Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 15:50:53 (4781)


[15:50]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við erum að ræða hér frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd sem var boðað fyrst á náttúruverndarþingi í haust. Frv. er því ekki alveg ókunnugt þeim sem þar voru og það var einnig kynnt á ráðstefnu sem Náttúruverndarráð hélt ekki alls fyrir löngu.
    Það má ýmislegt um þetta frv. segja í heildina. Ég vil byrja á því að segja að það var nauðsynlegt og löngu tímabært að endurskoða lögin ekki síst vegna þess að nú er búið að setja á stofn umhvrn.

og eðlilegt að litið verði á lög um náttúruvernd í samhengi við það. Enda var eitt af fyrstu verkum þess umhvrh. sem fyrstur tók við því starfi, ef ég man rétt, að skipa nefnd sem Kvennalistinn var beðinn um að tilnefna fulltrúa í sem við og gerðum. Nefndin átti að hafa það hlutverk að endurskoða lögin. Ég þarf ekki að rekja það nákvæmlega þar sem hæstv. ráðherra gerði það sjálfur og sagði að hann hefði ákveðið að leggja niður þá nefnd og taka ekki mark á því sem hún hafði gert. Alla vega sýnist mér miðað við þær umræður sem fulltrúi okkar lét okkur vita að fram færu í nefndinni að ekki sjái mikið eftir þá nefnd. Það getur vel verið að ráðherranum hafi litist svo illa á allt það sem þau gerðu --- ég hef ekki farið í neinar samanburðarrannsóknir á því enda skiptir það í sjálfu sér engu máli því að sú nefnd var leyst frá störfum og engin nefnd skipuð í staðinn heldur var frv. samið innan veggja umhvrn. en ekki af neinni nefnd sem aðrir komu að eftir því sem mér skilst. En frv. er komið og ég tek undir það sem hér var sagt. Ég held að það hafi verið hv. 9. þm. Reykv. sem talaði um að hún saknaði þess að ekki væri litið víðar á málið, þ.e. að tekið væri heildstætt á lögum um náttúruvernd. Ég tek undir þau ummæli hennar og tel að það hefði verið miklu eðlilegra að líta á þetta í víðara samhengi því það er erfitt að sjá annað fyrir sér en það þurfi fljótlega aftur að endurskipuleggja þessi lög og stjórnunina á þessum málaflokki. Það er því spurning hvort ekki hefði verið eðlilegra að gera það með þeim hætti. Alla vega varð ég fyrir vonbrigðum að fá ekki frv. þar sem um var að ræða meiri yfirsýn yfir málaflokkinn en hér er. En gott og vel. Ég ætla ekki að ræða það meira núna þar sem við erum að ræða um þetta eina frv.
    Í skemmstu máli má segja að frv. gerir ráð fyrir því að Náttúruverndarráð missi sitt hlutverk. Það kom fram í máli ráðherrans og er lögð áhersla á það í frv. að Náttúruverndarráð verði sjálfstæður umsagnar- og eftirlitsaðili. Það er út af fyrir sig ágætt og auðvitað á Náttúruverndarráð að vera sem sjálfstæðast ef það er til staðar, en það kemur hvergi fram og ég á frekar erfitt með átta mig á því hvernig á að fara með þeirra álit. Það stendur í frv. að það þurfi að leita álits þeirra á ýmsum málum, og síðan hvað? Hvað svo?
    Það hafa flestir rétt á því að láta álit sitt í ljós en það er spurning hversu mikilvægt það álit er. Mér þykir mjög mikilvægt að það sé einhver gagnrýnin rödd í umhverfismálum og að tekið sé mark á því sem sú rödd segir. Það hefur einnig verið rætt um að það eigi að efla náttúruverndarnefndir og ég tek undir það sem var bent á varðandi þær. Hvernig eflast þær ef þeim er fækkað? Ég átta mig ekki alveg á því hvernig það tengist þessum lögum. Það er sama með Náttúruverndarráð og náttúruverndarnefndirnar. Ef maður hefur ekkert vald og enga peninga, þá getur maður ekkert gert.
    Eitt af því sem hefur verið talað mest um varðandi kvennabaráttu er að það að hafa ekki völd og ekki peninga hamlar mest. Það er þess vegna sem konur hafa engin völd og það gildir nákvæmlega það sama um þá sem eiga að vernda náttúruna. Ef þeir hafa enga peninga og engin völd, þá er ákaflega erfitt að sjá hvernig þeir eiga að koma áliti sínu á framfæri eða hafa þau áhrif sem ég tel mikilvæg að þeir hafi. Þess vegna finnst mér að það þurfi að vera nokkuð ljóst hvernig þetta á að geta farið saman.
