Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 15:17:02 (4772)

[15:17]
     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um náttúruvernd, einkum þann þátt er fjallar um stjórn náttúruverndarmála, þ.e. II. kafla. Ég verð að segja að mér finnst áberandi hversu fáir eru í þingsalnum í dag. Hvort það lýsir áhuga manna fyrir þessum málaflokki er kannski dæmigert því að mér telst svo til að hér séu aðeins þrír þingmenn Alþb., tveir þingmenn Framsfl. og tveir nýgengnir inn, þar að auki ekki einn einasti stjórnarliði að undanskildum umhvrh. sem hér er vonandi ekki bara af illri nauðsyn. Ég verð að segja að ég vorkenni umhvrh. að hafa ekki meiri stuðning af sínum mönnum í þessu máli og það að hér skuli ekki vera einn einasti stjórnarliði segir kannski svolítið um það hvernig þessum málaflokki er komið hjá okkur í dag.
    Þegar umhvrn. var stofnað var náð mikilvægum áfanga í náttúru- og umhverfisvernd. Það hafði tekið langan tíma að koma þessu máli í framkvæmd þrátt fyrir mikla baráttu og það að þörfin væri augljós. Ég tel rétt að horfa aðeins til baka því að það er nauðsynlegt til að skýra nánar athugasemdir mínar sem ég ætla að koma hér á framfæri um þetta frv. En það verður að segjast eins og er að oft hefur sá grunur læðst að manni að stofnun ráðuneytisins hafi komið flatt upp á þáverandi stjórnvöld því að bæði stefnumörkun og markmiðssetning fyrir þessu nýja ráðuneyti lá engan veginn fyrir og var lítið hirt um að öðru leyti en því að tekist var harkalega á um hvar ætti að vista hinar ýmsu stofnanir og ekki síst Landgræðslu

og Skógrækt. Það var þá eins og málefnin skiptu engu verulegu máli heldur eingöngu staða þeirra stofnana sem um væri að ræða. Margar þeirra voru orðnar gamlar og rótgrónar og störfuðu samkvæmt lögum sem voru þá mörg hver orðin börn síns tíma og var svo sannarlega kominn tími til að endurskoða. Það var ein af ástæðum fyrir því að þrýst var á að stofna þetta ráðuneyti að það yrði tekin þarna inn heildarendurskoðun á ýmsum lögum sem snerta þennan málaflokk.
    Það tækifæri sem gafst til endurskoðunar á öllu þessu var í mínum huga einfaldlega ekki nýtt. Það var ekki notað tækifærið til þess að einfalda, gera málið skilvirkara og samræma hlutina og það má segja að það sé ekki fyrr en núna að verið sé að reyna að koma málum í þann farveg sem betur hefði verið gert í upphafi. En það sem hins vegar er dapurlegt er að ég tel að hér sé á engan hátt verið að draga upp neina heildarmynd. Það er verið að taka ýmsa búta og reyna að lappa upp á þá til þess að miða við núverandi aðstæður en það vantar að ég tel einhverja heildarsýn í þennan málaflokk. Það eru ekki dregnar upp neinar heildarlínur, það er verið svona að staga í verstu götin. Því er nefnilega þannig varið eins og reyndar oft hefur komið fram að þessi málaflokkur er býsna umfangsmikill og nær yfir nánast öll svið okkar daglega lífs og því er ekki hægt að setja hann í afmarkaðan bás en lagasmíð öll og allt það sem að henni snýr er flókið mál og þarf að vanda það geysilega vel.
