Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 16:26:10 (4785)


[16:26]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Er frv. þetta unnið í umhvrn. að því er hér hefur verið upplýst af hæstv. ráðherra og starfsmönnum hans tveimur sem getið er í greinargerð, aðstoðarmanni hans og fyrrv. skrifstofustjóra í ráðuneytinu að mér skilst. Það er ekki nema góðra gjalda vert og ágætt að hér sé tilefni til að fjalla um þessi mál, ræða þær tillögur sem hér liggja fyrir um breytingu á lögum um náttúruvernd.
    Ég verð hins vegar að segja að það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að sjá þá vinnu sem hér er fram komin í frumvarpsformi vegna innihaldsins. Jafnframt tel ég misheppnað að taka ekki á endurskoðun á lögum um náttúruvernd í einu lagi þar sem í frv. er þó fjallað um mjög gildan þátt laganna og áreiðanlega helmingur af lögunum, og raunar kannski meira hvað snertir umfang, samkvæmt þessum áfanga sem hæstv. ráðherra lýsir svo.
    Áður en ég kem, virðulegur forseti, að frv. sjálfu og efni þess ætla ég aðeins að fara yfir bakgrunn þessa máls eins og hann blasir við mér. Árið 1990 var með ákvörðun þáv. ríkisstjórnar góðu heilli, a.m.k. 15 árum of seint, sett á fót ráðuneyti umhverfismála. Auðvitað búum við að því að svo illa skyldi til hafa tekist, fyrst og fremst vegna rammrar og eindreginnar andstöðu Sjálfstfl., að koma þessu ráðuneyti á fót hliðstætt því sem orðin var staðreynd í öðrum Evrópulöndum áður. Ég held að við höfum verið eitthvert allra síðasta land Evrópu til þess að ná saman um þennan þýðingarmikla málaflokk í Stjórnarráði Íslands. Nú hefur þetta ráðuneyti starfað í um fjögurra ára skeið og þó að stofnun þess hafi verið afar mikilsverð, þá vantar mjög mikið á að staðið hafi verið að þessu ráðuneyti hvað snertir aðbúnað og málasvið sem eðlilegt væri.
    Hér er um að ræða mikilvægan málaflokk og verður ekki vefengt að að því er varðar opinbera stjórnsýslu ætti umhvrn. að vera í fyrsta sæti. En ef það ætti ekki að vera í fyrsta sæti gæti í mesta falli fjmrn. og sú stýring sem þar fer fram þolað samjöfnuð að því er varðar opinbera umsýslu. Og það er orðið viðurkennt, a.m.k. í orði, því miður ekki á borði, af stjórnmálaflokkum, að umhverfismálin séu orðin það mikið meginmál að þau þurfi að taka með svo burðugum hætti að þau endurspeglist í allri stjórnsýslu og allir þættir stjórnsýslu fái komið að í sambandi við þau.
    Ég er ekki þar með að segja að það eigi allt að ráðast í gegnum umhvrn., langt frá því. En umhvrn. þarf að vera stjórnstöð þessara mála í Stjórnarráði Íslands og til þess að geta verið það þá þurfum við annað og burðugra ráðuneyti heldur en tekist hefur að efna til hingað til. Það munu starfa í þessu ráðuneyti u.þ.b. 15 manns. Stöðugildin munu vera um 15, dreifð á margar deildir sem reynt hefur verið að skipa ráðuneytinu í og það eru einn eða tveir í þeim flestum. Einn eða tveir einstaklingar sem eiga að sinna heilu málasviðunum í þessum þýðingarmikla málaflokki og tengslum við þær veiku stofnanir í flestum tilvikum sem undir ráðuneytið heyra.
    Ég tel að mikilsverðasta verkefnið nú í sambandi við endurskoðun umhverfismálanna að því er varðar Stjórnarráðið og stjórnsýsluna, langmikilvægasta málið, sé það að koma þessari stjórnstöð í það horf að það sé einhver von til þess að hún geti rækt hlutverk sitt og risið undir nafni. Staðan er sú í þessu ráðuneyti nú að það er t.d. aðeins einum manni ætlað það hlutverk að sinna náttúruverndarsviðinu eins og stendur í þessu ráðuneyti. Og þó að hæstv. ráðherra hafi mikinn áhuga á þessum málaflokki og láti til sín taka í þeim efnum, þá verð ég að segja að mér finnst þetta ekki skaplegt. Mér finnst það mjög langt frá því og ég hefði í stöðu hæstv. umhvrh. lagt á það ríka áherslu að leita samstöðu um það á Alþingi að bæta úr þessari stöðu því á því er knýjandi nauðsyn.