    Það er eitt atriði af því að hæstv. ráðherra lagði áherslu á það og það kemur fram í 1. gr. k, sem á að verða 12. gr., að leita skuli eftir áliti Náttúruverndarráðs á öllum lagafrumvörpum á sviði náttúruverndar áður en þau eru lögð fram á Alþingi. Ég tel að þetta standist bara engan veginn skoðun, þetta gengur ekki upp. Það getur vel verið að umhvrn. geti haft það fyrir vinnureglu að öll lagafrumvörp sem umhvrn. ákveður að leggja fram á sviði náttúruverndar verði lögð fyrir Náttúruverndarráð, en ég tel útilokað að hægt sé að lögbinda þetta þannig að þingmenn geti ekki lagt fram lagafrv. um náttúruvernd án þess að spyrja Náttúruverndarráð um álit. Þetta er tæknilegt atriði en ekki efnislegt og skiptir kannski ekki höfuðmáli heldur er bara smáatriði. Mér fannst þetta vera eitthvað sem þyrfti að lagfæra og var ekkert að spekúlera sérstaklega í þessu þegar ég sá greinina en af því að hæstv. ráðherra minntist sérstaklega á þetta, þá ætla ég að spyrja hvernig þetta er komið í frv., hvort þetta sé byggt á einhverjum fordæmum. Ég held að það gangi ekki upp að þingmenn og reyndar ráðherra líka, sem eru þingmenn, geti ekki lagt fram frumvörp án þess að spyrja Náttúruverndarráð um leyfi ef það er á sviði náttúruverndar. Ekki svo að skilja að ég sé eitthvað á móti því að ráðið geti sagt álit sitt og það getur vel verið að margir biðji um álit en að það sé einhver skylda í lögum held ég að standist ekki. En eins og ég segi er þetta tæknilegt atriði frekar en efnislegt í sjálfu sér.
    Ég set ákveðið spurningarmerki við það hvernig gert er ráð fyrir að friðlýsingar fari fram. Ég tel að það sé ákaflega óheppilegt að ráðherra, þó að hann geti verið ágætur sem persóna og hafi allar góðar meiningar, geti ákveðið friðlýsingar að eigin geðþótta. Mér finnst það vera kerfi sem ég er ekki alveg viss um að geti gengið upp, þ.e. ekki þurfi að vera ákveðið ferli sem þarna eigi sér stað. Ég er síst af öllu á móti því að lokaákvörðun sé í höndum ráðherra, eins og er gert ráð fyrir og mér þykir eðlilegt, en það sé ekki, ef ég má orða það svo, geðþóttaákvörðun ráðherra. Ég vil taka það fram að ég er ekki þar með að segja að það verði endilega eitthvað óheppilegt en það gæti hugsanlega orðið til þess að einhver ákveðinn ráðherra sem sest í stól umhvrh. ákveður að friðlýsa þetta og þetta og þetta og svo kemur næsti ráðherra og ákveður að friðlýsa þannig að þetta verði kögrað um allt land. Það getur vel verið að við viljum friðlýsa landið í heild með þeim takmörkunum sem það getur haft í för með sér um nýtingu, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist á að væri til mikillar bölvunar að náttúruverndarfólk hefði kannski einhverjar athugasemdir við. En það gæti orðið svolítið vandasamt ef búið væri að friðlýsa landið á einhvern hátt án þess að um ákveðna stefnu væri að ræða í því máli vegna þess að við skiptum um umhvrh. --- alla

vega höfum við haft þá þrjá núna frá því að umhvrn. var stofnað. ( Umhvrh.: Er þetta ósk um að þessi sé tekinn . . .  ?) Sú sem hér stendur heyrði ekki athugasemd ráðherrans en hann mun sjálfsagt láta hana í ljós á eftir.
    Ég hef efasemdir um ýmislegt sem kemur fram í frv. og vil ég í því sambandi benda á að á fundi um stefnu í náttúruvernd sem ég var á þar sem þetta frv. var m.a. kynnt, raunar var ekki bara verið að ræða þetta frv., komu ýmsar athugasemdir fram og hæstv. ráðherra minntist á álit Náttúruverndarráðs í því sambandi. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að beinar athugasemdir Náttúruverndarráðs voru ekki mjög margar til viðbótar við þær sem þegar hafði verið tekið tillit til miðað við það sem ég hafði undir höndum en við fengum afrit af athugasemdum Náttúruverndarráðs. Beinar tillögur þess sem ekki var tekið tillit til voru ekki mjög margar fyrir utan það sem ráðherrann minntist á nema að því er friðlýsingarsjóð varðaði. Að mínu mati var það stærsta atriðið af þeirra athugasemdum en hitt var t.d. um kjörgengi og kosningarrétt sem eru tæknileg atriði sem má alveg laga ef út í það er farið en efnislega var það fyrst og fremst þetta.