    Hlutverk umhvrn. er í raun hlutverk varðhunds innan stjórnarinnar. Þetta er eins konar stjórnarandstaða í stjórninni með það meginverkefni að samræma og reyna að sjá til þess að önnur ráðuneyti standi sig sem skyldi í umhverfisvernd. Og ég verð að segja það að mér finnst lítið hafa borið á því frá því að umhvrn. var stofnað að þessi varðstaða hafi verið staðin. Það hefur alla vega farið lítið fyrir því. En það sem segir kannski talsvert mikið um þennan málaflokk er að í skýrslu OECD um framkvæmdir umhverfismála á Íslandi eru talin upp um 40 lög og reglugerðir sem snerta þennan málaflokk sem segir okkur dálítið að við erum með flókna hluti í höndunum. Það sem við verðum líka að gæta okkar á er að við förum ekki fram úr okkur sjálfum heldur að við gerum raunhæfar áætlanir í samvinnu við alla þá aðila sem koma að þessu, landeigendur, sveitarstjórnir, áhugamannasamtök og fleiri.
    Ég verð að segja það að það er löngu tímabært að endurskoða gömlu lögin sem eru núna í gildi. Hér hefur verið gagnrýnd starfsemi Náttúruverndarráðs en ég tel það vera geysilega ómaklega gagnrýni af síðasta ræðumanni, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Það kemur mér eiginlega á óvart að hún skuli ekki sýna þessu starfi meiri skilning og þekkingu vegna þess að Náttúruverndarráð núverandi hefur starfað við mjög slæmar aðstæður. Þeim hefur verið gert að gera marga hluti samkvæmt gildandi lögum sem þeir varla hafa verið færir um vegna fjárskorts og mannfæðar, þannig að mér finnst ósanngjarnt að ráðast þannig á náttúruverndarfólk í sömu orðum og verið er að tala um hvað það sé mikilvægt til þess að halda okkar landi hreinu og ómenguðu að verja náttúru landsins. Þannig að mér finnst þetta vera tvískinnungur í ræðu hv. þm.
    Ég minntist á það að við mættum ekki fara fram úr okkur í þessari lagasmíð og gera þetta of flókið en það væri aðalmarkmiðið að reyna að einfalda þetta þannig að það næði til sem flestra. Það er þannig að t.d. skipulagslög og vinna við skipulag sem tengist þessu alveg óhjákvæmilega er reyndar ekkert annað en áætlun og tæki sem hægt er að ná þessu fram í eina heild og það er lítið minnst á þetta tæki í þessu frv. sem hér er til umræðu. Og ég vil endurtaka það að ég hefði frekar kosið að það hefði verið farið öðruvísi í þetta mál, tengja fleiri málaflokka saman, endurskoða þá og samræma fleiri lög. Þess vegna er mér reyndar ekki ljúft að fjalla um einstaka þætti þessa frv. en tel samt af því að ég hef tækifæri hér til að koma ýmsu á framfæri þó að ég hefði viljað að þetta væri nálgun á breiðari grundvelli.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að koma með nokkrar athugasemdir við einstaka þætti frv. Fyrst af öllu finnst mér skrýtið að það skuli aðeins á einum stað minnst Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Það er í tvígang sem það kemur fyrir. Ég held að það sé ekki minnst á Skipulag ríkisins nema einu sinni eða tvisvar í þessu frv. sem mér finnst mjög bagalegt vegna þess að ég get ekki séð að náttúruvernd eða stjórn náttúruverndarmála geti átt sér stað nema þessar stofnanir komi þarna inn í þessa stjórnun.
    Ef ég sný mér aðeins að hinum einstöku greinum þá er talað um að eigi að breyta Náttúruverndarráði í dag, efla það með því að kalla það Landvörslu ríkisins sem heyrir undir umhvrn. Það gerir skrifstofa Náttúruverndarráðs í dag þannig að ég skil eiginlega ekki alveg hver breytingin er. Þetta er rekstur á skrifstofu. Það er reyndar verið að breyta verkefnunum en ég sé ekki ástæðu til þess að breyta rekstrarforminu. Hins vegar þyrfti svo sannarlega að fjölga þar fólki og auðvitað að gera störfin þar skilvirkari og full ástæða til þess að skilja að ýmsa þætti eins og er lagt til og ég held að það sé engin ástæða til annars. En ég skil ekki alveg af hverju þarf að vera að flytja þetta undir umhvrn. þar sem þetta er undir umhvrn. í dag meira og minna. Það væri nægjanlegt að halda því svo til óbreyttu.
