakaupunum.
    Hæstv. sjútvrh. hefur komið sér undan því í þessari umræðu að útskýra fyrir mönnum þetta orðalag og hvað það þýði. Hann hefur hins vegar ítrekað komið í ræðustól og sagt að það eigi að koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í kvótakaupum. Hvers vegna lagði hann þá slíkan lagatexta fram? Ég held að það sé nú kominn tími til að hæstv. ráðherra svari því.
    Síðan held ég að það þurfi að ræða betur hlutverk sjútvn. sem virðist nú vera haldreipi ríkisstjórnarinnar, sem bjargi henni út úr málinu. Það er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja ef ríkisstjórnin meinar þá eitthvað með því að sjútvn. eigi að bjarga þessu máli. Sjútvn. þingsins er að mínu viti besti vettvangurinn til þess að reyna að finna lausn á þessum málefnum sjávarútvegsins. En eigi sjútvn. að leysa þau mál með handjárn á báðum höndum, þá held ég að hún komist hvorki lönd eða strönd. Ef hv. 1. þm. Vestf. á að leiða nefndina í gegnum umræður um fiskveiðistjórnunarmálin með handjárnin á báðum höndum frá ríkisstjórninni, annars vegar um það að setja á einhvers konar kvótamarkað og hins vegar að ekki megi skoða aðrar hugmyndir heldur en þær sem var verið að ræða í sjálfri fiskveiðideilunni, þá sé ég ekki að hann komist langt með að leysa málið inni í sjútvn. En hann svarar því auðvitað svo sem sjálfur. Þetta hljóta menn að skoða í ljósi stöðunnar, þ.e. þess uppreisnarástands sem er núna í landinu og það er ekki síst í kjördæmi hv. 1. þm. Vestf. sem það uppreisnarástand er og ég geri ráð fyrir því að hann sé einn af þeim sem vilji kannski reyna að finna leiðir út úr þessum vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.
    Ég segi það alveg eins og ég hef sagt hér áður í Alþingi, ég tel að Alþingi þurfi að taka á þessu máli og það þurfi að gera það af mikilli alvöru vegna þess að Alþingi Íslendinga hefur komið sjávarútveginum og fólkinu sem býr í sjávarútvegsbyggðunum í þennan vanda, þ.e. vandann sem er orðinn til vegna þessa stjórnkerfis fiskveiðanna. Það er ekki boðlegt að Alþingi Íslendinga hafi í gildi fiskveiðistjórnunarlöggjöf sem segir í einu orðinu að þjóðin eigi saman auðlindina en í framkvæmdinni afhendir hún þessa auðlind í hendurnar á einkaaðilum með ígildi eignarréttar. Og það er nákvæmlega þessi grundvallarvandi sem sjómenn eru að takast á við útgerðarmenn um því að útgerðarmenn í landinu vilja nota þessar veiðiheimildir eins og sína eign einfaldlega vegna þess að Alþingi Íslendinga hefur fengið þeim eignarrétt, ígildi eignarréttar á þessari auðlind. Það er ekki nema eðlilegt að útgerðarmenn líti þá á það sem sína eign og vilji hafa allan arð af þessari auðlind. Svona tvískinnungsháttur gengur ekki og hv. Alþingi verður að gera það upp við sig að annaðhvort verður þetta þjóðareign áfram eða menn þurfa þá að horfast í augu við það að gera þetta að einkaeign eins og það er. Ætla menn þá ekki bara að fella niður ákvæðið í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða um að þjóðin eigi þetta. Ég held að það væri a.m.k. meira samræmi í þeirri afstöðu Alþingis Íslendinga ef það væri gert.
    Það er mín skoðun og ég endurtek það að lokum, hæstv. forseti, að það eigi að fella þessi bráðabirgðalög og að ríkisstjórnin eigi að segja af sér.