    Við sjáum það sem vinnum í umhvn. að það er erfitt fyrir þetta fámenna ráðuneyti að marka þannig stefnu í þessum þýðingarmiklu málum að það sé gengið svona þokkalega frá endunum. Það er ekkert skrýtið. Við vorum að afgreiða í dag og lögfesta frv. til laga um dýravernd, auðvitað samið á ábyrgð nefndar, en sem þurfti mikla yfirlegu af hálfu þingnefndar. Það skal ekki lastað að þingnefndir þurfi að skoða mál og breyta málum en það skiptir auðvitað verulegu máli, a.m.k. hversu hraða afgreiðslu mál geta fengið, hvernig þau eru fram borin. Ég verð að segja það að mér finnst að þetta frv. sem hér liggur fyrir beri vott um þetta, að það hafi því miður verið kastað mjög til þess hendi og það sé langt frá því að það hafi verið reynt í sambandi við skoðun málsins að tengja það við eða kalla til aðila sem gætu lagt fram góð ráð um stefnumótunina.
    Og það verður ekki hjá því komist, virðulegur forseti, að nefna það að nú er hæstv. núv. umhvrh. þriðji ráðherra sem gegnir þessu starfi. Á undan honum var annar hæstv. umhvrh. sem Alþfl. lagði til. Áður var það flokkur sem er horfinn af sviðinu sem lagði til þann fyrsta og það var kannski ekki það líklegasta til þess að undirstaðan yrði sem skyldi að það skyldi lagt í hendur flokki sem var tekinn svona eins og til uppbóta inn í ríkisstjórn á sínum tíma og hafði lítið sem ekkert um þessi mál fjallað á sínum vegum. En síðan er það Alþfl. sem tekur við ráðuneytinu og ég efast ekkert um það og sagði það oft hér í þingræðum, virðulegur forseti, að þáv. hæstv. umhvrh. hafði góðan hug til þessara mála, hann bar góðan hug til málaflokksins. Hann vildi gera vel. En því miður, hann náði ekki að tengja þessi mál t.d. inn í þingið og út í þjóðfélagið þannig að það fengist sá styrkur og stuðningur við málaflokkinn sem þarf að vera og er til staðar ef menn leita eftir honum, ef menn kunna að leita eftir honum.
    Hæstv. fyrrv. umhvrh. Eiður Guðnason leitaði til þingflokkanna á Alþingi og bað þá um að leggja til fólk í nefnd til endurskoðunar á náttúruverndarlöggjöfinni. Það vildi svo til að ég var beðinn um það af þingflokki Alþb. að fara í þetta verk og hæstv. ráðherra gat um þessa nefnd, þessa stjórnskipuðu nefnd sem var ætlað að endurskoða lög um náttúruvernd, endurskoða náttúruverndarlöggjöfina, sérstaklega stjórnunarþáttinn, en gera tillögur um aðra þá þætti til breytinga á lögunum sem nefndinni þætti viðeigandi. Þessi nefnd hafði starfað í rétt rúmt ár þegar hætt var að kalla hana saman. Síðan verða skipti á ráðherrum í ráðuneytinu og hæstv. núv. ráðherra sníður þessa nefnd af án nokkurra skýringa, án nokkurra viðræðna við

nefndina, án nokkurra skýringa í því bréfi sem við fengum seint og um síðir. Ég frétti það utan úr bæ að búið væri að taka ákvörðun um að leggja þessa stjórnskipuðu nefnd af, sem hafði þó haldið 20 fundi, rætt mikið. Og ég tel að það sé ekki nefndarinnar sök að hún hafði ekki skilað sínum tillögum á þeim tíma sem hún hafði þarna haft til umráða. Það skorti eitthvað á það að þau tengsl væru á milli ráðherrans og ráðuneytisins og forustunnar í nefndinni sem þurfti til að skila viðunandi verki á þessum tíma. Það var það sem á bjátaði og öll þessi málafylgja á ábyrgð ráðuneytisins. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Á þessu ber Alþfl. einn ábyrgð að svona er haldið á málum. Síðan er vent kvæði í kross. Því sem þarna var búið að ræða og fjalla um kastað bara í burtu, kallaðir til starfsmenn í ráðuneytinu ásamt ráðherranum til að setja saman frv. sem við höfum hér fyrir okkur.