    Í 4. gr. eða þeim lið sem á að verða 4. gr. er einmitt talað um Ferðamálaráð, það á að tilnefna í stjórn Landvörslu einn fulltrúa frá Ferðamálaráði. Ég get ekki séð ástæðu til þess. Hvers vegna ekki fulltrúa frá landeigendum, bændasamtökunum, áhugamannasamtökum? Ég sé ekki ástæðu til þess og ég verð að taka undir þá gagnrýni sem ráðherra talaði um að hefði komið frá Náttúruverndarráði þar sem þeir sjá ekki ástæðu til þess að þarna sé einn fulltrúi frá Ferðamálaráði, sem gæti þá fengið óeðlilega mikil áhrif. Og ég verð að segja eins og er að mér finnst Ferðamálaráð í dag ekki vera það burðugt að það eigi að vera með fulltrúa þarna inni. Ég held að það væri alveg skelfilegt slys ef svo færi, alla vega eins og málum er komið fyrir Ferðamálaráði í dag og viðhorf þeirra til náttúruverndar. Í þessari sömu grein er einmitt Ferðamálaráð nefnt alveg séstaklega og ég set aðeins spurningamerki við það.
    Í d-liðnum eða 5. gr. sem á verða er talað um að stofnunin hafi umsjón með öðrum náttúruverndarsvæðum. Ég skil ekki alveg hvað er átt við þar. Hvaða náttúruverndarsvæði í samræmi við ákvæði annarra laga? Ég get ekki alveg áttað mig á þessu en gæti hugsað mér að þetta væri þá svæði sem væri merkt sérstaklega í skipulagi sem náttúruverndarsvæði eða sem væru athyglisverð með einhvers konar verndunargildi og væru þá merkt alveg sérstaklega í skipulagi. En þessi skilgreining þarna, náttúruverndarsvæði, ég átta mig ekki alveg á því og hefði gjarnan viljað fá nánari útskýringu á því.
    Síðar í þessari grein er talað um að Landvarslan skuli hafa forgöngu um fræðslu á svæðum. Það er þessi fræðsluþáttur Landvörslunnar sem ég vil líka aðeins setja smáspurningarmerki við. Auðvitað er hann af hinu góða en ég vil bara benda á það að í dag virðist mér vera um 14--15 aðilar sem meira og minna eru með fræðslu í umhverfis- og náttúruverndarmálum á sinni könnu. Ég held að það þyrfti að skoða það alveg sérstaklega að gera þessa fræðslu svolítið skilvirkari. Það virðist vera eins og margir séu að vinna sömu hlutina og þarna sé kröftum og fjármunum dreift á ansi marga aðila, það þyrfti að reyna að nýta bæði fjármuni og krafta betur. Hvort Landvarslan á að sjá um þetta eins og sett er upp þarna --- hins vegar tek ég fyllilega undir það að hún fái heimild til að reka gestastofur eða koma þeim í gagnið þar sem ástæða þykir til --- ég vil setja aðeins spurningarmerki við þetta og biðja um að það verði skoðað aðeins nánar í sambandi við þá aðila sem tengjast fræðslu í náttúru- og umhverfisvernd hvernig það er.
    Í 9. gr. er talað um náttúruverndarnefndir og ég vil taka undir gagnrýni síðasta ræðumanns, hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Ég skil þannig orð ráðherra að það ætti að gera náttúruverndarnefndina virkari en ég get ekki skilið það út frá þessu frv. hérna. Það er verið að gefa þarna eitthvert vald til héraðsnefnda og ég átta mig ekki alveg á hver þeirra staða verður í þessu, hvort þær hafa möguleika til að sýna eitthvert vægi í þessu.
