Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 15:12:50 (4770)


[15:12]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var sérstaklega eitt atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns sem fékk mig til að bera fram andsvar hér. Það var þar sem hún kom í máli sínu að Náttúruverndarráði og orðaði viðhorf sitt til Náttúruverndarráðs með þeim hætti ef ég hef tekið rétt eftir: ,,Náttúruverndarráð er yfirleitt með neikvæðan tón í garð náttúruverndar`` sagði ræðumaðurinn. ,,Náttúruverndarráð er yfirleitt með neikvæðan tón í garð náttúruverndar.``
    Mér finnst þetta mikið sagt og ég hefði nú talið að ræðumaður þyrfti að rökstyðja fullyrðingu af þessum toga. Ég segi nú einfaldlega, það hefði farið um einhverja úr hennar flokki fyrrum sem báru þennan málaflokk fyrir brjósti og áttu hlut að því að móta þá löggjöf sem hér er verið að umturna með þessum tillögum. En meginhöfundur hennar var sá maður á Alþingi á fyrri tíð sem talaði um þessi mál af mestri nærfærni, einnig með sjónarhorn á þá sem nytja landið og ekki síst þá. Þar er ég að tala um fyrrv. forseta sameinaðs þings og formann Framsfl., Eystein Jónsson, sem var formaður Náttúruverndarráðs um sex ára skeið. Mér finnst satt að segja dapurlegt að heyra þann tón sem hér er uppi hjá talsmanni Framsfl. í þessu máli.