    Ég á ýmis gögn úr starfi fyrrv. nefndar. Það kom aldrei fram hugmynd um Landvörslu ríkisins eða að leggja niður Náttúruverndarráð inn á þann vettvang, kom aldrei fram hugmynd um það, ekki í skriflegu formi a.m.k., í hugmyndaskipuriti sem lagt er fram í apríl 1992 á borð okkar í nefndinni og margt eftir því. Þannig að þetta er ekki nógu gott. Ég held að hæstv. umhvrh. hefði gert rétt í því, ég er ekki að segja að hann hefði átt að kveðja, hann gat vel lagt þessa nefnd af, en hann þurfti að tengja þetta mál með einhverjum hætti út, til aðila sem hafa sinnt þessum málum og sýnt þeim áhuga, til stuðnings við það ágæta fólk og þá ágætu fulltrúa sem hann setti í verkin innan húss. Þeir sjá ekki til allra átta og þeir hafa auðvitað takmörkuð tengsl eins og gengur og eru yfirhlaðnir verkefnum í þessu fámenna ráðuneyti.
    Síðan er það að haldið er náttúruverndarþing sl. haust og fyrir þingið kemur með fremur stuttum fyrirvara tillaga þáv. Náttúruverndarráðs að stefnu í náttúruvernd og það er boðað sem aðalverkefni þingsins. Ég er með þessa tillögu hér á borðinu, að stefnumörkun í náttúruvernd, virðulegur forseti. Og að því er varðar stjórnsýsluna og það efni sem hér er uppi, þá er ýmislegt sem er ágætt, margt gott í þessari stefnumörkun. Þar er m.a. lagt til í VIII. kafla, um skipan náttúruverndarmála, að stofnuð verði sérstök deild, svonefnd landvarsla, undir yfirstjórn Náttúruverndarráðs og annist hún eftirlit, rekstur og viðhald þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða. Sérstök deild undir yfirstjórn Náttúruverndarráðs.
    Síðan kemur hæstv. ráðherra inn á þingið og fer að boða sína stefnu sem gengur í veigamiklum atriðum í allt aðra átt heldur en sú stefna sem Náttúruverndarráð er að leggja fyrir þennan vettvang, í allt aðra átt. Látum það nú vera. Síðan ætlast ráðherrann til þess, og sendi sína fulltrúa með það fram á vettvang þingsins, að fá þingið, sem hlýddi á ráðherrann fyrri dag þingsins, til þess að blessa niðurstöðuna í máli ráðherrans daginn eftir. Þetta eru því miður vinnubrögð af þeim toga svo andstætt því sem ég hélt nú að hæstv. umhvrh. mundi viðhafa sem er margsæmdur heiðursmerkjum lýðræðiskynslóðarinnar, að ég best veit, að hann skuli ganga fram með þeim hætti sem þarna um ræðir. Ætla að knýja fram stefnumörkun, sem ekki var búið að lýsa inn í innihaldið af, á einum eða tveimur dögum.
    Það varð niðurstaða þessa þings að það þyrfti að fjalla frekar um málin. Það var ákveðið að halda ráðstefnu og hún var haldin 19. febr. sl. Það er mjög skammt síðan. Mót vonum kom þar ekki fram endurskoðuð stefna Náttúruverndarráðs og úrvinnsla hennar, enda ráðið náttúrlega sett í þá úlfakreppu að ráðherrann er að láta vinna að frv. um náttúruvernd á sínum vegum á sama tíma og ráðið ætlar sér að móta stefnuna. Og ráðherrann knýr Náttúruverndarráð með tveggja eða þriggja daga fyrirvara til þess að éta ofan í sig drög að eigin stefnumörkun og blessa afurðina sem menn hafa hér á borðum og heimtar það að ráðið á einum einasta fundi taki afstöðu til þessara tillagna. Á einum degi.
    Ég harma vinnubrögð af þessum toga. Þau geta ekki leitt til farsællar niðurstöðu. Þau greiða a.m.k. ekki fyrir því að það takist að afgreiða endurskoðun á lögum á þeim tíma sem er áreiðanlega ætlun umhvrn. að reyna að fá hér í gegn á Alþingi. Þetta eru vinnubrögð sem ég vara mjög eindregið við og ég botna ekkert í núv. hæstv. umhvrh. að standa svona að málum.
