Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 14:30:08 (4767)

[14:29]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þremur tillögum til þingsályktunar sem er að finna á þskj. 643, 644 og 645. Í fyrsta lagi er um að ræða fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Rúmeníu, sem undirritaður var í Genf 10. des. 1992. Í öðru lagi milli EFTA-ríkjanna og Ungverjalands, sem undirritaður var í Genf 29. mars 1993, og í þriðja lagi EFTA-ríkjanna og Búlgaríu, sem undirritaður var í Genf sama dag.
    Á árinu 1990 var ákveðið að hefja samningaviðræður um fríverslun milli EFTA-ríkjanna og Póllands, Ungverjalands, Tékklands, Slóvakíu og Tyrklands. Ári síðar var hið sama ákveðið milli EFTA-ríkjanna og Ísraels og árið 1992 milli EFTA-ríkjanna og Búlgaríu og Rúmeníu. Samningaviðræðum við öll þessi ríki lauk með gerð fríverslunarsamninga. Samningarnir milli EFTA-ríkjanna og Póllands, Tékklands, Slóvakíu, Tyrklands og Ísraels hafa þegar tekið gildi, þ.e. milli Íslands og þessara ríkja. Nú er leitað heimilda Alþingis um fullgildingu þeirra fríverslunarsamninga sem enn hafa ekki tekið gildi gagnvart Íslandi, þ.e. við Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjaland.
    Allir umræddir fríverslunarsamningar eru mjög hliðstæðir. Þeir fela í sér fríverslun með iðnaðarvörur, fisk og fiskafurðir og nokkrar vörur unnar úr landbúnaðarhráefnum, þó með heimild til verðjöfnunar á síðasttöldu vörunum. Jafnframt gerðu EFTA-ríkin tvíhliða samninga við umrædd ríki um landbúnað. Þeir samningar eru svo til eins hvað Ísland varðar og ná eingöngu til varnings sem ekki er framleiddur á Íslandi, einkum ávaxta. Viðskipti Íslands við þessi ríki eru tiltölulega lítil um þessar mundir. Á undanförnum árum höfum við einkum flutt út kísilgúr til þeirra. Hins vegar hafa utanrrn. borist fyrirspurnir frá íslenskum fyrirtækjum sem hafa áhuga á að kanna þá auknu möguleika fyrir fiskútflytjendur sem fylgja munu í kjölfar gildistöku samninganna.
    Með þessum samningum og öðrum fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við Mið- og Austur-Evrópuríki ættu í framtíðinni að skapast nýir möguleikar til að auka markaðshlutdeild okkar í þessum ríkjum. Af þeim þremur ríkjum sem hér um ræðir verður því ekki neitað að mestar væntingar eru bundnar við aukningu viðskipta milli Íslands og Ungverjalands á næstu árum.
    Í þáltill. er gerð nánari grein fyrir samningum við Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjaland og viðskipti Íslands við þau ríki.

    Ég leyfi mér að leggja til, virðulegi forseti, að tillögum þessum verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.