    Það stendur líka hér að náttúruverndarnefndir skulu hafa bakhjarl í náttúrustofum kjördæma. Það held ég að sé af hinu góða en ég verð að viðurkenna að ég efast um að eins og talað er um náttúruverndarnefndirnar hérna þá hafi þær nægjanlegan þunga. Það er ekki talað um mannvirkjaeftirlit, ég sé ekki alveg hvernig það á að fara fram, hvort það á að tengjast náttúruverndarnefndunum, ég sé það ekki.
    Síðan er í greinum 10--15 meira og minna verið að tala um náttúruverndarþing og Náttúruverndarráð þar sem er boðað að Náttúruverndarráð eigi að vera óháður sjálfstæður aðili og það verð ég að segja, virðulegur forseti, að ég skil ekki hvernig það getur orðið. Ég skil ekki hvernig Náttúruverndarráð getur orðið óháður aðili þar sem það er meira og minna á ríkisframlagi. Ríkið á að sjá um greiðslu launa til eins starfsmanns og sjá um rekstur á þessu. Náttúruverndarráði er gefið talsvert vald þarna. Það á að vera með umsagnir um eitt og annað, en af því sem fram kemur hér og ég les út úr þessu þá get ég ekki séð að Náttúruverndarráð muni þjóna neinum tilgangi og er í raun og veru hissa hvers vegna verið er að eyða svona miklu púðri í þetta í frv. og hvers vegna ráðherra gengur ekki bara skrefið til fulls og leggur þetta alveg niður og fylgir þá þeim tilmælum frá alþjóðasamþykktum, m.a. samþykktum frá ráðstefnunni í Ríó og tilmælum Brundtland-nefndarinnar að gefa meira vald til áhugamannasamtaka því að það er ekki verið að gefa almenningi þarna neinn farveg samkvæmt þessu í að hafa möguleika á að koma skoðun á framfæri því að almenningur hefur það í raun og veru samt sem áður í gegnum umhverfismatið. Almenningur getur beðið um umhverfismat og almenningur getur komið með ábendingar um friðlýsingar hvort sem er þannig að ég tel að þessi skilgreining og þessi lýsing á Náttúruverndarráði, það sé verið að eyða allt of miklu púðri í þetta í frv.
    En ef ég gagnrýni aðeins það sem kemur fram einmitt áhrif á Náttúruverndarráð þá er það í fyrsta lagi ríkisframlagið, að þingið ætlar að reka Náttúruverndarráð. Það á að hafa 5% af árlegum tekjuafgangi Endurvinnslunnar. Ég veit ekki hvað það yrði mikil upphæð og væri sjálfsagt í dag lítið hægt að gera fyrir það. ( Umhvrh.: 350 þúsund kall á síðasta ári.) 350 þúsund kall, segir ráðherra hér. Ég held að það væri ekki mikið sem væri hægt að vinna fyrir það.
    Náttúruverndarráð á að fjalla um lögbundið mat á umhverfisáhrifum. Er það sjálft ráðið sem á að gera það eða er það þessi eini starfsmaður sem á að vera á ríkislaunum? Og hver á að borga ef það er ekki hann? Síðan er talað um að Náttúruverndarráði sé heimilt að ráða eftirlitsmann, einn í hverjum landsfjórðungi, ég skil ekki af hverju það er þá ekki í tengslum við náttúruverndarnefndirnar, hvort það væri ekki réttara að vera frekar í kjördæmum. Það getur ráðið eftirlitsmann en hver á samt að borga? Ég átta mig ekki alveg á því í þessu. Og hvers vegna þá ekki í tengslum við heilbrigðiseftirlitið í hinum ýmsu landshlutum? Hvers vegna ekki að tengja það frekar saman við það og gera það miklu virkara, einnig í tengslum við þessar náttúrustofur og náttúrufræðisetur sem koma upp víða um land.
    Tími minn er búinn. Ég hef fleiri athugasemdir, virðulegur forseti. Í greinargerðinni segir m.a. . . .

    ( Forseti (VS) : Forseti vill benda hv. þm. á að henni er heimilt að tala aftur.)
    Já, þá ætla ég að fá að koma aftur, virðulegi forseti, og ljúka þá máli mínu.