    Hins vegar voru nokkrar athugasemdir miklu loðnari sem var sagt að ráðið hefði bent á og umræður urðu um hin og önnur atriði sem þarna komu fram. Það var alveg greinilegt á þessum fundi að í raun og veru höfðu nokkrir aðilar innan Náttúruverndarráðs miklu víðtækari athugasemdir við frv. en kom fram í áliti ráðsins. Það var því tiltölulega erfitt að átta sig á því hvaða þætti menn settu stærstu spurningarmerkin við. Þó held ég að í máli nokkurra sem þar töluðu hafi það nokkuð verið ljóst. Þótt ég hafi ekki skrifað allt hjá mér í smáatriðum, þá reyndi ég að taka það eitthvað niður þar sem við sem erum í umhvn. eigum að fjalla um þetta mál.
    Ég vil benda á þessi atriði við 1. umr. málsins. Auðvitað á umhvn. bæði eftir að senda þetta frv. til umsagnar og vinna málið og vonandi getum við fjallað um það, eins og menn hafa talað um, með vönduðum hætti. Ég reikna með að þótt stuttur tími sé til þingloka muni okkur gefast tækifæri til að fjalla um þetta mál. Að vísu erum við búin að fá mörg mál og við erum ekki búin að skipuleggja okkar störf nákvæmlega fram á vorið en auðvitað reynum við að vinna hratt og vel eins og við höfum krafta og getu til.
    Mig langar að minnast á nokkur atriði í framhaldi af ræðu sérstaklega hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerðar Sverrisdóttur, sem talaði um að Náttúruverndarráð væri með neikvæðan tón í umræðunni um náttúruvernd. Það má vel vera að það sé rétt, ekki ætla ég að segja neitt til um það. Ég hef ekki verið svo oft á fundum þar sem fulltrúi Náttúruverndarráðs hefur talað fyrir hönd þess. Mér hefur oft fundist vanta nógu framsækna stefnu hjá Náttúruverndarráði ef eitthvað er þannig að það kom mér nokkuð á óvart að heyra þetta. Sjálfsagt má ýmislegt gagnrýna af hálfu Náttúruverndarráðs að því er varðar samskipti við fólk úti um land. Ég skal ekkert um það segja, en ég var frekar ósátt við tóninn sem hv. þm. sendi ráðinu í ræðu sinni. Hún vildi skipta fólki upp í náttúruverndarfólk og notaði orðið náttúruverndarfólk, að mér fannst, í neikvæðri merkingu sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við. Ég held að svo margir séu náttúruverndarsinnar þegar að er gáð þó að það séu ekki endilega þeir sem tala hæst og mest og séu að því er mörgum finnst með neikvæðan tón. Mér finnst samt mjög slæmt að heyra það að þeir sem tala um umhverfisvernd og bera hag náttúrunnar fyrir brjósti, kannski með stórum orðum, ég veit ekki hvort það er of stórt fyrir smekk hv. þm., en síðan séu það hinir sem vilji nýta og þá væntanlega bændur. Mér finnst mjög slæmt að skipta fólki upp á þennan hátt. Ég tel mig t.d. vera í hópi þeirra sem kallast náttúruverndarsinnar eða umhverfisverndarsinnar en ég er líka mikil nýtingarmanneskja. Ég hef t.d. talið að hvalur sé nýtanleg auðlind. Mér hefur stundum fundist mjög sérkennilegt að þeir sem vilja ekki nýta hvali eru kallaðir umhverfissinnar og hinir ekki. Mér hefur alltaf fundist það mjög sérkennilegt og mér finnst mjög hættulegt að vera að skipta fólki upp með þeim hætti að það sé náttúruverndarfólk og svo þeir sem vilja lifa af landinu og nýta það með skynsamlegum hætti. Ég er algerlega sammála hv. þm. að umgengni við landið í heild hefur batnað mjög mikið og fólk er orðið miklu meira vakandi fyrir því að ekki megi vaða yfir og ofnýta landið frekar en aðrar auðlindir náttúrunnar. Ég verð því að viðurkenna það að sá tónn sem mér fannst hv. 3. þm. Norðurl. e. senda Náttúruverndarráði og náttúruverndarfólki heldur neikvæður og þótti mér það miður.
    Ég vona að hún líti ekki svo á að þeir sem vilji nýta landið, og þá fyrst og fremst bændur, séu í einum flokki sem geti alls ekki rekist með þeim sem hugsa um náttúruvernd. Ég vil sjálf meina að það sé mjög auðvelt að samræma það og það megi alls ekki stilla þessum hópum upp sem andstæðum hvor öðrum.