Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 15:49:01 (4780)



[15:49]
     Auður Sveinsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að þessi orð hv. 1. þm. Austurl. segi eiginlega það sem þarf að segja, það sýni hvers konar rugl er í þessum málaflokki að þarna var starfandi fulltrúi sem sinnti umhverfismálum. Það er verið að flytja starfið norður á Akureyri og er ekkert nema gott um það að segja, en allt í einu er það Landgræðsla ríkisins sem á að fara að borga þetta starf. Er það t.d. á fjárlögum fyrir Landgræðslu ríkisins að hún eigi að borga þetta starf, Landgræðslan sem tilheyrir landbrn.? Ég held að það hljóti allir að sjá í hvers konar ógöngum þessi málaflokkur er og hversu þarft er að reyna að hreinsa svolítið til í þessu og gera þetta kerfi skilvirkara. En það er einmitt mjög gott að fá það staðfest, sem ég hafði reyndar heyrt orðróm um, að það væri ekki Ferðamálaráð sem ætlaði að fara að reka starfsemi um umgengni og frágang á ferðamannastöðum heldur Landgræðsla ríkins. Og samkvæmt hvaða lögum ætlar Landgræðsla ríkisins að gera það? Er það samkvæmt landgræðslulögum eða hvaða lögum? Ég átta mig ekki á þessu.