    Frv. sem við erum með hér á borðum okkar felur í sér breytingar, virðulegur forseti, á þremur meginatriðum, sem lýtur að stjórn náttúruverndarmála. Það er í fyrsta lagi það sem að Náttúruverndarráði snýr, sem ráðherrann boðaði á haustdögum að ætti að verða sjálfstætt og óháð. Úr því hafa nú verið dregnar tennurnar samkvæmt þessum hugmyndum að því er varðar verksvið, en því er samt ætlað að vera á kafi í verkefnum á vegum ríkisins samkvæmt frv. Þannig að það er ekki einu sinni að það sé samhljómur í þeirri stefnumörkun sem ráðherrann dró upp á haustdögum og er að reyna að framfylgja hér samkvæmt þessu frv. að því er Náttúruverndarráð varðar. Því er ætlað heilmikil verkefni en skilið eftir úti í kuldanum með þeim hætti sem þetta frv. ber með sér og sú umsögn sem því fylgir og sem ráðherra leggur blessun yfir þegar hann ber þetta frv. hér fram sem sitt frá fjmrn. Menn ættu að kynna sér það til þess að sjá hvað hér er á ferðinni að því er varðar möguleika þeirra aðila sem eiga að sinna þessum málum, hvort sem það er Náttúruverndarráð, Landvarsla eða aðrir, til þess að ná einhverjum árangri og hafa möguleika til þess.
    Síðan er þessu svokallaða óháða Náttúruverndarráði ætlað að innbyrða með lagaboði fulltrúa frá Ferðamálaráði Íslands, einum helsta notanda landsins, sem er ætlað að eiga lögskipaðan fulltrúa á þessum vettvangi og Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem er ætlað að skipa mann samkvæmt lögum inn á þennan vettvang. Það er út af fyrir sig annars eðlis heldur en hugmyndin um Ferðamálaráð, en mér sýnist að hún gangi mjög illa upp. Hún rímar ekki saman við það sem ráðherrann þóttist ætla að fá fram í sambandi við þetta frjálsa og óháða Náttúruverndarráð, sem á að vera á kafi í stjórnsýsluverkefnum samkvæmt tillögunum.
    Síðan er verið að setja á fót Landvörslu ríkisins. Það er annar meginþáttur, virðulegi forseti, Landvarsla ríkisins sem á að taka við stjórnun friðlýstra svæða og fjölmörgu öðru sem hefur verið á verksviði Náttúruverndaráðs. Hún á m.a. að vera umsagnaraðili og ráðgjafaraðili og tillöguaðili varðandi friðlýsingar, svona fyrir ráðherrann því hann ætlar að taka það allt inn á sitt borð, allar ákvarðanir um þau efni og frumkvæði í friðlýsingarmálum. Það er það sem felst í tillögunum. Og þessari Landvörslu ríkisins er sett þriggja manna stjórn. Það er náttúrlega fulltrúi ráðherra sem er yfir stjórninni. Þarna kemur einnig fulltrúi tilnefndur af Ferðamálaráði Íslands, aðalnotanda landsins, hliðstætt því að setja einhverja fulltrúa atvinnurekstrar inn í ráðið því auðvitað er ferðaþjónustan mikill og vaxandi atvinnurekstur. Þriðji aðilinn sem þarna á að koma er svo tilnefndur af Náttúruverndarráði, hinu frjálsa og óháða. Hinu frjálsa og óháða Náttúruverndarráði sem á nú að fara að vasast í öllu saman í gegnum Landvörslu ríkisins. Þetta er slíkt furðuverk í lagasmíð sem hér er á ferðinni að ég undrast það að hæstv. ráðherra skuli gera hugmyndir af þessum toga að sínum. Ég undrast það.
    Þriðji þátturinn, virðulegi forseti, varðar síðan friðlýsingarmálin og þar er hæstv. ráðherra farinn að praktisera lögin, þ.e. frv. eins og lög væru. Hann er farinn að sýna okkur það í verki hvernig hann ætlar að halda áfram með auknum styrk, með lagabókstaf sér til stuðnings. Það sjáum við í tillögum um þjóðgarð undir Jökli sem hæstv. ráðherra lagði inn á borð ríkisstjórnar hér á dögunum, hristi út úr ermi sinni, nánast án þess að tala við kóng eða prest. En honum verður alltíðlitið til Vesturlands upp á síðkastið og harma ég það út af fyrir sig ekki. Vesturland er alls góðs maklegt. Austur hefur hann horft líka og unnið þar ágætt verk því að það er langt frá því að hæstv. umhvrh. séu mislagðar hendur á öllum sviðum, það er langt frá því. Hann hefur gert margt ágætt og margt gott frá honum komið, en maður líður önn fyrir það þegar tillögur af þessum toga, virðulegur forseti, birtast hér á borðum okkar alþingismanna.